þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Sköpun · Heim · Einu sinni var… »

Óhefðbundin ljóð eftir okkur Sveinbjörn

Þorkell @ 23.23 19/9/03

Hér eru nokkur ljóð sem við Sveinbjörn frændi minn ortum fyrir nokkrum árum. Ljóðin eru nokkuð óhefðbundin, en markmið okkar var einmitt að brjóta upp formið. Ljóðin voru reyndar miklu fleiri en ég fann aðeins þessi. Ég mun láta hin inn seinna ef þau koma í leitirnar.

Snákar og franska byltingin

Franskir fornleifafræðingar hafa komist að því að snákafaraldur geisaði í Frakklandi við upphaf frönsku byltingarinnar árið 1789. Hafa þeir fengið styrk frá ESB til að rannsaka, í samvinnu við evrópska sagnfræðinga, möguleg tengsl faraldursins og byltingarinnar. Ástæðan fyrir faraldinum er enn ókunn en fræðimönnum hefur þótt undarlegt að líkamsleifar snákanna hafa eingöngu fundist nálægt eplatrjám.

Guðsmælir


Nú hafa kaþólskir vísindamenn við St. John háskólann þróað mælitæki sem mælir Guð. Hægt er að mæla trúarhita fólks sem og viðveru Guðs á ákveðnum stöðum. Mesta athygli vakti að Guð mældist illa á Suðurpólnum, á skalanum 1-10 mældist varla eitt guðsstig. Guðfræðingar eru ekki á einu máli um hvernig beri að túlka þessar niðurstöður. Sumir telja mælinguna lága vegna þess að Guð er þar sem hans er þörf og komi því sjaldan við á fámennum stöðum eins og Suðurpólnum. Aðrir guðfræðingar telja ástæðuna frekar vera þá að fáir séu á suðurpólnum vegna þess að Guð kemur þar sjaldan við. Þar sem Guðs nýtur ekki við sé ekki kjörlendi manna. Trúleysingjar telja þessar mælingar hins vegar sanna það sem félagsvísindi hafi lengi haldið fram. Guð skapaði ekki manninn, heldur maðurinn Guð. Þetta sanni það sem þeir hafi alltaf sagt að Guð sé aðeins hugarfóstur veikgeðja manna og því sé engin furða að Guð mælist illa á Suðurpólnum, þar sem fáir búa og þess utan flestir þeirra velgefnir vísindamenn.

Ráðning Viggós viðutans

Í fréttum er þetta helst. Skoðunarkönnun Gallups um ráðningu Viggó viðutans sem skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar sýnir að 87% borgarbúa eru mjög eða frekar ósáttir við ráðninguna. Það er því greinilegt að borgarbúum er ekki skemmt yfir þessum embættisfærslum, svo vægt sé til orða tekið. Í viðtali við borgarstjóra í morgunn sagði hann það varla sæta furðu að ráðning Viggós kæmi ill út í skoðunarkönnunum, enda hafi fjölmiðlar aldrei áður beitt sér eins harkalega gegn mannaráðningum. Þetta væri því langt frá því að vera hlutlaus könnun. Þetta séu múgæsingar og að sannleikurinn hafi ekki fengið að tala. Aðspurður hvort málinu hafi ekki verið þröngvað í gegnum borgarráð með því að bera það undir atkvæði nóttina fyrir sumarleyfi borgarfulltrúa sagði borgarstjóri það vera af og frá. Stjórnaransaðan hafði fullan aðgang að öllum skjölum sem vörðuðu ráðningu Viggós og hefði því mjög auðveldlega getað kynnt sér málið í tíma og borið fram mótmæli. Segir borgarstjóri það vera tóma firru að halda því fram að hér hafi verið um myrkraverk að ræða.

Aðspurður hvort ekki væri vafasamt að ráða mann með litla menntun sem í ofan á lag væri almennt ekki talinn vera til, sagði borgarstjóri Viggó hafa þó nokkra skipulagsreynslu, nokkuð sem aðrir umsækjendur hefðu ekki. Á þeim þremur mánuðum sem liðnir væru hefði Viggó svo sannarlega sannað ágæti sitt. Engar kvartanir hafi borist vegna embættisfærslna hans og hafa samstarfsmenn hans ekkert út á störf hans að setja. Sagði hann jafnframt að nútíma stjórnunarhættir kræfust þess ekki að fólk væri á staðnum, þar kæmi t.d. netið og tölvupósturinn til. Viggó viðutan byggi úti á landi. Hann væri sannur landsbyggðamaður. Það væri rökleysa ein og með eindæmum lákúrulegur áróður stjórnarandstöðu að halda því fram að maðurinn væri ekki til vegna þess að enginn hafi séð hann. Við verðum að viðurkenna rétt landsbyggðarfólks til stjórnunnarstarfa í höfuðborg sinni sagði borgarstjóri að lokum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í skipulagsstjóra.

Úr dagbók snáksins

Í dag er ég bara viku gamall, en þrátt fyrir barnungan aldur hefur ég af ósekju verið aflimaður og kastað úr í óbyggðirnar. Og vegna hvers? Nú, ég er fyrstu auglýsingamaðurinn. Hann Guð gat ekki sætt sig við að mín slagorð voru kúl og þau fúnkeruðu! ólíkt fljótfærnislegum hræðsluáróðri hans. Ef honum þótti uppfræðsla Evu róttæk hvað ætli hann muni þá segja við öllum þeim menntastofnunum sem ég ætla mér að stofnsetja síðar meir?

Í dag henti ég epli í hausinn á Newton. Ég er viss um að þegar hann kynnir uppgötvun sína á þyngdarlögmálinu mun hann ekki minnast einu orði á minn hlut.

Í dag er ég langt niðri. Ég komst yfir alfræðiorðabækur og viti snákar! Maðurinn hefur rænt öllum helstu uppgötvunum mínum, þrátt fyrir að lögun sumra þeirra beri upprunanum glöggt vitni. Lítið á spjótið, geimskutlurnar, garðslöngurnar, ryksugurnar, sippubandið, reykháfana, veiðistöngina, sverðið, riffilinn, ormaholur geimsins og svo mætti lengi telja. Þessi svívirða nær hámarki er stangveiðimaðurinn þræðir frænda á öngulinn. Guð myndi kalla stuld af þessu tagi Guðlast og Freud hefði sagt þetta merki um dulvitundarlega upprunahöfnun.

Hverja eruð þið að blekkja? Hvaðan halda þið að maðurinn hafi fengið hugmyndina að hjólinu? Skoðið sneiðmyndatöku af fagurlöguðum líkama mínum eða ígrundið hinar fjölmörgu myndir af mér í hjólastellingunni. Vitið þér enn eða hvað?

url: http://thorkell.annall.is/2003-09-19/23.23.30/

Athugasemdir

Fjöldi 11, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 20/9/2003 09.15

Athyglisvert og áhugavert aflestrar.

Eva @ 20/9/2003 12.28

Brjóta upp formið??? Hvaða form? Það eru margir áratugir síðan prósaljóð urðu viðurkennd bókmenntagrein og alla 20. öldina hefur kveðskapur undir hefðbundnum bragarháttum verið talinn til lágmenningar.

Þetta eru alveg þokkalegir textar hjá ykkur frændum en langt frá því að vera frumlegir.

Binni @ 20/9/2003 12.47

Þetta eru áhugaverðar pælingar. Ég myndi þó ekki kalla þetta ljóð, heldur prósaljóð, jafnvel vinjettur (sbr. Ármann Reynisson).

Ég er ósammála Evu um að hefðbundnir bragarhættir teljist til lágmenningar. Ætli þeir teljist ekki heldur til hámenningar, enda er afar sjaldgæft að sjá slíkan kveðskap nú á dögum.

Þorkell @ 20/9/2003 12.58

Eva spyr: “Brjóta upp formið??? Hvaða form?”

Ég held að Binni svari þessu reyndar þegar hann segir: “Ég myndi þó ekki kalla þetta ljóð.” Það er einmitt það sem ég var að meina. Fólk lítur ekki á fréttastíl eða dagbókaform sem ljóð. Við vildum brjóta niður múrana þar á milli.

Sveinbjörn Kristinn @ 20/9/2003 17.56

Við frændur röðuðum þessum orðum saman – okkur til gamans, upp í Guðfræðideild HÍ, eitthvert árið á síðustu öld.
Eru þetta opin ljóð, prósaljóð,örsögur,atomljóð?
Þetta er ekki “LJÓÐRÆNN” samsetningur, en gæti samt kallast ljóð og ljóð er einnig texti, orð.
Ég hafði einhverjum árum fyrr birt stutt ljóð, sum aðeins þrjú orð (mjög ljóðræn:)- svo vissulega vorum við “að brjóta upp formið” – en naumhyggja var
algeng í ljóðagerð tíunda áratugarinns. Jamm, þetta var til gamans gert og við blessunnarlega lausir við kröfur, svo sem um frumlegheit.

eva @ 20/9/2003 18.56

Þetta er ekkert ósvipað sumu af því sem t.d. Einar Már og Þórarinn Eldjárn hafa gert. Andri Snær er líka með þennan óljóðræna stíl. Og já það má svosem deila um það hvernig á að flokka þessa texta.

Hvað hámenningu og lágmenningu varðar þá lifir hefðbundinn kveðskapur fyrst og fremst í söngtextum og þykir allavega ekki nógu merkilegur til þess að bókaútgefendur hafi haldið honum á lofti, nema þá kveðskap þjóðskáldanna. Af þeim skáldum sem bar mest á eftir miðja 20. öld eru það helst Guðmundur Böðvarsson og Jónas Árnason sem hafa notið einhverrar virðingar. Ég man ekki til þess síðustu 10 árin (án þess að ég útiloki að eitthvað kunni að hafa farið fram hjá mér) að hjá forlagi hafi komið út ein einasta ljóðabók sem inniheldur rímaðan kveðskap eftir skáld sem er enn á lífi. M.a.s. Hákon Aðalssteinsson gefur bækur sínar út á eigin kostnað.

Binni @ 20/9/2003 20.33

Er útgefið efni eini mælikvarðinn á þetta, Eva? Heldurðu að útáfufélögin hafi þetta allt í hendi sér, hvað sé vinsælt og hverjir njóti virðingar o.s.frv.? Kannski er mest gefið út af óhefðbundnum kveðskap vegna þess að annað selst ekki. Landinn er þreyttur á formum. Hann vill afþreyingu, eitthvað nógu assg*** létt.

eva @ 21/9/2003 20.14

Útgefið efni er mælikvarði á það hvað er talið til hámenningar og hvað ekki. Yfirleitt nýtur svokölluð lágmenning mun meiri vinsælda en hámenning. Það á einnig við um ljóðagerð.

Það sem útgefendur leggja áherslu á er ekki afþreyingarefni. Ingibjörg Haraldsdóttir og Þorsteinn frá Hamri eru t.d. algerlega laus við gáska. Þau ljóð sem ná vinsældum eru fyrst og fremst þau sem eru sönghæf. T.d. þekkja margir þau af kvæðum Þórarins Eldjárn sem Stuðmenn fluttu á sínum tíma en fáir þekkja hinsvegar Ydd þótt það sé prýðisgóð ljóðabók. Allir þekkja Megas, fáir Stefán Hörð Grímsson.

Landinn er ekkert þreyttur á formum. Hann bara fær ekki það sem hann vill, vegna þess að útgáfustefna forlaganna miðast við bókmenntaelítuna en ekki almenning.

Árni Svanur @ 21/9/2003 20.59

Af því að hér er rætt um ljóð þá má ég til með að vekja athygli á ljóðadiskinum Flugmaður sem er samstarfsverkefni Andra Snæs Magnasonar og Múm. Þar eru ljóðin lesin. Þau eru prýðilega saman og í þessari framsetningu afskaplega áheyrileg.

Kristian Guttesen @ 20/12/2003 12.12

Gaf ekki Hörpuútgáfan út Imbruna hans Hákons fyrir jólin 2002? Ágæt bók sú.

Kristian Guttesen @ 20/12/2003 12.17

Mér finnst frétta- og dagbókaformið skemmtilegt ljóðform. Hægt að nota það til margs. Og alveg rétt, Einar Már hefur jú nýtt sér það, sbr. Í draumum var þetta helst (Skæruliðar hafa umkringt Vatnaskóg!) …

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli