þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Babylon 5 · Heim · Er ástin eins og sinueldur? »

Islam og ævi Múhameðs

Þorkell @ 02.09 28/9/03

Hér er bókin sem ég skrifaði um islam fyrir Námsgagnastofnun í þeirri útgáfu sem ég vildi að kæmi fyrir sjónir almennings. Þegar hér var komið sögu hafði ég stytt hana nokkuð mikið, en var samt sáttur við útkomuna, þótt margt hafi fengið að fjúka.

Islam

og ævi Múhameðs

Efnisyfirlit

Kafli 1: Islam og múslimar

Nafna- og greftrunarsiðir í islam
Ísmael

Kafli 2: Samfélagið sem Múhameð ólst upp í

Kaaba og átrúnaður araba

Kafli 3: Æska Múhameðs og fyrstu manndómsár

Hvernig leit Múhameð út?

Kafli 4: Opinberun Múhameðs

Kóraninn

Kafli 5: Múhameð boðar nýja trú

Aðeins einn Guð

Kafli 6: Árásir á Múhameð og fylgjendur hans

Konur í islam

Kafli 7: Flóttinn til Medínu

Helgidagar múslima

Kafli 8: Múhameð kemur til Medínu

Helgistaðir múslima og moskur
Jihad

Kafli 9: Múhameð snýr aftur til Mekku

Afstaða til annarra trúarbragða

Kafli 10: Síðustu ár Múhameðs

Stoðirnar fimm

Kafli 11: Arfleið islams

Múslimar á Íslandi

Islam og múslimar

Í þessari bók lærir þú um trúarbrögð sem heita islam, en fimmta hvert mannsbarn í heiminum játar þá trú. Í bókinni er ævi Múhameðs rakin og greint frá því hvernig munaðarlaus drengur breytti mannkynssögunni og kom á friði á Arabíuskaganum. Inn á milli er að finna kassa þar sem fjallað er um afmarkaða þætti, til dæmis hvernig Múhameð leit út, konur í islam, helgistaði múslima og samfélag þeirra á Íslandi.

Það fyrsta sem mörgum dettur í hug þegar minnst er á islam er kúgun kvenna, heilagt stríð og hryðjuverk. Ástæðan er fyrst og fremst sú að nær allar fréttir sem við heyrum um múslima eru neikvæðar. Sjaldan heyrum við eitthvað jákvætt um það sem er að gerast í islömskum löndum og fæst okkar þekkja einhverja múslima persónulega. Þetta er svipað og ef múslimi ætti enga kristna vini og það eina sem hann heyrði um kristnar þjóðir væri sögur af Hitler. Þessi múslimi myndi líklega halda að allt kristið fólk væri kynþáttahatarar. Það er einmitt svona sem fordómar verða til.

Við verðum að læra að greina á milli trúarbragðanna og fylgjenda þeirra. Kristin trú og kristnir menn eru t.d. ekki það sama. Við vitum það öll að kristið fólk er yfirleitt gott fólk, en það er einnig til kristið fólk sem lifir ekki samkvæmt kristnum gildum. En þótt til séu syndugir kristnir menn þá merkir það ekki að kristin trú sé slæm. Það sama á við um islam.

[Kassi:]

Nafna- og greftrunarsiðir í islam

Í flestum trúarbrögðum eru einhverskonar siðir eins og skírn, ferming og útfarir. Í islam er ekki skírn eins og í kristinni trú en um leið og barnið fæðist er það þvegið og bæn hvíslað í sitt hvort eyra þess. Þá er hunang eða sykur settur á tunguna, sem ósk um hamingjusamt líf. Nafnahátíð er síðan haldin þegar barnið er sjö daga gamalt, en þá fær barnið islamskt nafn. Höfuð barnsins er þá rakað og fátækum síðan gefið þyngd hárs þess í silfri. Strákar eru umskurnir á þessum degi, rétt eins og tíðkast á meðal gyðinga.

Útfarir eru einnig frábrugðnar því sem við eigum að venjast. Þegar múslimi deyr er líkami hans þveginn vel og síðan vafinn í hvítt klæði. Útförin fer síðan fram eins fljótt og auðið er, en ekki eftir viku eða tíu daga eins og á Íslandi. Hinn látni er látinn liggja á hægri hlið og andlit hans látið snúa til Mekku, helgustu borg múslima.

Islam er arabískt orð en það þýðir ,,undirgefni“ eða ,,hlýðni“. Orðið er náskylt arabíska orðinu ,,salam“ sem merkir ,,friður“. Því má segja að islam merki: ,,sá friður sem fæst þegar maður hlýðir Guði“. Sá sem játar islam kallast múslimi en það heiti er líka komið úr arabísku og þýðir ,,sá sem er undirgefinn“.

Algengur misskilningur er að múslimar trúi á Allah. Það er í raun jafn fráleitt að segja að múslimar trúi á Allah og segja að Englendingar trúi á ,,God“ eða Danir á ,,Gud“. Allah þýðir ,,Guðinn“ á arabísku (með greini) og er því ekki nafn eða heiti. Múslimar trúa á Guð eins og kristnir menn eða gyðingar. Í helgustu bók múslima, Kóraninum, rifjar Guð til dæmis upp gjörðir sínar og segir:

Minnist þess þegar við björguðum ykkur frá lýð Faraós, sem veitti ykkur harða ráðningu. Þeir drápu sveinbörnin og leyfðu aðeins stúlkubörnunum að lifa. Þetta var að sönnu þung prófraun frá Drottni.

Og við klufum hafið fyrir ykkur og björguðum ykkur og í augsýn ykkar drekktum við lýð Faraós.

Og þegar við ræddum við Móse í fjörutíu nætur drýgðuð þið þá synd að dýrka kálfinn í fjarvist hans.

Samt sem áður fyrirgáfum við ykkur þetta, svo þið mættuð vera þakklát. (2:46-49).

Múslimar líta reyndar ekki svo á að Múhameð hafi boðað nýja trú, heldur telja þeir að islam hafi alltaf verið til. Guð hafi opinberað islam í gegnum tíðina með því að senda boðbera, eins og Abraham, Móse og Jesú Krist. Mannkynið hafi síðan villst af leið og gleymt því sem Guð opinberaði þessum boðberum. Þess vegna hafi Guð þurft að senda nýjan spámann til að leiða mannkynið aftur á rétta braut. Samkvæmt múslimum er islam því ekki ný trúarbrögð heldur framhald fyrri trúarbragða, eins og gyðingdóms og kristni.

Gyðingar og arabar eiga sameiginlegan uppruna. Eins og þú manst líklega eftir úr kristinfræðinni átti Abraham tvo syni. Annar hét Ísmael og hinn Ísak. Löng hefð er fyrir því að líta svo á að arabar séu afkomendur Ísmaels og gyðingar afkomendur Ísaks. Þessar tvær ættkvíslir eiga því sameiginlegan ættföður, Abraham. Skyldleika þeirra má einnig marka af því að tungumál þeirra, hebreska og arabíska, eru náskyld.

[Kassi:]

Ísmael

Löng hefð er fyrir því að líta á Ísmael sem forföður araba en Ísak sem forföður gyðinga. Í Biblíunni segir að engill Drottins hafi komið til Hagar, móður Ísmaels, þegar hún gekk með hann og sagt: „Ég mun fjölga niðjum þínum svo að tölu verði ekki á þá komið. Þú ert þunguð og munt ala son. Þú skalt láta hann heita Ísmael því að Drottinn hefur heyrt kveinstafi þína.“ (1M 16:10-11). Hér er orðaleikur því nafnið Ísmael merkir ,,Guð hefur heyrt.“

Stuttu síðar eignaðist Sara Ísak en hún öfundaði Ísmael og Hagar og rak þau burt. Hagar fór með drenginn út í eyðimörkina en þegar vatnið þraut óttaðist hún að þau myndu deyja og grét hástöfum. En Guð heyrði grát þeirra og sendi engil sinn til Hagar og sagði: „Hvað amar að þér, Hagar? Óttast þú ekki því að Guð hefur heyrt grát sveinsins þar sem hann liggur. Stattu upp, reistu drenginn á fætur og leiddu hann þér við hönd því að ég mun gera hann að mikilli þjóð.“ Og Guð lauk upp augum hennar svo að hún sá vatnslind, fór og fyllti vatnsbelginn og gaf drengnum að drekka. Guð var með sveininum og hann óx og settist að í óbyggðunum og gerðist bogmaður. (1M 21:9-20).

Áður en við snúum okkur að ævi Múhameðs skulum við huga að samfélaginu sem hann ólst upp í.

Samfélagið sem Múhameð ólst upp í

Múhameð fæddist á Arabíuskaga, nánar tiltekið í Mekku. Nú á dögum er Mekka í Sádi Arabíu. Það var ekki auðvelt að búa á þessu landsvæði því Arabíuskaginn er þurr og nánast gróðurlaus. Íbúarnir á svæðinu voru flestir hirðingjar sem flökkuðu um eyðimörkina með búpening sinn. Lífið var erfitt á þessum tíma og grimmd ríkti í samskiptum manna. Hirðingjarnir lifðu ekki aðeins á búpeningi sínum og verslunum heldur rændu þeir einnig stöðugt hver frá öðrum og fóru í ránsferðir til þeirra fáu bæja sem myndast höfðu í eyðimörkinni. Hirðingjarnir, eða bedúínarnir eins og þeir eru oft kallaðir, litu ekki á sig sem eina þjóð og áttu í stöðugum erjum og átökum sín á milli.

Á Arabíuskaga voru margir ættbálkar og innan þeirra margar fjölskyldur. Ættarbönd skiptu miklu máli í þessu samfélagi og var fólk ekki metið vegna eigin verðleika heldur vegna fjölskyldu sinnar. Sá sem ekki var af göfugri eða ríkri ætt átti erfitt uppdráttar, sama hversu mikið í hann var spunnið.

Í þessu samfélagi var engin lögregla eða her til að halda uppi lögum og reglum. Ef einhver drap einhvern úr fjölskyldunni var það skylda að hefna hans. Slík blóðhefnd gat varað í marga ættliði, þar sem alltaf var verið að hefna dauða einhvers. Á tímum Múhameðs voru átök og blóðhefndir því ríkur þáttur í lífi manna á Arabíuskaganum.

Í þessu samfélagi var hinn ,,fullkomni karlmaður“ sá sem var í senn grimmur og stoltur. Hann ávann sér virðingu annarra með árásarhneigð og hefndarþorsta. Karlinn gat leyft sér margskonar lífsnautnir en konan laut yfirráðum föður og eiginmanns og varð að hlýða þeim í einu og öllu.

[Kassi:]

Kaaba og átrúnaður araba

Á tímum Múhameðs hafði hver ættbálkur sinn guð, en slíkur átrúnaður kallast fjölgyðistrú. Sagan segir að á sínum tíma hafi guðirnir verið alls 360 talsins. Eins og oft í fjölgyðistrú voru guðirnir tengdir náttúrufyrirbærum eins og steinum, trjám, uppsprettum, sólinni og mismunandi stjörnum. Allir þessir guðir höfðu sín líkneski en svo kallast styttur sem gerðar voru af guðunum. Litið var svo á að guðirnir tækju sér bólfestu í líkneskjunum.

Eins og áður sagði var Múhameð fæddur í borginni Mekka. Þar er kassalaga musteri sem heitir Kaaba, en á arabísku þýðir það teningur. Í þessu musteri voru líkneski af flestum þeim guðum sem fólkið tilbað og því var það afar heilagt. Það var hefð að bedúínar færu í pílagrímsferðir til Mekku að tilbiðja guði sína.

Í musterinu er svartur steinn sem er mesti helgidómur þess. Sagan segir að engill hafi gefið Abraham þennan stein og hafi hann þá verið hvítur sem mjólk. Síðan dökknaði hann vegna synda mannanna. Guð skipaði Abraham og Ísmael að byggja Kaaba og áttu horn musterisins að tákna höfuðáttirnar fjórar. Þegar þeir höfðu lokið smíði helgidómsins sagði Guð þeim að leggja steininn í austurhornið og þar er hann enn í dag.

Mekka var mikilvæg verslunarborg og högnuðust margir borgarbúar vel á viðskiptum. En gróði verslunarmannanna varð þó ekki öllum til góðs því stöðugt breikkaði bilið á milli hinna fátæku og ríku. Í Mekku voru ættarböndin ekki eins sterk og annars staðar á Arabíuskaganum. Fólk hugsaði aðeins um eigin hag og því sultu margir munaðarleysingjar, ekkjur, sjúklingar og fátækir og urðu jafnvel hungurmorða.

Múhameð ólst þannig upp í grimmu og spilltu samfélagi þar sem illdeilur voru daglegt brauð. Múslimar kalla tímann fyrir islam ,,daga fáfræðinnar“.

Æska Múhameðs og fyrstu manndómsár

Múhameð fæddist líklega árið 570 eftir Krist. Fjölskylda Múhameðs var vel efnuð en það tryggði honum ekki áhyggjulausa æsku. Faðir hans lést áður en Múhameð fæddist og móðir hans féll frá þegar hann var aðeins sex ára. Afi hans tók hann að sér en aðeins tveimur árum síðar andaðist hann líka. Þá tók frændi Múhameðs, Abu Talib, hann í fóstur og ól hann upp. Frændinn var fátækur og því þurfti Múhameð að hjálpa honum að gæta hjarðarinnar. Abu Talib tók Múhameð einnig stundum með sér í verslunarleiðangra.

[Kassi:]

Hvernig leit Múhameð út?

Múslimum er bannað að mála helgimyndir af Múhameð vegna þess að það gæti leitt til þess að fólk færi að tilbiðja myndina. Af þessum sökum hefur ekkert samtímamálverk varðveist af Múhameð. Hins vegar hafa ritaðar lýsingar varðveist. Samkvæmt þeim var Múhameð grannur og meðalmaður á hæð. Hann var höfuðstór og axlabreiður en samsvaraði sér vel að öðru leyti. Hár hans og skegg var þykkt, svart og eilítið liðað og náði hvort tveggja niður fyrir eyru. Yfirvaraskeggið var þó ekki látið vaxa niður fyrir efrivör. Hann var með tignarlegt enni, stór augu, óvenjulega löng augnhár og þykkar augabrúnir, bogalaga en þó ekki samgrónar. Hann er ýmist sagður svart- eða brúneygur og jafnvel ljósbrúneygur. Hann var með kónganef en fíngerðar varir. Þá var hann ljós á hörund en sólbrúnn og sagt er að geislað hafi af andliti hans, sérstaklega augum og enni.

Eins og áður sagði skipti fjölskyldan miklu máli í því samfélagi sem Múhameð ólst upp í. Því var það honum ekki aðeins harmsefni að missa foreldra sína og afa heldur gerði það uppvaxtarárin erfið. Sú reynsla hafði mikil áhrif á hann og hann sýndi snemma umhyggju þeim sem voru utangarðs og áttu bágt, ekki síst fátækum og munaðarlausum.

En þótt furðulegt megi virðast urðu þessar raunir honum einnig til framdráttar. Þar sem hann átti enga foreldra varð hann sonur margra. Hann þurfti að aðlaga sig ýmsum aðstæðum og varð fyrir vikið umburðarlyndur. Múhameð var þekktur fyrir blíða lund og hreint hjartalag. Hann lærði aldrei að lesa eða skrifa en var vel gefinn og gæddur persónutöfrum.

Þegar Múhameð komst á legg gerðist hann verslunarmaður. Hann var þekktur fyrir heiðarleik í viðskiptum og öðlaðist virðingu margra fyrir vikið. Auðug ekkja, Khadija að nafni, frétti af þessu og réði hann í vinnu til sín. Þegar hún kynntist Múhameð betur varð hún ástfangin af honum, boðaði hann á fund sinn og bað hann að giftast sér. Hún sagði: ,,Ég elska þig vegna þess að þú ert áreiðanlegur, hrífandi og sannsögull.“ Múhameð var einnig ástfanginn af Khadiju og gekk að eiga hana. Hann var þá 25 ára en hún var 15 árum eldri. Samband þeirra var mjög náið og unni Múhameð henni afar heitt. Sagan segir að Guð hafi hughreyst Múhameð með tilstyrk Khadiju, því hún hjálpaði honum í erfiðleikum hans. Saman áttu þau nokkur börn, en þeirra kunnast var dóttirin Fatima sem átti eftir að gegna veigamiklu hlutverki í sögu islam. Fatima var uppáhalds dóttir Múhameðs en hún var þekkt fyrir að bera umhyggju fyrir hinum fátæku. Hún tók virkan þátt í opinberu lífi og prédikaði til dæmis í moskum. Fatima er mikilvæg fyrirmynd margra kvenna í islam.

Opinberun Múhameðs

Miklar vonir voru bundnar við Múhameð og fannst mörgum sem þar færi einn hæfileikaríkasti maður sinnar kynslóðar. Flestir bjuggust við því að hann yrði höfðingi síns ættbálks. En Múhameð var leitandi og hafði lítinn áhuga á valdastöðum eða auðsöfnun. Hann fann ekki lífsfyllingu í átrúnaði samlanda sinna og honum mislíkaði stöðugar erjur og átök ættbálkanna og hvernig komið var fram við fátæka og munaðarleysingja. Hann var einnig farinn að sannfærast um að það væri rangt að tilbiðja marga guði, því aðeins væri til einn Guð. Múhameð óttaðist að Guð myndi brátt gefast upp á samlöndum sínum og refsa þeim harkalega, rétt eins og hann hafði gert á dögum Nóa og við Sódómu og Gómorru. Til að íhuga þessi mál fór Múhameð reglulega einn síns liðs upp í helli í Hira-fjalli rétt hjá Mekku. Þar vafði hann utan um sig teppi, sat einn síns liðs tímunum samann og hugleiddi spillingu samfélagsins og tilgang lífsins.

Eitt sinn þegar Múhameð fór upp í hellinn sinn á fjallinu Hira gerðist atburður sem átti eftir að gjörbreyta lífi íbúanna á Arabíuskaga og í raun heimsins alls. Sagan segir að þegar Múhameð sat í hellinum og íhugaði ástand samfélagsins birtist Gabríel erkiengill sem ávarpaði hann og sagði: ,,Kunngjörðu!“ Múhameð svaraði og sagði: ,,Ég er enginn kallari.“ Þá tók engillinn Múhameð í fangið svo þéttingsfast að honum lá við köfnun. Þá sleppti hann honum og sagði aftur: ,,Kunngjörðu.“ Aftur sagði Múhameð: ,,Ég er enginn kallari.“ Og aftur tók engillinn hann í fangið svo fast að hann náði ekki andanum. Og þegar engillinn skipaði honum að kunngera í þriðja sinn mótmælti Múhameð enn einu sinni. Þá tók engillinn hann aftur í fangið og sagði:

Kunngjörðu í nafni Drottins sem skóp,
skóp manninn úr blóðkekki.
Kunngjörðu! Því Drottinn þinn er af öllum örlátastur.
Hann hefur kennt manninum listina að skrifa
Hann hefur uppfrætt manninn um það sem hann eigi vissi. [Kóraninn 96:1-5]

Múhameð var skiljanlega mjög brugðið og honum fannst sem orð Gabríels væru brennd í sálu hans. Hann flýtti sér heim, en á leiðinni heyrði hann kallað: ,,Þú ert boðberi Guðs, Múhameð, og ég er Gabríel“. Þegar Múhameð leit við sá hann engilinn standa fyrir aftan sig, svo stóran að hann gnæfði við himin. Þegar Múhameð kom heim bað hann Khadiju að breiða eitthvað yfir sig. Henni var brugðið að sjá hversu Múhameð skalf af hræðslu og náði strax í yfirhöfn og breiddi yfir hann. Þegar Múhameð hafði jafnað sig sagði hann Khadiju að hann væri annað hvort orðinn spámaður eða brjálaður. Eftir að Khadija hafði heyrt alla söguna fór hún á fund frænda síns Waraqah, sem var kristinn, og sagði honum hvað Múhameð hafði séð og heyrt. Waraqah var sannfærður um að Guð hefði vitjað Múhameðs og sagði: ,,Múhameð er spámaður þessa lýðs. Segðu honum að óttast ekki.“ Khadija snéri því aftur til Múhameðs og sagði: ,,Fagnaðu, elsku maðurinn minn, og taktu gleði þína á ný. Þú ert spámaður fólksins.“ Khadija og Waraqah voru því fyrstu átrúendurnir. Múhameð var um fertugt þegar hann fékk sína fyrstu opinberun í hellinum en síðar var þessi næturstund nefnd ,,nótt máttarins“. Sumir múslimar halda því fram að þessari nótt fylgi slíkur kraftur að ár hvert þegar hún gengur í garð megi heyra grasið vaxa og trén tala og þeir sem verði vitni að því verði dýrlingar eða vitringar.

[Kassi:]

Kóraninn

Flestir kristnir menn líta svo á að Jesús Kristur hafi verið sonur Guðs. Múslimar líta hins vegar ekki á Múhameð sem son Guðs heldur aðeins sem góðan mann sem Guð hafi útvalið. Hins vegar líta múslimar svo á að Kóraninn endurspegli Guð og er hann því heilagur í augum þeirra. Nafnið Kóran er komið úr arabísku og merkir að hafa yfir, þylja eða endursegja. Kóraninn er ef til vill mest lesna bók í heiminum og örugglega sú bók sem flestir hafa lagt á minnið. Múhameð hélt því sjálfur fram að Kóraninn væri mesta kraftaverkið sem Guð hafði unnið í gegnum hann og sagði bókina vera ,,varanlegt kraftaverk“.

Kóraninn er örlítið styttri en Nýja testamentið en hann er settur saman úr 114 köflum. Bókinni er raðað þannig upp að lengstu kaflarnir eru fremst en þeir stystu aftast. Kafli tvö er t.d. 286 vers, kafli þrjú 200 vers og kafli 114 aðeins 6 vers. Fyrsti kaflinn er þó stuttur. Hann er nokkurs konar Faðirvor múslima sem þeir fara með hvern einasta dag. Bænin hljómar svo:

Í nafni Guðs hins milda og miskunnsama.
Lofaður sé Guð, Drottinn veraldanna!
Hinn mildi og miskunnsami!
Konungur dómsdagsins!
Þig einan tilbiðjum við og þig biðjum við hjálpar.
Leið okkur á hinn rétta veg,
vegu þeirra sem þú hefur auðsýnt miskunn, þeirra sem eigi sæta reiði þinni og fara ekki villur vegar. [Kóraninn 1:1-6]

Í Kóraninum er oft vísað í Biblíuna. Þessar bækur eru þó nokkuð ólíkar. Biblían er fjölbreytt verk og þar má finna fagrar og kynngimagnaðar frásagnir, sálma og spakmæli um verk Guðs og þeirra sem á hann trúa. Kóraninn er hins vegar nær eingöngu safn af ræðum sem múslimar trúa að flytji mönnunum boðskap Guðs. Það sem gerir Kóraninn áhrifamikinn er ekki aðeins það sem sagt er heldur hvernig versin hljóma á arabísku. Þess vegna vilja múslimar ekki þýða Kóraninn en hvetja fólk þess í stað til að læra arabísku.

Múhameð hafði enga meðvitaða stjórn á þeim opinberunum sem hann fékk. Sagan segir að hann hafi verið sem í leiðslu þegar Guð talaði til hans. Þetta hélt áfram í meira en 20 ár, en Múhameð var ólæs og því féll það í hlut annarra að skrifa boðskapinn niður og halda honum til haga. Þennan boðskap er að finna í Kóraninum.

Múhameð boðar nýja trú

Til að byrja með höfðu opinberanir Múhameðs lítil áhrif á ytra samfélagið í Mekku, enda sagði Múhameð aðeins nánustu vinum sínum frá þeim. Árið 613 fékk Múhameð hins vegar eftirfarandi skipun:

Rís upp og varaðu við [...]
Sýndu þolinmæði fyrir sakir Drottins þíns
því þegar lúðurinn gellur
rennur upp dagur angistar. [Kóraninn 74:2-9]

Eftir þetta hóf Múhameð að skýra opinberlega frá vitrunum sínum. Þótt margir hrifust af boðskapnum og tækju trú, brugðust fleiri illa við og ofsóttu Múhameð og fylgjendur hans. Múhameð þurfti svo sannarlega að vera minnugur orða Guðs um að taka ofsóknum með ,,þolinmæði“. En hvað var það í boðskap Múhameðs sem vakti svo heiftarleg viðbrögð og reiði?

Múhameð fullyrti að til væri aðeins einn Guð en ekki margir guðir, eins og samlandar hans trúðu. Hann hæddist meira að segja að átrúnaði forfeðranna og sagði:

Samt taka þeir fram yfir hann guði sem ekkert hafa skapað og voru sjálfir skapaðir.

Og ekki geta þeir orðið sjálfum sér til góðs eða ills og eigi hafa þeir dauðann eða lífið í höndum sér né upprisu frá dauðum. [Kóraninn 25:3-4]

Múhameð kenndi að mennirnir væru skapaðir til þess að tilbiðja og þjóna Guði. Hugmyndin virðist kannski ekki byltingarkennd en það var hún engu að síður. Ef maðurinn var skapaður til að elska Guð og þjóna honum einum, skipti samband hans við Guð meira máli en tengslin við fjölskylduna eða ættbálkinn. Þetta þýddi að allir menn voru jafnir frammi fyrir Guði, sama af hvaða kynstofni eða ætt þeir voru, eða hvaða stöðu þeir gegndu. Það voru gerðir mannsins sem skiptu máli, ekki veraldlegar eigur eða ættgöfgi. Þar með voru hinir fátæku á meðal múslima orðnir jafnir hinum ríku. Guð fór ekki í manngreinarálit.

[Kassi:]

Aðeins einn Guð

Múhameð boðaði að Guð hefði skapað manninn til að tilbiðja sig. Maðurinn á að vera fulltrúi Guðs á jörðu og lifa samkvæmt fyrirmælum og leiðbeiningum hans. Tilbeiðsla felst ekki aðeins í því að leggjast á bæn heldur einnig í því að auðsýna sömu miskunn og kærleika og Guð hefur gert. Sannir múslimar eiga því að líkja eftir Guði og vera miskunnsamir, kærleiksríkir, réttlátir og hjálpsamir. Í Kóraninum er Múhameð t.d. skipað að sýna munaðarlausum og fátækum sömu miskunn og Guð hafði sýnt honum:

Í nafni Guðs, hins milda og miskunnsama. [...]
Varst þú ekki munaðarlaus og gaf hann þér ekki heimili þegar hann fann þig?
Fórstu ekki villur vegar og hann vísaði þér veginn.
Varst þú ekki þurfandi og hann uppfyllti þarfir þínar.
Því skalt þú ekki beita munaðarleysingjann rangindum
Og ekki skaltu reka þurfamanninn frá þér.
Kunngera skaltu góðvild Drottins þíns um víða vegu. [Kóraninn 93:6-11]

Múhameð ávítaði íbúana í Mekku fyrir að koma illa fram við fátæka og munaðarlausa. Hann sagði að hinum ríku væri skylt að aðstoða hina fátæku og því ríkari sem maðurinn væri þeim mun meiri skyldur hefði hann. Múhameð sagði að það skipti miklu máli hvernig lífi við lifum því ef maðurinn fer ekki eftir boðum Guðs öðlast hann ekki eilíft líf.

Árásir á Múhameð og fylgjendur hans

Eins og áður sagði heillaði boðskapur Múhameðs marga en flestir af fyrstu fylgjendum hans voru úr lægstu þrepum samfélagsins, það er að segja fátæklingar, þrælar, konur og börn. Þegar æ fleiri gengu þessari nýju trú á hönd fóru máttarstólpar samfélagsins að líta á Múhameð sem ógn við samfélagið. Valdhafar í Mekku högnuðust á fólki sem kom til Kaaba til að tilbiðja guði sína en slíkar ferðir voru ein af ástæðunum fyrir því að Mekka var stór verslunarborg. Þeir töldu að Múhameð græfi undan efnahag borgarinnar með því að boða aðeins einn Guð. Jafnframt óttuðust þeir að Múhameð væri að leggja á ráðin um að ná völdum í Mekku.

[Kassi:]

Konur í islam

Eins og áður sagði var staða konunnar slæm á Arabíuskaga. Komið var fram við hana eins og hvern annan búpening. Hún var eign föður síns eða eiginmanns og gátu þeir farið með hana eins og þeim sýndist. Múhameð rétti mjög hlut kvenna. Samkvæmt Kóraninum eru konur og karlmenn jöfn fyrir Guði. Múhameð bannaði útburð stúlkubarna og tryggði konum rétt til arfs. Þá bannaði Múhameð að konur væru neyddar í hjúskap og sagði að þær þyrftu að veita samþykki sitt fyrir giftingu. Meira að segja konungur landsins gat ekki tekið sér konu án hennar samþykkis.

Fyrir daga Múhameðs gátu arabar gifst eins mörgum konum og þeir vildu. Í islam mega karlmenn hins vegar aðeins giftast fjórum konum en þeir verða þó að elska þær allar jafnt og mega ekki taka eina konu fram yfir aðra. Margir muslimar líta svo á að ómögulegt sé að elska allar eiginkonur jafnt og því megi þeir í raun aðeins giftast einni konu. Múhameð veitti konum einnig rétt til að skilja við eiginmenn sína. Til að tryggja að fráskildar konur liðu ekki skort sagði Múhameð að sá sem skildi við konu sína yrði að greiða henni umsamda fjárhæð meðan hún lifði.

Þegar minnst er á islam sjáum við oft fyrir okkur konur með blæju fyrir andlitinu. Það er hins vegar ekkert í Kóraninum sem skyldar konur til að hylja andlit sitt. Þetta er hefð sem sumir múslimar tóku upp 300 – 400 árum eftir dauða Múhameðs. Í sumum islömskum löndum hefur það aldrei tíðkast að nota slíka blæju. Í öðrum löndum er konum hins vegar skylt að hylja andlit sitt. Margar islamskar konur berjast gegn notkun blæjunnar en margar þeirra eru einnig ánægðar með hana og finnst hún vera nokkurs konar ,,ferðaheimili“ sem þær geti gengið um í án þess að eiga það á hættu að karlmenn áreiti þær. Í sumum íslömskum löndum hylja konur aðeins hár sitt en ekki andlit. Þetta á ekki aðeins við um konur því margir karlmenn ganga með samskonar höfuðfat. Það er reynar algeng hefð í trúarbrögðum að átrúendurnir hylji hár sitt og hafa kristnar nunnur til dæmis gert það svo öldum skiptir (samanber Korintubréf 11:5-7).

Valdhafarnir þorðu ekki að drepa Múhameð því Abu Talib, frændi hans og leiðtogi ættbálksins sem Múhameð tilheyrði, verndaði hann. Þeir vissu því að ef þeir dræpu Múhameð myndi Abu Talib hefna dauða hans. Þeir fóru þó á fund Abu Talib og báðu hann að þagga niður í Múhameð. Þeir hótuðu því að ef hann fengi Múhameð ekki til að hætta að hæðast að guðunum og gagnrýna hefðir samfélagsins myndu þeir fara í stríð við þá báða. Ef Múhameð hætti að boða hina nýju trú myndu þeir borga honum fúlgur fjár, fá honum valdastöðu og lyklana að Kaaba. Þegar Abu Talib kom á fund Múhameðs og bar upp bón þeirra sagði Múhameð að þótt þeir settu sólina í hægri hönd hans og tunglið í hina vinstri myndi hann ekki hætta að breiða út boðskap Guðs.

Valdhafarnir reyndu allt til að þagga niður í Múhameð. Þeir grýttu hann og fylgjendur hans og reyndu að snúa fjölskyldu hans gegn honum. Þeir báru út lygasögur um hann og útskúfuðu hann og ættingja hans í heil tvö ár. Loks komust þeir að þeirri niðurstoða að Múhameð myndi aldrei hætta að boða hina nýju trú og lögðu á ráðin um að taka hann af lífi.

Flóttinn til Medínu

Árið 619 breyttist margt í lífi Múhameðs. Það ár dó heittelskuð eiginkona hans, Khadija. Ef til vill átti tveggja ára útskúfunin þátt í dauða hennar. Khadija var ekki aðeins eiginkona Múhameðs, hún var einnig náinn vinur og hafði oft veitt honum góð ráð á raunastundum. Andlát hennar var Múhameð því mikið sorgarefni og þótt hann kvæntist aftur síðar meir var Khadija alltaf stóra ástin í lífi hans. Sama ár andaðist einnig frændi hans Abu Talib. Annar frændi Múhameðs Abu Lahab varð leiðtogi ættbálksins en hann fyrirleit Múhameð og kenningar hans og lýsti því yfir að ættbálkur hans verndaði hann ekki lengur. En þá kom ættarhöfðingi að nafni Mutim honum til hjálpar og tók hann undir verndarvæng sinn.

Á þessum átakatímum gerðist mikið kraftaverk í lífi Múhameðs. Sagan segir að eina nóttina hafi hann farið inn í Kaaba og sofnað. Stuttu síðar kom Gabríel og vakti hann og setti hann á bak hvítri vængjaðri kynjaskepnu. Saman riðu þeir alla leið til Jerúsalem en þar biðu þeirra Abraham, Móse, Jesús Kristur og fleiri spámenn. Það fyrsta sem Múhameð gerði var að biðja með þeim þar sem musteri Salómons stóð áður. Þá bauð Gabríel honum að velja á milli þess að drekka mjólk eða vín og valdi Múhameð mjólkina. Gabríel hrósaði honum fyrir að velja rétt og sagði að fylgjendur hans ætti einnig að velja mjólk fram yfir vín. Síðan hefur múslimum verið bannað að drekka áfengi. Þá sýndi Gabríel honum hlið helvítis og himnaríkis en Klettamoskan var síðar byggð á sama stað.

Því næst flaug hvíta kynjaskepnan með hann upp í sjöunda himinn og segir Múhameð að aðra eins dýrð hafi hann aldrei séð. Múhameð var leiddur að lótustré en þetta tré er sagt búa yfir allri þekkingu heimsins. Þar fékk hann fyrirmæli frá Guði um að múslimar ættu að biðja til Guðs fimmtíu sinnum á dag. Á leiðinni niður til jarðar hitti Múhameð Móse sem spurði hann hve margar skyldubænir fólkið ætti að fara með. Þegar Múhameð svaraði fimmtíu sagði hann: ,,Safnaðarbænir eru þung byrði og fólk þitt er veikgeðja. Farðu aftur til Drottins og biddu hann að létta þér og lýð þinum byrðina. Múhameð fór þá aftur upp til Guðs og bað hann um að fækka skyldubænunum og fékk þeim fækkað niður í fjörutíu. Þegar hann hitti Móse aftur endurtók hann orð sín og sendi Múhameð aftur á fund Guðs. Aftur fækkaði Guð bænunum um tíu og svona endurtók sagan sig þangað til komið var niður í fimm skyldubænir. Þegar Múhameð fór í sjötta sinn niður til jarðar endurtók Móse orð sín aftur en þá sagði Múhameð að hann skammaðist sín fyrir hversu margar bónferðir hann hafi farið til Drottins og því færi hann ekki aftur. Síðan hafa trúræknir múslimar beðið fimm sinnum til Guðs á hverjum degi.

Þótt Múhameð hefði fundið sér verndara var hann langt í frá öruggur í Mekku og ekkert lát var á ofsóknum. Því hóf Múhameð að undirbúa flótta frá borginni. Hann hóf leynilegar samræður við fulltrúa borgarinnar Yathrib árið 620. Yathrib fékk síðar nafnið Medína, sem þýðir ,,borgin“ á arabísku, og því verður hún framvegis kölluð Medína. Stöðugt ættbálkastríð hafði geisað í Medínu svo öldum skipti en leiðtogar borgarinnar höfðu heyrt að Múhameð væri réttlátur maður og góður sáttasemjari og vonuðust þeir til þess að hann gæti sætt stríðandi fylkingar og komið á friði í borginni. Þar sem stórt gyðingasamfélag var í Medínu var kenning Múhameðs um að aðeins væri til einn Guð íbúunum ekki framandi.

Eftir tveggja ára samningaviðræður féllst Múhameð á að setjast að í Medínu og koma á friði í borginni ef tryggt væri að hann og fylgjendur hans gætu lifað í öryggi. Íbúar Medínu urðu í staðinn að heita því að verja múslimana eins og um eigin ættingja væri að ræða.

[Kassi:]

Helgidagar múslima

Tímatal múslima miðast við flótta Múhameðs frá Mekku til Medínu og því er kristna árið 622 fyrsta árið í tímatali þeirra. Þegar kristnir menn fögnuðu til dæmis aldamótunum 2000 var árið 1420 hjá múslimum. Ár múslima er þó styttra en ár kristinna manna, vegna þess að þeir fylgja tunglári en ekki sólarári eins og kristið fólk gerir. Tunglár er um 354 dagar og því nokkrum dögum styttra en sólarárið. Af þessum ástæðum ber hátíðir múslima ekki alltaf upp á sömu árstíðum.

Rétt eins og í kristni eru tólf mánuðirnir í islam en hver mánuður er 29 – 30 dagar. Mánuðirnir í islam heita þó öðrum nöfnum eins og þagnarmánuður (safar), lotningarmánuður (rajab) og skiptingamánuður (sha’aban). Á vesturlöndum er 9. mánuðurinn þó líklega þekktastur en hann heitir hitamánuður eða ,,ramadan“. Múslimar fasta allan þennan mánuð frá sólarupprás til sólseturs.

Helgidagar eru einnig frábrugðnir því sem við eigum að venjast. Tvær helgustu hátíðirnar í islam eru fórnarhátíðin og föstuendahátíðin. Fórnarhátíðin er helgasta hátíð múslima en hún er haldin 10. dag pílagrímsmánaðar (dhul hijja). Þennan dag minnast múslimar þess að Abraham var tilbúinn að fórna syni sínum Ísmael en þannig sýndi hann undirgefni undir vilja Guðs. Á þessum degi slátra múslimar kind, geit, kú eða úlfalda til að minnast Abrahams. Næsthelgasta hátíð múslima er föstuendahátíðin en hún er haldin á fyrsta degi veiðimánaðar (shawwal) en þá fagna múslimar því að föstunni sé lokið.

Að lokum má geta þess að ólíkt því sem gerist hjá flestum kristnum mönnum er hvíldardagur múslima ekki á sunnudögum heldur á föstudögum.

Mánuðirnir í islam eru eftirfarandi:

1. Helgimánuður (muharram ul haram). Tíunda dag helgimánaðar halda margir múslimar upp á Ashura hátíðina en þá fagna múslimar flótta gyðinga frá Egyptalandi. Múslimar líta einnig svo á að Nói hafi yfirgefið örkina á þessum degi. Múslimar minnast þessa atburðar með því að fasta í tvo daga.

2. Þagnarmánuður (safar).

3. Fyrri vormánuður (rabi-ul-awwal). Á tólfta degi fyrri vormánaðar minnast margir múslimar fæðingar og andláts Múhameðs en sagan segir að Múhameð hafi fæðst og látist á sama almanaksdegi. Algengt er á þessum degi að múslimar gefi hver öðrum gjafir, klæðist skærlitum fötum og kveiki á kertum og reykelsi.

4. Seinni vormánuður (rab-ul-akhir).

5. Fyrri þurrkamánuður (jamadi-ul-awwal).

6. Seinni þurrkamánuður (aamadi-ul-akhir).

7. Lotningarmánuður (rajab). Tuttugasta og sjöunda dag lotningarmánaðar halda múslimar upp á næturferðarhátíðina en sagan segir að þá hafi Múhameð ferðast frá Mekku til Jerúsalem og þaðan stigið upp til himna.

8. Skiptingamánuður (sha’aban). Um nóttina þegar fullt tungl er í skiptingamánuðinum hefst örlagahátíðin en þessa nótt fagna múslimar því að Múhameð sigraði Mekku. Sumir múslimar trúa að Guð skoði allt mannkynið á þessari nóttu og ákveði örlög þess.

9. Hitamánuður (ramadhan). Múslimar fasta allan hitamánuðinn frá sólarupprás til sólseturs. Hápunktur föstunnar er nótt máttarins sem er 27. dagur hitamánaðar, en þá fékk Múhameð fyrstu opinberun sína.

10. Veiðimánuður (shawwal). Föstuendahátíðin, næsthelgasta ha´tið múslima, er haldin á fyrsta degi veiðimánaðar.

11. Hvíldarmánuður (dhul qadah).

12. Pílagrímsmánuður (dhul hijja) Fórnarhátíðin, helgasta hátíð múslima, er haldin 10. dag pílagrímsmánaðar.

Fylgjendur Múhameðs yfirgáfu fjölskyldur sínar og ættbálka og flýðu í litlum hópum til Medínu. Á sama tíma lögðu fjandmenn hans á ráð um að taka hann af lífi. Ástæðan var fyrst og fremst sú að þeir óttuðust að Múhameð myndi snúa aftur seinna með stóran her fylgjenda og leggja undir sig Mekku. Til þess að gera múslimunum erfiðara að hefna dauða Múhameðs ákváðu þeir að fulltrúar sjö ættbálka skyldu stinga hann til bana samtímis þegar hann svæfi í rúmi sínu. Þeir sem vildu hefna dauða hans yrðu þar af leiðandi að fara í stríð við sjö áttbálka og fáir myndu voga sér það. Það sem síðan gerðist markaði slík tímamót í sögu islam að það verðskuldar ítarlega frásögn.

Sömu nótt og tilræðismennirnir ákváðu að myrða Múhameð vitraðist Gabríel honum, sagði honum hvað væri í vændum og hvað hann ætti að taka til bragðs. Múhameð fór þá til Abu Bakr og sagði að þeir myndu flýja um nóttina því setið væri um líf hans.

Múhameð og Abu Bakr vissu að leitarflokkur yrði sendur út um leið og það uppgötvaðist að Múhameð var flúinn. Því ákváðu þeir að fara í gagnstæða átt og riðu að nálægum helli. Sonur Abu Bakr fór með þeim og fjárhirðir hans elti þá með hjörðina og máði þannig út sporin eftir úlfaldana. Þegar þeir komu að hellinum sendi Abu Bakr son sinn aftur til baka með úlfaldana og bað hann færa þeim fréttir næstu nótt. Daginn eftir kom sonur Abu Bakr aftur og sagði að 100 úlfaldar hefðu verið lagðir til höfuðs Múhameð og féllu þeim í hlut sem kæmi með hann aftur til Mekku. Leitarmenn höfðu þegar farið allar hefðbundnar leiðir til Medínu en ekkert fundið.

Brátt vaknaði sá grunur að Múhameð hefði ekki farið til Medínu heldur falið sig í helli í fjöllunum. Á þriðja degi heyrðu Múhameð og Abu Bakr menn nálgast hellinn. Múhameð leit á Abu Bakr og sagði: ,,Hafðu ekki áhyggjur því Guð er með okkur.“ Mennirnir komu nær hellinum en námu staðar fyrir framan hann. Þar ræddu þeir saman og komust að þeirri niðurstöðu að þeir þyrftu ekki að kanna hann nánar því útilokað væri að Múhameð væri þar. Þegar þeir voru farnir í burtu skriðu Múhameð og Abu Bakr að hellismunnanum og sáu sér til undrunar að kónguló hafði spunnið vef fyrir munnann og dúfa gert sér hreiður fyrir framan hann og sat á því eins og á eggi.

Að þremur dögum liðnum hafði leitarmönnum fækkað og lögðu því Múhameð og Abu Bakr af stað til Medínu. Þessi flótti (sem kallast hidjra á arabísku) er svo þýðingarmikill í sögu islam að múslimar miða tímatal sitt við hann. Árið 622 er því fyrsta árið í tímatali þeirra. Tvær meginástæður eru fyrir því að flóttinn er svo mikilvægur. 1) Hann var upphaf nýs samfélags á Arabíuskaga – samfélags manna sem höfðu yfirgefið fjölskyldur sínar og ættbálka. Andstætt því sem tíðkaðist í samfélögum á Arabíuskaganum hafði þetta nýja samfélag ekki sameinast vegna blóðbanda heldur trúar. 2) Þegar Múhameð kom til Medínu var borgarsamfélagi í fyrsta sinn stjórnað samkvæmt lögum Kóransins.

Múhameð kemur til Medínu

Þegar Múhameð kom til Medínu var honum fagnað innilega. Fólkið hrópaði: ,,Spámaður Guðs er kominn…“ Margir buðu Múhameð að búa hjá sér en hann vildi ekki særa neinn með því að þiggja eitt boð fremur en annað. Þess í stað kvaðst hann ætla að búa þar sem úlfaldi hans næmi staðar. Íbúar Medínu biðu spenntir eftir því að sjá hvar úlfaldi Múhameðs myndi leggjast. Að lokum lagðist hann í garði nokkrum sem notaður hafði verið til bæna. Múhameð sagði þá: ,,Hér mun ég búa ef Guð leyfir.“

Múhameð keypti síðan landið, byggði þar hús og reisti mosku. Hún var einföld í sniðum. Trjádrumbar héldu þakinu uppi og steinn var notaður til að sýna hvert múslimar ættu að snúa sér í bæn. Trjábútur var síðan notaður sem prédikunarstóll og stóð Múhameð uppi á honum þegar hann ávarpaði múslimana. Öllum öðrum moskum svipar til þessarar fyrstu mosku í islam.

[Kassi:]

Helgistaðir múslima og moskur

Flest trúarbrögð hafa einhvern stað þar sem söfnuðurinn getur komið saman til að tilbiðja Guð. Kristnir menn fara t.d. í kirkjur og gyðingar í sýnagógur en múslimar fara í moskur. Moska merkir ,,staður þar sem maður fellur fram í lotningu“. Þótt moskur séu mismunandi þá hafa þær allar sameiginlega grunnþætti. Moskan verður að hafa nógu stóran sal svo söfnuðurinn komist fyrir inn í honum en þar eru engir stólar eða bekkir heldur bara mjúk teppi á gólfinu. Salurinn á að snúa þannig að þegar maður gengur inn snýr hann í átt til Kaaba. Á þessum vegg er oft að finna skot eða smá gróp sem kallast ,,mihrab“. Þetta veggskot er táknrænn minningarvottur um Múhameð en það áréttar jafnframt hvert fólk á að snúa sér í bæninni. Veggskotið er vanalega fallegasti staðurinn í moskunni. Þar er oft settur lampi, sem táknar nálægð Guðs. Flestar moskurnar hafa prédikunarstól sem kallast ,,minbar“ og turn sem notaður er til að kalla múslima til bæna. Í moskum er einnig oft að finna kerlaug því að múslimar verða að þvo hendur sínar og fætur áður en þeir biðja.

Í hinum vestræna heimi erum við vön að sjá málverk af Guði en í islam er bannað að mála mynd eða gera líkneski af Guði, því álitið er að hann sé hafinn yfir mannlegar túlkanir og takmarkanir. Slíkt geti einnig leitt til skurðgoðadýrkunnar, það er að segja að fólk fari að tilbiðja myndirnar í stað Guðs. Af þessum sökum eru engar myndir af Guði, Múhameð eða öðru fólki í moskum heldur eru þær skreyttar versum úr Kóraninum og ýmiskonar mynstrum.

Þrjár helgustu borgir í islam eru Mekka, Medína og Jerúsalem en þar er einnig að finna þrjá mestu helgistaði trúarinnar. Kaaba í Mekku er helgasti staðurinn og er múslimum skylt að fara þangað í pílagrímsför einhvern tíma á ævinni, ef þeir hafa efni á því. Næsthelgasti staðurinn er Moska spámannsins í Medínu, sem Múhameð byggði við komu sína þangað. Hún hefur þó tekið miklum breytingum frá hans tíma. Þriðji helgasti staðurinn í islam er Klettamoskan í Jerúsalem en eins og áður kom fram tengist hún næturför Múhameðs.

Nú fór Múhameð að velta því fyrir sér hvernig hann ætti að kalla fólk til bæna. Hann hugleiddi hvort nota ætti kirkjuklukkur eins og tíðkaðist í kristindómi eða horn eins og gyðingar. Þá dreymdi múslima nokkurn að maður kæmi til hans og segði að best væri að nota röddina og kalla: ,,Guð er mikill. Ég ber því vitni að enginn er guð nema Guð. Ég ber því vitni að Múhameð er boðberi Guðs. Komið og biðjist fyrir. Takið við hjálpræðinu. Guð er mikill. Enginn er guð nema Guð.“ Þegar Múhameð heyrði um þennan draum lýsti hann því yfir að þetta væri vitrun frá Guði. Frá þeim degi hafa þessi orð hljómað frá bænaturnum allra moska.

Margt hafði breyst frá því Múhameð var í Mekku. Hann var til dæmis ekki lengur aðeins spámaður heldur einnig borgarstjóri, dómari, herforingi og kennari. Múhameð reyndist góður leiðtogi og voru jafnvel fjandmenn hans því sammála. Honum tókst meira að segja að koma á friði í Medínu, en það hafði engum tekist áður.

Þótt Múhameð væri háttsettur leiðtogi hélt hann áfram að lifa fábrotnu lífi. Hann bjó í látlausu húsi, mjólkaði geitur sínar og sást oft bæta sín eigin föt. Hann virtist eiga auðvelt með að hrífa aðra með sér, var réttlátur í dómum sínum og þótti svo glöggur og ráðagóður að jafnvel þeir sem voru ekki múslimar leituðu til hans.

En vandi Múhameðs var ekki leystur því Mekkubúar voru múslimunum ævareiðir og sóru þeir þess dýran eið að gjöreyða þeim. Þar sem Múhameð var leiðtogi borgarinnar bar honum skylda til að verja íbúa hennar. Guð veitti því múslimum leyfi til að verjast árásum óvina sinna með orðunum: ,,Þeim sem eru ranglæti beittir er heimilt að taka upp vopn, því vissulega getur Guð komið þeim til aðstoðar sem hafa ranglega verið hraktir að heiman, fyrir það eitt að segja: ,,Drottinn okkar er Guð.““ [Kóraninn 22:40-41].

[Kassi:]

Jihad

Réttur til að taka upp vopn kallast ,,jihad“ (borið fram djihad) en það er oft þýtt sem ,,heilagt stríð“ á íslensku. Jihad þýðir í raun að ,,kappkosta“ eða ,,berjast fyrir“, en lög um jihad veita múslimum leyfi til að berjast gegn ranglæti og kúgun. Lögin banna hins vegar múslimum að hefja stríð. Þeir mega ekki beita ómannúðlegum aðferðum í hernaði og ekki ráðast á konur, börn, gamalmenni, vinnufólk, fatlaða eða óvopnaða borgara. Þeir mega heldur ekki drepa fanga eða þá sem eru særðir og ekki fara illa með lík eða helgimuni annarra trúarbragða. Þá verða þeir einnig að gæta þess að ganga vel um náttúruna og mega t.d. ekki drepa dýr eða skemma tré að óþörfu.

Samkvæmt lögum um jihad geta hryðjuverk ekki talist ,,heilagt stríð“, enda eru þau ómannúðleg og beinast að óvopnuðum borgurum. Því hafa margir múslimar gagnrýnt islamska hryðjuverkamenn og bent á að þeir fari ekki að lögum islam um jihad.

Íbúar Mekku og Medínu háðu nokkrum sinnum stríð en í þessum orrustum kom í ljós hversu snjall herforingi Múhameð var. Þegar bedúínar heyrðu af sigrum Múhameðs töldu þeir sig sjá að Guð var þar að verki og tóku margir trú fyrir vikið. Her Múhameðs stækkaði því með hverjum deginum.

Múhameð snýr aftur til Mekku

Eftir nokkrar orrustur við Mekku gerði Múhameð friðarsamning við íbúana en aðeins tveimur árum síðar rufu Mekkubúar friðarsamninginn. Múhameð sendi því múslimum boð um að hann hygðist leggjast í hernað og enginn heilbrigður múslimi mætti liggja á liði sínu. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Alls reið Múhameð með um tíu þúsund hermenn til móts við Mekku.

Þegar her Múhameðs nálgaðist borgina skipti hann hernum í fjóra hópa og réðust þeir að Mekku úr öllum áttum. Íbúar Mekku urðu óttaslegnir þegar þeir sáu herinn nálgast borgina því samkvæmt hefðum í hernaði voru allir karlmenn þess hers sem tapaði teknir af lífi og konur og börn seld í þrældóm. Mekkubúar bjuggust því við skelfilegu blóðbaði. Þeim var þó ljóst að þeir höfðu ekkert í her Múhameðs að gera og gáfust upp. Í stað þess að taka fjandmenn sína af lífi gaf Múhameð þeim öllum upp sakir með sömu orðum og Jósef sagði við bræður sína þegar hann fyrirgaf þeim: ,,Þið verðið ekki sakfelldir í dag. Guð mun fyrirgefa ykkur, því af hinum miskunnsömu er hann miskunnsamastur.“ [Kóraninn 12:92]. Múhameð faðmaði þá að sér sem árum saman höfðu setið um líf hans og gaf þeim veglegar gjafir.

[Kassi:]

Afstaða til annarra trúarbragða

Múhameð bar mikla virðingu fyrir gyðingum og kristnum mönnum og leit á þá sem trúbræður. Kristnir menn og gyðingar kallast ,,fólk bókarinnar“, sem merkir að þeir séu hluti af islam og tilbiðji Drottin. Um fólk bókarinnar segir í Kóraninum: ,,Deildu ekki, nema í góðsemd, við fólk bókarinnar; að þeim frátöldum sem brotið hafa á rétti þínum. Segðu við þá: ,,Við trúum því sem kom til okkar að ofan og kom til ykkar að ofan. Okkar Guð og ykkar Guð er einn og hinn sami og honum erum við undirgefin.““ [Kóraninn 29:45]

Í islam er bannað að þröngva trúnni upp á aðra og í Kóraninum segir til dæmis: ,,Enginn skal neyddur til trúar“ [Kóraninn 2:257]. En múslimar hafa hins vegar lítið umburðarlyndi gagnvart fjölgyðistrúarmönnum og líta á slíkan átrúnað sem villimennsku. Því njóta fjölgyðistrúarmenn ekki sömu virðingar og verndar og kristnir menn og gyðingar.

Múhameð sýndi þó ekki öllum sömu miskunnsemi því það fyrsta sem hann gerði þegar hann kom til Mekku var að mölva öll líkneskin sem voru í og umhverfis Kaaba. Hann lét einnig þau boð út ganga að allir sem ættu líkneski heima fyrir ættu að brjóta þau. Þannig hreinsaði hann ekki aðeins helgistaðinn af líkneskjum heiðinna guða heldur sýndi einnig á táknrænan hátt að héðan í frá heyrði ættbálkalögmálið sögunni til. Eins og þið munið eftir hafði hver ættbálkur sína eigin guði og með því að brjóta líkneskin var Múhameð að segja að forfeður ættbálkanna hefðu verið á villigötum. Hann var kominn til að leggja grunn að samfélagi þar sem fólk endurtók ekki syndir forfeðra sinna og fylgdi heiðnum guðum, heldur sameinaðist í átrúnaði á einn og sama Guð.

Eftir glæstan sigur í Mekku sannfærðust flestir íbúar borgarinnar um að aðeins væri til einn Guð og að Múhameð væri boðberi hans og játuðust islam. En þótt Múhameð væri loks kominn heim flutti hann ekki til Mekku heldur bjó áfram í Medínu.

Síðustu ár Múhameðs

Dag einn kom maður til Múhameðs, er hann sat á tali við múslima einn sem hét Umar. Maðurinn var í skjannahvítum fötum og með tinnusvart hár og hafði enginn í Medínu séð hann fyrr. Hann settist við hlið Múhameðs og sagði: ,,Segðu mér, kæri Múhameð, hvað er islam.“ Múhameð svaraði honum: ,,Islam er að bera því vitni að enginn er guð nema Guð og að Múhameð er boðberi Guðs, fara með skyldubænirnar, gefa ölmusu, fasta á ,,ramadan“ mánuði og fara í pílagrímsferð, hafi maður efni á því.“ Ókunnugi maðurinn svaraði: ,,Þú hefur svarað rétt.“ Eftir að hann hafði kvatt og farið leiðar sinnar sagði Múhameð við Umar: ,,Veistu hver spyrillinn var?“ Þegar Umar sagðist ekki vita það sagði Múhameð: ,,Þetta var Gabríel. Hann kom til að uppfræða þig um trú þína.“ Frá og með þessum degi hafa þessir fimm þættir sem Múhameð taldi upp verið kallaðir stoðirnar fimm, en þær eru helstu boðorð múslima.

[Kassi:]

Stoðirnar fimm

Í öllum trúarbrögðum eru einhver meginlög eða fyrirmæli sem fylgjendur þeirra verða að fara eftir. Boðorðin tíu eru gott dæmi, en bæði gyðingar og kristið fólk lifa samkvæmt þeim lögum. Í islam eru einnig fyrirmæli um hvað múslimar mega ekki gera. Þeir mega t.d. ekki stela, ljúga, borða svínakjöt, drekka áfengi, spila fjárhættuspil eða iðka lauslæti. En í islam eru einnig fyrirmæli um það sem múslimar eiga að gera og kallast stoðirnar fimm.

Fyrsta stoðin er trúarjátningin en í íslenskri þýðingu er hún svona: ,,Enginn er Guð nema Guð og Múhameð er boðberi hans.“

Önnur stoðin er bænin. Eins og þið munið fékk Múhameð þau fyrirmæli í næturferð sinni til himna að múslimar ættu að biðjast fyrir fimm sinnum á dag. Bænirnar dreifast yfir daginn og fara múslimar með fyrstu bænina árla morguns og síðustu bænina um kvöldið. Áður en múslimar biðja þvo þeir andlit sitt, höfuð, hendur og fætur en þannig hreinsa þeir á táknrænan hátt sál sína. Þegar múslimar biðjast fyrir snúa þeir sér til Mekku og hreyfa sig samkvæmt ákveðnum fyrirmælum. Fyrst standa þeir teinréttir, síðan leggjast þeir niður á hnén og láta ennið nema við jörðina.

Þriðja stoðin er ölmusan. Í islam er hinum ríku skylt að hjálpa hinum fátæku og ber þeim að gefa 2,5 prósent af eignum sínum og tekjum. Sumir múslimar gefa fátækum þó mun meira en það.

Fjórða stoðin er fastan. Múhameð fékk fyrst köllun í ,,ramadan“ mánuðinum en í sama mánuði flúðu múslimarnir til Medínu. Í þessum mánuði minnast múslimar þessara tveggja atburða með því að fasta frá sólarupprás til sólseturs. Á norðlægum slóðum eins og á Íslandi fylgja þeir þó klukkunni. Þó ber ekki öllum að fasta og eru t.d. börn, sjúklingar og gamalmenni undanþegin. Fastan minnir múslima á hvað þeir eiga Guði mikið að þakka, kennir þeim sjálfsaga og eykur samúð þeirra með fátækum og þurfandi, því aðeins þeir sem hafa upplifað hungur geta skilið hvernig það er að vera án matar

Fimmta og síðasta stoðin er pílagrímsferðin. Öllum múslimum er skylt að fara í pílagrímsferð til Mekku einu sinni á ævinni, ef þeir hafa efni á því. Pílagrímsferðin á að auka trúrækni múslima en hún minnir þá einnig á að allir menn eru jafnir. Pílagrímarnir klæðast til dæmis allir samskonar hvítum kuflum og sést þá ekki hver er ríkur og hver fátækur.

Tveimur árum síðar fór Múhameð í pílagrímsferð með fylgjendum sínum og kallast sú ferð hans ,,kveðjupílagrímsförin“ vegna þess að hann andaðist stuttu seinna. Þessi pílagrímsferð varð fyrirmynd fyrir aðra múslima og allt fram til dagsins í dag líkja múslimar eftir pílagrímsför Múhameðs. Reyndar sagði Múhameð að hann væri aðeins að líkja eftir pílagrímsför Abrahams sem hafði fyrstur allra farið slíka ferð til Kaaba. Í þessari pílagrímsferð opinberaði Múhameð síðustu orð Kóransins, en þar segir Guð: ,,Í dag hef ég fullkomnað trú ykkar og auðsýnt ykkur að fullu náð mína og það er ósk mín að islam sé trú ykkar.“ [Kóraninn 5:5]. Eftir að hafa farið með þessi lokaorð Kóransins kallaði Múhameð til fjöldans sem fór með honum í pílagrímsförina: ,,Heyrið mig! Reyndist ég tryggur þegar ég flutti ykkur boðskapinn?“ Og mannfjöldinn kallaði einróma til baka: ,,Guð er því til vitnis.“

Múhameð andaðist á heimili sínu í Medínu 8. júní árið 632 í fangi eiginkonu sinnar Aishu, sextíu og þriggja ára að aldri. Hann var greftraður á sama stað og hann andaðist þ.e. undir gólfinu í herbergi Aishu. Andlát hans var að sjálfsögðu mikið áfall fyrir samfélagið því ekki aðeins hafði það misst vin og leiðtoga heldur hafði það einnig verið svipt áframhaldandi opinberun Guðs. Múslimarnir voru því ráðþrota. Abu Bakr stóð þá upp og sagði: ,,Heyrið mig! Þeir sem hafa tilbeðið Múhameð viti að Múhameð er látinn. Þeir sem hafa tilbeðið Guð viti að Guð er lifandi og deyr ekki.“ Þá fór hann með eftirfarandi vers úr Kóraninum: ,,Múhameð er aðeins spámaður og spámenn hafa skilið við á undan honum. Ef hann lætur lífið eða bíður bana, munið þið taka til fótanna?“ [Kóraninn 3:144]

Þótt Múhameð væri látinn höfðu múslimarnir yfir miklu að fagna því þeir töldu að Guð hefði með tilstyrk hans gjörbreytt lífi þeirra. Hann sameinaði sundraða ættbálka Arabíuskagans í eina fjölskyldu, þar sem allir voru jafnir fyrir Guði. Nær allir ættbálkar Arabíu höfðu gerst múslimar og þar sem múslimar mega ekki ráðast hver á annan var endi bundinn á stöðugar ættbálkaóeirðir og stríð. Múhameð hafði tekist að sameina íbúa Arabíuskagans og koma á friði í stríðshrjáðu landi.

Arfleið islams

Islam sameinaði ekki aðeins araba, heldur var hið nýja islamska ríki stærsta heimsveldi mannkynssögunnar og náði yfir þrjár heimsálfur. Islam breiddist hratt út, bæði með trúboði og landvinningum. Um árið 750 náðu landamæri ríkis múslima frá Spáni að landamærum Indlands. Heimsveldið var svo stórt að það tók heilt ár að ferðast milli landamæranna frá vestri til austurs. Múslimum var yfirleitt vel tekið, enda lögðu þeir mun lægri skatt á þegna sína en fyrri valdhafar og leyfðu kristnum og gyðingum að rækja trú sína.

En það var flókið og erfitt að stjórna svona stóru ríki og því þurftu múslimar á vísindalegri þekkingu að halda. Þeir öfluðu sér hennar frá Grikkjum, Gyðingum, kristnum mönnum, Indverjum, Persum og Kínverjum. Úr þessari blöndu varð til islömsk menning og vísindi sem áttu eftir að hafa mikil áhrif í Evrópu. Þau áhrif náðu meira að segja til Íslands. Mörg tökuorð sem notuð eru í daglegu máli eru t.d. komin úr arabísku og persnesku. Orðið algebra er gott dæmi en það er komið af arabíska orðinu ,,al gebr“ sem þýðir að binda saman. Dæmi um önnur orð eru alkóhól, karat, múmía og sykur.

En við fengum ekki aðeins ný orð og hugtök frá múslimum heldur eru merkar uppgötvanir einnig frá þeim komnar. Þeir fengu jafnframt uppgötvanir að láni frá öðrum þjóðum og þróuðu sumar þeirra. Að lokum skulum við líta á nokkrar þeirra.

Mynd af opnu úr kennslubók: ,,Mikilvægasta framlag múslima til læknavísinda voru alfræðiorðabækur um læknavísindi, en þær voru helstu kennslubækur læknanema í Evrópu svo öldum skipti. “

Mynd af bakteríu: ,,Múslimar voru þekktastir fyrir framfarir í læknavísindum. Þeir héldu fyrstir fram þeirri kenningu að sjúkdómar bærust með örsmáum ósýnilegum lífverum, sem við köllum bakteríur.“

Mynd af Kolumbusi: ,,Múslimar voru vel að sér í stjörnufræði og voru meistarar í siglingafræði og ruddu brautina sjógörpum á borð við Kolumbus.“

Mynd af núlli: ,,Múslimar voru snillingar í stærðfræði, sérstaklega hornafræði, rúmfræði og algebru. Við eigum þeim að þakka að við notum ekki rómverska tölustafi heldur arabíska. Múslimar fengu tölustafina sem við notum í dag frá Indverjum. Þeir breyttu þeim lítilsháttar og bættu við núllinu, en í rómverska talnakerfinu var ekki hægt að skrifa núll.“

Mynd af fallbyssu: ,,Kínverjar kynntu múslimum byssupúðrið en það voru múslimar sem uppgötvuðu að hægt væri að nota það í hernaði með því að þeyta hlutum út í loftið, eins og t.d. kúlum.“

Mynd af bók: ,,Og pappírinn í þessari bók er að hluta til uppfinning sem þakka má múslimum. Þeir lærðu að búa til pappír hjá Kínverjum og kenndu síðan Evrópubúum þá list. Pappírinn gerði það mun ódýrara og auðveldara að prenta bækur og útbreiða þekkingu.“

Mynd af kaffibolla: ,,Þar sem múslimar mega ekki drekka áfengi gerðu þeir sér annan drykk sem átti eftir að ná miklum vinsældum – það er kaffið.“

Ljósmynd af Taj Mahal: Byggingarlist múslima var einnig glæsileg og hafa þeir reist margar fegurstu byggingar heims. Þeirra frægastar eru líklega Klettamoskan sem áður var nefnd og grafhýsið Taj Mahal í Indlandi. Ríkur fursti reisti það yfir eiginkonu sína sem hann elskaði heitt.

Mynd af gítar: ,,Islam átti líka skapandi listamenn og sem dæmi má nefna að gítarinn er frá þeim kominn.“

Ljósmynd af ávísun: ,,Jafnvel ávísanir eru islömsk uppfinning. Þar sem múslimar þurftu oft að ferðast yfir mikið landsvæði var erfitt að burðast með peninga langar leiðir. Þeir fengu þá snilldarhugmynd að í stað peninga mætti skrifa ávísun sem handhafi gæti leyst út. Það var auðveldara að ferðast með ávísun en fullan poka af peningum og mun öruggara, ef maður var rændur á leiðinni.“

[Kassi:]

Múslimar á Íslandi

Töluverður fjöldi múslima búa hér á landi. Þeir hafa með sér félag og koma saman á helgidögum og fara með bænir daglega. Þetta á sérstaklega við á föstudögum, sem er hvíldardagur múslima. Á ,,ramadan“ hittast þeir daglega og svo halda þeir auðvitað upp á föstuendahátíðina og fórnarhátíðina. Þá langar til að byggja mosku á Íslandi.

En hvernig ætli það sé að vera múslimi þar sem flestir eru kristnir? Sumir verða fyrir stríðni þegar þeir fara með skyldubænir sínar fimm sinnum á dag og það getur verið erfitt. Fastan vekur einnig mikla athygli. Sumir hneykslast og telja hana hættulega.

Múslimar á Íslandi eru ekki aðeins útlendingar sem flust hafa til landsins. Íslendingar hafa einnig gengið islam á hönd. Móðir Yousef Inga Tamimi gerðist t.d. múslimi eftir að hún giftist manni frá Palestínu. Yousef Ingi er 13 ára og býr í Reykjavík. Hann er múslimi eins og foreldrar hans. Uppáhalds hátíð Yousefs Inga er ramadan og þá sérstaklega föstuendahátíðin. Hann byrjaði að fasta þegar hann var tíu ára gamall. Fyrst fannst honum það erfitt en nú er hann orðinn vanur því. Hann hlakkar til að fara í pílagrímsferð og vonast til að geta farið innan árs eða svo.

Honum er stundum strítt vegna trúar sinnar, aðallega þegar hryðjuverk eru framin. Yousef Ingi segir að það séu til öfgahópar í öllum trúarbrögðum og þótt einhver hryðjuverkahópur sé á móti Bandaríkjunum þá sé hann það ekki. Honum finnst að við verðum að læra að virða trú annarra. Annars finnst honum auðvelt að vera múslimi á Íslandi. Vinir hans spá til dæmis lítið í það en koma honum þó til hjálpar ef honum er strítt, til dæmis vegna föstunnar.

url: http://thorkell.annall.is/2003-09-28/02.09.00/

Athugasemdir

Fjöldi 4, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 28/9/2003 12.06

Takk fyrir að deila þessu með okkur Keli, bókin er athyglisverð og upplýsinga. Þetta er líka lengsta færsla sem ég hef séð á annál.is :-)

Ásta @ 4/11/2003 11.10

Auðlesin, einföld og skemmtileg og um leið fræðandi og vekur áhuga á að afla sér frekari þekkingar á viðfangsefninu. Dregur fram nýja fleti. Frábær kennslubók.

Gurry Guðfinns @ 8/2/2004 14.50

Sæll Keli. Þetta er aldeilis góð þýðing hjá þér sérstaklega á bænunum (tilvitnanir í kóran súrur) allt saman auðlesið og aðgengilegt. Er í lagi að vitna í þessa síðu? Hafðu kærar þakkir fyrir og bestu kveðjur frá Amman.

Þorkell @ 8/2/2004 20.06

Þakka þér kærlega fyrir hrósið Gurrý. Það gleður mig að þetta skuli koma að notum. Og já, þér er velkomið að vitna í síðuna eða nýta þýðingarnar.

Mikið öfunda ég þig annars af því að vera í Amman. Það hlýtur að vera dásamlegt. Vona að þú hafir það sem best þar.

Kveðja
Þorkell

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli