þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Hvað varð um Kate? · Heim · Mynd af Linditu »

Tengsl karlmennsku og ofbeldis

Þorkell @ 22.15 26/2/04

Karlmennska hefur fengið á sig slæmt orð og nú til dags þora fáir að fara fögrum orðum um hana. En hver er ástæðan? Ein meginástæðan er líklega sú að karlmennska og ofbeldi er oft samtvinnað í hugum fólks. En hvers vegna ætli svo sé og er ofbeldi karlmanna lærð eða meðfædd hegðun?

Í gegnum söguna hafa karlmenn ávallt verið meirihluti af gerendum í ofbeldi. Til að mynda sótti nasisminn mikið í smiðju hinnar ,,sönnu“ karlmennsku. En við þurfum ekki að fara alla leið til Þýskalands til að sjá voðaverk karlmanna.

Í skýrslu sem Dóms og kirkjumálaráðuneytið gaf út 1997 um heimilisofbeldi á Íslandi kemur fram að á síðustu 12 mánuðum hafa 2,8% kvenna beitt ofbeldi en 9,4% karla. Þegar aðeins er litið á gróft ofbeldi er hlutur kvenna 1,7% en karla 5.6% (bls. 11-12). Það sama er uppá teningnum innan fjölskyldunnar þar sem karlmenn verða mjög sjaldan fyrir (líkamlegu) ofbeldi af hendi núv./fyrrv. maka (3.9%) en það er mun algengara hjá konum 13.8%. Munurinn er enn meiri við beitingu grófs ofbeldis á íslenskum heimilum en þar eru karlar aðeins þolendur í 1.2% tilfella en konur í 7.1% tilfella.

Stríð hafa lengi verið eitt megin tákn karlmennsku. Þegar ég bjó í Albaníu tók ég eftir því að nær allar styttur voru af stæltum hermönnum (allt karlar) með vopnin á lofti, oft í báðum höndum. Eitt besta dæmið um þetta er stytta af vöðvastæltum karlmanni hlöðnum vopnum sem stendur við brunn en fögur varnalaus kona stendur hjá honum og gefur honum vatn að drekka. Þarna kristallast andstæðurnar. Karlmaðurinn er hinn sterki, verjandi aðili sem fer út á vígvöllinn og ver sína varnalausu konu. Hún þjónar honum í staðin af alúð heima fyrir, þakklát fyrir fórnir hans og vernd. Sömu dæmi má vel sjá í málverkum, skáldsögum og vinsælum kvikmyndum þar sem karlhetjan er bardagahetja sem svífst einskis fyrr en markmiðinu er náð, jafnvel þótt þúsundir eða jafnvel milljónir liggi í valnum. Oft eru þetta hetjur sem ákveða að taka lögin í sínar hendur eftir að þeir hafa verið beittir rangindum. Sannur karlmaður lætur ekki vaða yfir sig heldur svarar hann fyrir sig með ofbeldi og jafnvel morðum, enda er það eina leið hans til að endurheimta karlmennskuna.

Annað dæmi um náin tengsl karlmennsku og ofbeldis er hve það er mikil skömm fyrir karlmann að láta konu berja sig. Ég minnist þess að í Vestmannaeyjum var mjög sterk kona sem vann verkstjóra sinn í sjómanni. Verkstjórinn varð að allsherjar spotti og háði bæjarins og nýtti hann sér hvert einasta tækifæri sem honum gafst til að hefna sín á konunni. Einnig er mér minnisstætt hve stjúpfaðir minn hneykslaðist á bróður sínum vegna þess að konan hans var „húsbóndinn á heimilinu,“ og lét hann reglulega fá það óþvegið, eða þannig heyrði ég alla veganna alltaf söguna. Hann hafði aldrei áður heyrt um aðra eins karlmanns-leysu og fannst honum þetta vera miklir álitshnekkir fyrir fjölskylduna. Sannur karlmaður myndi svara tífalt til baka!!!

Þessi tvö dæmi sýna vel þau sterku tengsl sem eru á milli karlmennsku og ofbeldis. Því hlýtur maður að spyrja sig hverju sæti. Eru karlmenn að eðlisfari ofbeldishneigðari en kvenmenn eða á þetta sér félagslegrar skýringar? Enn hefur ekki nein líkamleg skýring fundist sem gæti stutt það að karlmenn séu ofbeldishneigðari að eðlisfari en konur. Að vísu vilja sumir benda á karlhormóna (testosteron), en sýnt hefur verið fram á að ef þeim er sprautað í rottur verða þær mjög árásahneigðar. Það er samt hæpið að heimfæra það yfir á karlmenn því það eru t.d. til hormón, líkamsvessar og aðrar afurðir í skordýrum og plöntum sem gera menn snarvitlausa en hafa engin áhrif á dýrin eða plönturnar sjálfar. Þótt hormón leggist illa í rottur og valdi árásarhneigð þá er ekki þar með sagt að þau hafi sömu áhrif á karlmenn.

En þetta er ekki það eina sem mælir á móti því að ofbeldi sé eðliseigind karlmanna. Benda má t.d. á að ofbeldi er breytilegt í tíma og rúmi. Sem dæmi má nefna að heimilisofbeldi er mun minna á norðurlöndunum (2.8-5% fjölskyldna) en á meginlandi Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada (11-14%) en ef ofbeldi væri meðfæddur eiginleiki ætti það að vera jafn mikið í hinum ýmsu löndum. Að minnsta kosti sýna þessar tölur að félagslegir þættir hafa svo sannarlega áhrif á beitingu þess.

Við erum vön að líta á allt sem er algengt og viðvarandi sem raunverulegt en telja það sem er fágætara óraunverulegt. Þannig er ofbeldi meðfæddur þáttur karlmennskunnar vegna þess að það hefur verið svo lengi þannig og þeir beita því meira en konur. Þetta eru samt mjög vafasamar ályktanir því félagsvísindi hafa sýnt fram á að nær allt hátterni mannkynsins er lært en ekki meðfætt. Mannkynssagan er gott dæmi um þetta en þar sést vel hve hið ,,meðfædda“ og ,,eðlilega“ er breytilegt frá einum tíma til annars (Connell, R. W. Masculinities. Poity press. Oxford. 1996 Bls: 83).

En lítum aðeins nánar á tengsl karlmennsku og hernaðar (hér er að hluta stuðst við grein David H. J. Morgan, Theater of War. 1994. Bls 165-181). Eitt af því sem ýtir undir það að stríð sé tengt karlmennsku er að hingað til hefur konum verið meinuð þátttaka í hernaði og því hefur þetta verið nær eingöngu karlaverk (það sem aðgreinir þá frá hinu kyninu) en það á síðan stóran þátt í að móta karlmennskuna. Þannig erum við komin í hring þar sem stríð tengist karlmennskunni vegna þess að karlmenn mega einir taka þátt í hernaði en það leiðir svo til þess að karlmenn standa enn meiri vörð um að konur taki ekki þátt í hernaðinum, sem aftur tengir það enn meira karlmennskunni o.s.frv. Einnig er karlmennskan oft skilgreind sem andstæða kvenleikans og þar sem blíða, kærleikur og umhyggjusemi eru taldar kvenlegir eiginleikar, hljóta karlmenn að tileinka sér andstæða eiginleika. Hér er því enn ein ástæðan fyrir því að halda konum frá hernaði því þátttaka þeirra gæti ógnað þeirri hugmynd að konur séu að eðlisfari kærleiksverur sem eru fæddar til að veita umönnun og ástúð og myndu því ekki þola hörmungar stríðsvallanna, þ.e.a.s. þetta myndi grafa undan póluninni karlmennska kvenleiki.

Í hernaði þarf að kenna karlmönnum að beita ofbeldi og að myrða. Ekki er nóg með að þeir kunni það ekki, heldur langar flestum það ekki. Þar er reynt að þurrka út einstaklingseðlið og steypa öllum í sama mótið. Þannig er auðveldara að „endurforrita“ mann. Lögð er áhersla á að sannur karlmaður kveinki sér ekki og láti ekki tilfinningar sínar hlaupa með sig í gönur. Hann stjórnast af ,,skynsemi“ og beitir ofbeldi af kaldri rökhyggju, enda er um líf eða dauða að tefla. Eina leiðin til að lifa er að vera nógu fær í að beita ofbeldi, enda er það óaðskiljanlegur þáttur karlmennskunnar. Þannig er unnið markvíst að því að kenna karlmönnum ofbeldisverk og hvernig maður fer að því að drepa og tengja þessa tvo þætti karlmennskunni. Reynsla fyrrverandi bandarískra hermanna í Víetnam er gott dæmi um að hernaður er ekki karlmönnum meðfæddur. Reynsla þeirra var þeim mjög erfið og margir hafa enn ekki náð sér. Þeir áttu t.d. mjög erfitt með mannleg samskipti vegna þjakandi sektarkenndar. Þetta finnst mér benda til þess að fáir fremji ofbeldi eða myrði aðra manneskju af gleði eða nautn. Ef karlmenn væru ofbeldisfullir að eðlisfari væri hæpið að beiting þess myndi leiða til slíkrar vanlíðunar. Einnig er það merkilegt að í stríði reyna flestir að forðast, í fremstu lög, að drepa óvin sinn.

Ef karlmenn væru ofbeldishneigðir að eðlisfari myndu þeir ekki taka þátt í friðarhreyfingum eða hvetja til ofbeldislausra mótmæla, eins og Gandhi gerði, jafnvel þótt það kosti mann lífið! Margir karlar hafa einnig neitað að fara í herinn, þar sem það er skylda, þótt það kosti þá frelsið eða nauðungarvinnu. Og þótt margir skrái sig í herinn af fúsum og frjálsum vilja þá er ekki þar með sagt að það sé af ofbeldis- eða drápsþörf. Oft fara ungir drengir í herinn vegna fátæktar eða ódýrrar menntunnar. Það er einnig áhugavert að nú skrá konur sig í æ meira mæli í herinn svo sérstaða karla fer minnkandi á því sviði. Það vekur athygli að þegar konur hafa tekið þátt í hernaði er ekki mikill munur á kynjunum.

Fyrrnefndur Connell leggur áherslu á að við getum ekki skilið tengslin á milli karlmennsku og ofbeldis á einstaklingssviðinu án þess að skilja að það tengist hinum ytra heimi. Hann segir ,,Ofbeldi er menningarafkvæmi Evrópsku/Amerísku karlmennskunnar er þeir náðu drottnunarstöðu.“ (Connell, R. W. Masculinities. Poity press. Oxford. 1996 Bls: 185-6). Að sjálfsögu hafa stríð ávallt verið háð en þau tóku miklum breytingum síðustu 200 árin og varð ofbeldi fyrst þá rótgróinn partur af karlmennskunni (Connell 1996. Bls: 192). Áhrif samfélagsins á tengsl ofbeldis og karlmennsku sést vel ef skoðuð eru rík lönd og fátæk. Því fátækari sem löndin eru því meiri ,,rullu“ spilar hernaður í karlmennskuímyndinni því yfirvöldin hafa ekki efni á hágæða tæknivopnum og þurfa því að miklu leyti að styðjast við fótgönguliða og landhernað. Þannig mótar ríkisstjórnin karlmennskuna og tengsl hennar við hernað (Morgan, David H. J. ,,Theater of War: Combat, the military, and Masculinities.“ Ritstj. Brot Harry o.fl. Theoryzing Masculinities. Sage Publications. London. 1994. Bls: 165-181).

Ein megin ástæða ofbeldisbeitingar karla er valdamisvægi kynjanna. Þeir sem hafa völdin og finnst sem þeim sé ógnað bregðast við með ofbeldi, sérstaklega ef þeir hafa lært að nota ofbeldi sem lausn á vandamálum, en það er einmitt lykilatriði í herþjálfun. Ofbeldi er því afkvæmi ójafnvægrar valdastöðu. Margoft hefur t.d. verið bent á það að karlar nauðga ekki vegna langanna heldur til að sýna vald sitt. Gott dæmi um þetta eru nauðganir karla í fangelsum en flestir þeirra sem nauðga eru gagnkynhneigðir. Enn áhugaverðara dæmi er ofbeldisbeiting í lesbískum samböndum, en hún er mjög áþekk og í gagnkynhneigðum samböndum. Megin ástæður fyrir beitingu ofbeldis í báðum tilfellum er 1) reynsla af ofbeldi í fortíð, 2) ótti við að vera yfirgefin, 3) tengsl út á við er litið á sem ógn og er því fórnarlambið neytt til að vera heima við og slíta öllu sambandi við umheiminn.

Það er einnig áhugavert að þeir sem beita ofbeldi heima við gera það sjaldan utan heimilis. Þannig virðist hið ,,stjórnlausa“ ofbeldi verða stjórnanlegt utan veggja þess. Þessi sannleikur hefur einmitt verið nýttur í meðferð fyrir ofbeldisfulla karlmenn til að sýna þeim fram á það að þeir hafi meiri stjórn á ofbeldinu en þeir vilja láta vera. Eins og áður sagði er ofbeldi afkvæmi valds en á sama tíma endurspeglar það ófullkomleika þess valds því ef valdakerfi væri löggilt myndi ekki þurfa að beita ofbeldi til að viðhalda því (Connell 1996. Bls: 84).

Ingólfur Gíslason hefur sett fram mjög áhugavert skema til að útskýra ,,hugsanleg tengsl samfélagsgerðar og einstaklingseiginleika varðandi ofbeldi gegn konum“. Þar rekur hann helstu þætti ofbeldis og hvernig konan kemur sér út úr þeim vítahring. Helstu þættir í hans kenningu eru þessir:

1.. Kynhlutverk samfélagsins: Þetta skema gengur út frá því að ofbeldi karla gegn konum velti einna helst á þeim kynjamismuni sem er í samfélaginu, þ.e.a.s. því meira jafnrétti kynjanna því minna ofbeldi. þetta hefur svo áhrif á næsta þátt.

2.. Umburðarlyndi samfélagsins gagnvart ofbeldi: þeim mun minna umburðarlyndi sem samfélagið hefur fyrir beitingu ofbeldis því minna er því beitt og því erfiðara er að komast upp með að beita því. En hér hefur jafnréttisstaða kynjanna mikið að segja, því meira jafnrétti, því minna umburðarlyndi gagnvart ofbeldisbeitingu. Við getum séð mörg dæmi breytinga á þessu sviði. Ef við lítum bara aftur um öxl sést glöggt hve ofbeldi hefur snar minnkað sem uppeldisaðferð en það þótti dyggð að berja börnin til hlýðni hér áður fyrr og tekur meira að segja Gamlatestamentið undir það. Málshættir eins og ,,Að berja barn til bókar“ segja einnig meira en mörg orð. Í dag er þessi gjörningur hinsvegar talinn til mikilla lasta. Á þessu sést að umburðarlyndi samfélagsins gagnvart ofbeldi hefur minnkað. Dæmin eru mun fleiri. Í dag leita konur sér fyrr aðstoðar í samböndum en þær gerðu áður fyrr. Nauðgunum fækkar í Danmörku en þar er einnig mikið jafnrétti kynjanna. Hinsvegar er fylgni í Bandaríkjunum á milli menntunnar og auðs annarsvegar og ofbeldis hinsvegar. Því minni sem menntunin er (og þar með launin) því meira ofbeldi, en menntun er einmitt annar áhrifavaldur jafnréttismála. Því meiri menntun því meira jafnrétti.

3.. – 4. Staða karls/konu í samfélaginu og sambandinu: Þessir þættir mótast af fyrstu tveim þáttunum en við bætast menningaráhrif. T.d. er hefð fyrir því að vandamál séu leyst með ofbeldi? Ein af ástæðunum fyrir því að svo lítið heimilisofbeldi er á Íslandi má líklega rekja til þess að við höfum ekki her og þar af leiðandi læra karlmenn síður að leysa vandamál sín með ofbeldi. Menningin hefur einnig áhrif á stöðu konunnar. T.d. er ætlast til þess að hún gangi með blæju, skerði ekki hár sitt eða gangi í pilsi. Því verri sem staða konunnar er, því meiri líkur eru á því að hún sé beitt ofbeldi.

5. Vandamálastig/stressþættir: Hér koma inn þættir eins og atvinnuleysi, líðan í vinnunni, andleg líðan og forsaga þeirra sem beita ofbeldi. Til dæmis kom fram í danskri rannsóknin um einstæða foreldra að þeir sem voru atvinnulausir beittu oftast líkamsrefsingum, næst þeir sem voru í einhæfri vinnu og sjaldan þeir sem voru í gefandi og fjölbreyttri vinnu. Andleg líðan einstaklingsins hafði einnig áhrif. Staða kynjanna í samfélaginu og sambandinu (3 og 4) hefur hér áhrif á eins og ofangreind dæmi sýna.

6. – 7. Einstaklingseinkenni konu/karls: Hér er átt við uppeldi og eðlislund einstaklingsins en hún er að sjálfsögðu einnig mótuð af stöðu kynjanna í samfélaginu (3 og 4) og á sama tíma mótar hún þá þætti, því það eru jú einstaklingarnir sem mynda heildina en á sama tíma heildin sem mótar einstaklinginn. Einstaklingseinkennin mótast einnig af vandamálastigi og stressþáttum (5) en á sama tíma mótar einstaklingurinn þá þætti (af sömu ástæðu og tengslin við 3 og 4).

8. Einangrun: Þeir sem beita ofbeldi reyna að einangra fórnarlambið og koma í veg fyrir að það eignist vini. Þetta er gert af hræðslu við konan yfirgefi ofbeldismanninn. Þessi einangrun hefur síðan áhrif á vandamálastigið og stressþættina (5) sem aftur hefur áhrif á einangrunina. Atvinnuleysi og önnur vanlíðan leiðir einnig til einangrunar sem veldur síðan enn meiri vanlíðan o.s.frv.

9.. Ofbeldishneiging karlsins: Hér er átt við hverjar séu líkurnar á því að karlinn beiti ofbeldi. Hér hefur einstaklingseinkenni karlsins áhrif en ef hann er ekki ofbeldishneigður er mjög ólíklegt að hann beiti ofbeldi (exit).

10.. Viðvörunarmerki. Átt er við þá þætti sem gefa til kynna að einstaklingurinn sé ofbeldisfullur eða sé líklegur til að beita ofbeldi, þ.e.a.s. áður en ofbeldið er framið. Ef konan skynjar þessa þætti hafa þeir áhrif á 12. þátt.

11.. Ofbeldi: Þetta veltur á því hve ofbeldishneigður karlinn er (sjá lið 9). En hefur síðan áhrif á þátt 12 og 13.

12.. Strategia konunnar: Hver eru úrræði konunnar. Því fleiri sem þau eru því meiri líkur eru á því að málið þróist þessa leið og hún fari úr sambandinu (exit). Hér hafa samfélagslegar aðstæður mikil áhrif (þættir 1, 2 og 4). Getur konan séð sér og börnum sínum farborða? Á hún í eitthvað hús að venda? Fær hún móralskan stuðning frá samfélaginu? Allir þessir þættir skipta miklu máli. Einnig mótast þessi þáttur af einstaklingseinkennum konunnar (7). Var hún alin upp við kúgun og ofbeldi eða lærði hún í bernsku að standa fyrir rétti sínum. Er hún ákveðin eða eftirgefanleg, o.s.frv.

13.. Normalsering: Eftir að karlmenn beita ofbeldi sýna þeir konunni oft mikla ást og blíðu og lofa öllu fögru. Þetta er skinið á milli skúranna, góðu stundirnar sem fær konuna til að trúa því að nú sé allt orðið gott aftur og að hann hætta að beita ofbeldi. Á þessu stigi biðjast karlmenn oft fyrirgefningar á gjörðum sínum og lofa því að beita aldrei ofbeldi aftur. Það loforð stenst þó sjaldan.

14.. Áframhaldandi ofbeldi: Eftir skin koma skúrir. Yfirleitt kemur sú stund fljótt aftur er karlmenn berja konu sína aftur og getur sú hringiðja haldið áfram endalaust, þ.e. 11>13>11… en það er möguleiki að það smelli úr 11>12 og konan komi sér úr sambandinu. Hér geta t.d. börn eða ættingjar og vinir haft áhrif. Verða börnin fyrir barðinu eða grípa ættingjar og vinir inn í málið og hjálpa konunni að komast í burtu.

Af ofangreindum atriðum og skema má sjá að ofbeldi er lært en ekki meðfæddur eiginleiki karla. Það getur vel verið að karlmenn séu sterkari en konur og hafi meiri orku en það er samfélagið sem ákveður hvernig hann beitir henni. Það er t.d. mjög algengt að stúlkum séu gefnar dúkkur og önnur leikföng sem ganga út á umönnun og ástúð en að strákum séu gefnar byssur, tindátar, ófreskjur og önnur ofbeldisfull leikföng. Ofan á þetta bætist að fyrirmyndir stelpnanna eru mjallhvít og öskubuska á meðan strákarnir dást að HeMan, Ofurmanninum, Kóngulóamanninum, karate-skjaldbökum o.s.frv. Hetjum sem beita ofbeldi til að leysa vandan. Þetta eru aðeins fá dæmi um þau mótunaráhrif sem eru í samfélagi okkar. Vissulega má benda á að ýmsir skapbrestir geta verið arfgengir en það á þá jafnt við um konur sem karla.

url: http://thorkell.annall.is/2004-02-26/22.15.39/

Athugasemdir

Fjöldi 9, nýjasta neðst

Binni @ 27/2/2004 00.15

Þetta er fróðlegur og áhugaverður pistill, rétt eins og þessi hérna. En eitt þarftu að hjálpa mér að skilja. Ég skil ekki hvernig þú ferð að því í báðum þessum pistlum að fjalla um „karlmennsku“ eins og hún sé ein stærð og velþekkt. Mér finnst spurningunni „hvað er karlmennska?“ alveg ósvarað (enda tel ég að svarið við henni gæti verið fjölmargt). Þegar þú fjallar um „dulda aðdáun þína á karlmennsku“ og fullyrðir að „karlmennska hafi fengið á sig slæmt orð“, þá skil ég einlægt ekki hvað þú ert að fara. Mér finnst alls ekki karlmannlegt að halda á borvél, bera áburðarpoka, vinna á gröfu, beita handalögmáli til að útkljá deilu, munda byssu eða vinna stríð. Ertu ekki að tala um einhverja tiltekna karlmennsku-ímynd sem góðu heilli hefur fengið slæmt orð á sig?

Þorkell @ 27/2/2004 01.20

“Ég skil ekki hvernig þú ferð að því í báðum þessum pistlum að fjalla um „karlmennsku“ eins og hún sé ein stærð og velþekkt.”

Ég held að við séum að tala um tvo ólíka hluti hér. Annars vegar hvert eðli karlmanna er og hins vegar hvað samfélagið telur vera æskilega (og e.t.v. eðlislæga) eiginleika karlmanna.

Ég er ekkert svo viss um að karlmönnum sé eitt eðlislægara en annað. Persónulega tel ég að hátterni okkar sé að stórum hluta lært (sbr. niðurstöðu þessa pistils).

Það breytir því ekki að til er nokkuð sem samfélagið telur “karlmannlegt”. Það má vel vera að þú sért ekki sáttur við þá túlkun á karlmennsku sem samfélagið virðist aðhyllast, en það breytir því ekki að þetta er sá boðskapur sem við fáum hvern einasta dag. Kveiktu bara á sjónvarpinu Binni og horfðu á Hollywood myndir sem gerðar eru fyrir karlmenn. T.d. myndir eins og The Rock eða Mission: Impossible II.

Þorkell @ 27/2/2004 01.29

Eða röltu niður í leikfangabúð og sjáðu hvernig leikföng strákum er boðið upp á. Stórir og sterkir bílar, byssur, sverð, vöðvabúningar… Nú svo væri sniðugt að líta á tölvuleikina sem eru hvað vinsælastir í dag. Hvaða karlímynd boða þeir?

Ég er sammála því að margt í karlímyndinni má hafa slæmt orð á sér, sbr. ofbelið. En það breytir samt ekki þeirri staðreynd að fólk hefur almennar hugmyndir um “eðli” og “hlutverk” karlmanna. Það neita því flestir, enda er það ekki “inn” en við höfum það samt. Sbr. eftirfarandi könnun sem ég gerði: http://www.annall.is/thorkell/2003-08-30/12.45.17 Það sem meira er. Ég held að við munum aldrei vera laus við kynjahugmyndir. En við getum kannski reynt að móta þær, og það er það sem ég vil.

Það er margt í fari kvenna (sem kallast kvenlegt) sem ég kann mjög vel við. Þessir þættir eru líklega ekki meðfæddir eiginleikar heldur lærðir. Samt sem áður held ég að við ættum að halda upp á þá. Hvers vegna ætti því að vera öðru vísi farið með karlmenn?

eva @ 29/2/2004 12.55

Keli. Viltu kynna mig fyrir einum litlum dreng sem LANGAR að vera prinsessa eða leika sér að brúðum? Mínir strákar léku sér reyndar að dúkkum. Þær voru bundnar við kojustólpann sem fangar í indiánaleik og þær dæmdar til að sviptast höfuðleðri eða brennast á báli.

eva @ 29/2/2004 12.59

Ég held reyndar að karlmenn séu hreint ekkert ofbeldishneigðari en konur. Munurinn er sá að körlum eða eðlislægt að taka á málunum með athöfnum en konur nota frekar tungumálið og sálfræðilega strategíu, hvort sem þær vilja leysa málin friðsamlega eða leggja líf annarra í rúst. Það er bara meira áberandi ofbeldi þegar hnefaréttinum er beitt.

silli @ 29/2/2004 21.07

Er ekki verið að rugla saman karlmennsku og machismo? Það er tvennt ólíkt. Þú ert sennilega of háður Hollywood-módelinu í þessari greiningu.

Þorkell @ 1/3/2004 10.55

Þú mættir endilga segja okkur hver þinn skilningur er á þessum hugtökum Silli.

Bjoddn @ 17/3/2004 20.07

Ofbeldi í karlmönnum er þeim eðlislægt.
Karldýr berja sína keppinauta í burtu og þannig hefur það bara alltaf verið nema á hinum síðustu og verstu.

Einhverntíman horfði ég á heimildamynd frá BBC um fornmenn og þó svo að ekki hafi verið sérstaklega verið að tala um svona mál þar, þá virkaði þetta þannig að karlmennirnir sýndu hörku og börðu frá sér andstæðingana til að koma sér ofar í samfélagið og kvendýrin beittu lævísum bellibrögðum til að koma sér ofar í virðingarstigann ef þess þurfti.

Nú getur vel verið að þú getir gert karlmann að ægilega ofbeldis-ó-hneigðum manni ef þú otar að honum dúkkum og prinsessukjólum en líkurnar á því að hann auki sitt kyn verða þá varla miklar ;)

Eitt karlmennskufyllsta bíóatriði sem ég hef séð er þegar William Wallace öskrar úr sér lungun, alblóðugur og ógeðslegur, eftir að hafa slátrað slatta manna til að auka sitt áhrifasvæði og koma sér og sínum áfram. Þetta er bara það sem karlar gera, ef ei, þá eru þeir gay.

andri freyr árnason @ 20/2/2005 18.25

hey kallinn þú verður að adda mér inn á msn hjá þér :) þetta er andri

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli