þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Að lesa eða lesa inn í kvikmyndir · Heim · Mitt flokkunarkerfi »

Klútar, kollhúfur og krossar: Ógn trúartákna við franska ríkið

Þorkell @ 23.22 15/4/04

Mikið hefur verið rætt um höfuðklútabannið í Frakklandi. Hér eru mínar niðurstöður eftir að hafa skoðað þetta mál svolítið.

Almennt um lögin og sögulegt samhengi.

Frakkar hafa deilt um rétt múslima til að bera höfuðklút í opinberum skólum í áratugi. Árið 1989 var kveðinn upp dómur svo hljóðandi að það væri leyfilegt að bera trúartákn svo lengi sem markmiðið sé ekki „þvingun, ögrun, trúboð eða áróður.“ [1] Allt frá því að þessi dómur var kveðinn upp hefur verið deilt um hvort tiltekin tákn falli undir þessi ákveði.

Þetta er því ekki nýtt deilumál í Frakklandi. Deilurnar hafa hins vegar harðnað upp á skíðkastið. Það var síðan 5. febrúar síðastliðin sem neðri deild þingsins samþykkti með miklum meirihluta að banna höfuðklút múslima (hijab), kollhúfur gyðinga (kippa), stóra krossa og túrban Sikha (dastaar). Bannið gæti jafnvel náð yfir skeggvöxt, sé hvatinn að baki hans ekki réttur. Lögin verða endanlega tekin fyrir í maí og ef þau fara í gegn munu þá taka gildi í haust. Lögin munu líklega ekki aðeins ná yfir opinbera skóla heldur einnig opinbera vinnustaði. [2] Þá er einnig lagt til að konur geti ekki neitað að karlkynslæknar skoði þær, en slíkt er ekki vel liðið af múslimskum konum. Þá er jafnvel rætt um að banna krossa á kirkjum og önnur trúartákn á almannafæri.

Ástæður þessara deilna eru margvíslegar og langt frá því að snúast eingöngu um kúgun kvenna. Þar má t.d. nefna útlendingahatur, ótti við islam, veraldlegan grunn franska ríkisins, einingu landsins og uppgang öfga-hægristefnu í Frakklandi. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þessar ástæður og skoða réttmæti laganna út frá þeim.

Kúgun kvenna

Best er að byrja á kúgun kvenna, en þótt sú hlið málsins sé þekktust er það samt ekki sú ástæða sem franska stjórnin heldur hvað mest á lofti. En fyrst smá leiðrétting. Það gætir nokkurs misskilnings hvað höfuðklútinn varðar. Flestir virðast halda að verið sé að banna andlitsslæður. Því fer þó fjarri, enda andlitsslæður sjaldgæfar í íslömskum löndum og almennt ekki notaðar í Frakklandi. [3] Bann þetta nær til höfuðklúts sem hylur hár kvenna. Það er lögn hefð fyrir því í mið-austurlöndum að fólk hylji hár sitt. Þetta er bæði gert af trúarlegum og menningarlegum ástæðum og nú upp á síðkastið af pólitískum ástæðum. Það er kveðið á um það í Kóraninum að konur eigi að hylja nekt sína og sýna hógværð í klæðnaði (sjá: 7:26, 24:31, 33:59). Það hefur lengi verið hefð fyrir því í sumum Íslömskum löndum að túlka þessa texta þannig að konan eigi einnig að hylja hár sitt. Þetta á ekki aðeins við um konur því margir karlmenn ganga með samskonar höfuðfat. Margir kannast líklega t.d. við myndir af Arafat með höfuðklút. Það er reynar algeng hefð í trúarbrögðum að átrúendurnir hylji hár sitt og hafa kristnar nunnur til dæmis gert það svo öldum skiptir (samanber Korintubréf 11:5-7). Í augum trúaðra múslima hefur höfuðklæðið, eða Hijab eins og það kallast á arabísku, trúarlega stöðu og er tákn um hógværð og hreinleika kvenna.

Menningarlega ástæðan fyrir því að múslimskar konur nota höfuðklútinn er sú að hattar hafa ekki náð útbreiðslu þar og því gegnir höfuðklúturinn svipuðu hlutverki og hattar kvenna í vesturheimi. Að sjálfsögðu styrkir þetta trúarlegu ástæðuna og öfugt.

Að lokum nota múslimskar konur höfuðklútinn í pólitískum tilgangi. Fareena Alam, ritstjóri Q-News, segir t.d. í viðtali við BBC að hógværð sé aðeins ein af ástæðum þess að konur nota höfuðklútinn:

Hann getur einnig verið mjög pólitískur. Ég byrjaði að nota hann þegar ég var 21 árs, gegn vilja fjölskyldu minnar, meðan ég var formaður stúdentafélags Sameinuðu þjóðanna í Háskólanum. Ég vildi sýna fram á hver ég er og berjast gegn stöðluðum ímyndum um múslimskar konur, þ.e. að kona sem er með höfuðklút geti ekki verið athafnasöm og gerandi, menntuð og fagleg. [4]

Því er ekki óalgengt að maður heyri múslimskar konur halda því fram að höfuðklúturinn sé „réttur þeirra, að hann sé réttur múslimskra kvenna og hluti af ímynd múslima.“ [5] Múslimskar konur hafa einnig bent á þversögnina í því að femínistar sem eru málsvarar þess að konur geti hugsað fyrir sig sjálfar og séu skynsemisverur og eigi að njóta frelsis skuli síðan snúa sér við og segja við múslimskra kynsystur sínar að þær séu ekki færar um að hugsa fyrir sig sjálfar. [6] Múslimskar konur hafa því haldið því fram að bannið sé ekkert annað en afskipti ríkisins af frelsi þeirra til frjáls vals. Þær benda einnig á að það sé hefð fyrir því hjá mörgum afríkuþjóðum að konur noti höfuðklúta en þar sem þeir eru hluti af menningu þeirra en ekki trú setur enginn sig upp á móti því að þær noti þá. [7]

Vissulega er það staðreynd að ungar konur eru stundum neyddar til að hylja hár sitt en það er einnig staðreynd að múslimskar konur hylja hár sitt af fúsum og frjálsum vilja. Múslimskar konur kvartað einmitt undan því að enginn virðist trúa þeim þegar þær halda þessu fram. Á móti spyrja þær hvort það sé ekki mismunun að sýna hálfnaktar konur í auglýsingum. Það er einnig áhugaverð staðreynd að það eru ekki fyrstu kynslóðar innflytjendur sem berjast hvað mest fyrir höfuðklútnum, en þær líta margar þeirra á hann sem kúgunartæki, enda flúðu þær islömsk lönd þar sem staða konunnar er mjög bágborin. Það eru hins vegar stúlkur af annarri, þriðju og fjórðu kynslóð sem láta hvað mest í sér heyra. Þessar konur eru franskir ríkisborgarar og líta því á það sem rétt sinn að mótmæla aðgerðum ríkisstjórnarinnar, rétt eins og aðrir þegnar þess. [8]

En þótt margar múslimskar konur hylji hár sitt af fúsum og frjálsum vilja þá er það vissulega sorgleg staðreynd að stúlkur eru einnig neyddar til þess. Auðvitað á það ekki að líðast að nokkur sé neyddur til þess að taka upp hætti sem eru gegn vilja viðkomandi, að almennum siðareglum að sjálfsögðu frátöldum. Vandinn er hins vegar sá að þessi lög koma ekki í veg fyrir slík mannréttindabrot. Afleiðingin verður einfaldlega sú að dætur strangtrúaðra múslima verða sendar í islamskra einkaskóla og þar munu þessar stelpur ekki fá tækifæri til að kynnast vestrænum viðhorfum í gegnum nám sitt. Þar sem lögin munu líklega einnig ná yfir opinbera vinnustaði munu þau jafnframt koma í veg fyrir atvinnuþátttöku þessara kvenna og þar með einangra þær frá samfélaginu. Lögin grafa því undan menntun þeirra, atvinnuþátttöku og stuðla að einangrun þeirra. Þótt kúgun kvenna sé alvarlegt mál þá er þetta einfaldlega ekki rétta leiðin til að leysa vandann.

Útlendingahatur og öfga-hægristefna

Á síðustu árum hefur útlendingahatur og öfga-hægristefna aukist til muna, svo mikið svo að Jean-Marie Le Pen var annar í forsetakosningunum á síðasta ári, en honum er allt annað en hlýtt í garð innflytjenda í Frakklandi. Þetta er reyndar ekkert einsdæmi í Frakklandi því svipaða þróun má greina í öðrum Evrópulöndum. Og eins og annars staðar taka stjórnmálamenn í Frakklandi mið að þessari þróun. Því er ekki ólíklegt að ein af ástæðum þessara laga sé sú að róa á mið öfga-hægrisinna í atkvæðaleit. Um 60-70% þjóðarinnar styður höfuðklútabannið og því er málið líklegt til vinnings í kosningum. [9a], [9b], [9c]

Við þetta bætist að islam er hinn stóri óvinur vestrænna ríkja í dag. Reyndar ná rætur þess fjandskapar og þeirrar tortryggni langt aftur fyrir miðaldir og því eru þetta ekki eftirköst 11. september, þótt sá atburður hafi ekki bætt ástandið. Frakkar bera einnig mikla ábyrgð á því hvernig komið er fyrir málum í Alsír sem leiddi til hryðjuverka Alsírbúa í Frakklandi. Sambúð múslima og Frakka hefur því verið stormasöm á seinni helming síðustu aldar. Hvergi annars staðar í Evrópu eru jafn stór hópur múslima og í Frakklandi en þeir eru taldir vera um 5 milljónir eða um 8-10 % þjóðarinnar.

Múslimar búa flestir í gettóum í útjaðri stórborga, en staða þeirra hefur verið líkt við stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum. Því hefur verið bent á að nær væri að bæta aðbúnað múslima í Frakklandi í stað þess að eltast við höfuðklúta, sem fáir múslimar klæðast hvort sem er. Það eru um 1.8 milljón islamskra stúlkna í skólum í frakklandi. Samkvæmt skýrslu ríkisstjórnarinnar árið 2002 huldu aðeins 2000 þeirra hár sitt og aðeins 157 þeirra neituðu að fjarlægja klútinn þegar þær voru beðnar um það. [10]

Eining Frakkalands

Önnur ástæða sem nefnd hefur verið sem ástæða fyrir þessum lögum er mikilvægi einingar þjóðarinnar. Chirac hefur sjálfur nefnt þetta sem ástæðu fyrir lögunum en í hans augum er hið veraldlega það eina sem getur tryggt einingu þjóðarinnar. Gagnrýnendur hafa hins vegar bent á að bann á trúartáknum sé frekar til þess fallið að kljúfa þjóðina í tvennt. Þá hefur verið bent á hættur þess að skapa einingu með því að steypa alla í sama mót. Afleiðingarnar verða þær að múslimar verða gerðir að blóraböggli en slíkt gæti ýtt þeim út í meiri öfgar í trúmálum og pólitík.

Vandinn er reyndar nokkuð alvarlegur í skólum í Frakklandi því átök á milli múslima og gyðinga eru tíð vegna ástandsins í mið-austurlöndum. Chirac hefur einmitt sagt lögin eiga að koma í veg fyrir slík átök. [11] Þótt trúartákn auðkenni nemendur er ólíklegt að það eitt að fjarlægja þau muni koma í veg fyrir ofbeldið. Það væri líklega árangursríkara að vinna að auknum skilningi á milli hópanna og finna samstarfsvettvang þannig að hægt sé að eyða tortryggni þeirra á milli.

Franska byltingin og trúarranglæti í Frakklandi

Þá komum við að því sem ég tel vera meginástæða þessarar lagasetningar og þurfum við þá að fara allt aftur til frönsku byltingarinnar árið 1789 þegar eigur kirkjunnar voru gerðar upptækar, prestar voru látnir sverja hollustu við ríkið og dýrkun skynseminnar átti að leysa kristna trú af hólmi. Hugsuðir á borð við Voltaire litu á trúarbrögð sem óumburðarlynd og fáfróð sundrungaröfl. París reyndi meira að segja að koma á svipaðri skipan um alla Evrópu en Vatíkanið barðist gegn því. Frakkar svöruðu með því að ráðast tvisvar á Róm, árið 1798 og 1809 og fjarlægðu páfana. Að endingu var gert það samkomulag að kirkjan fengi að vera í friði svo framarlega sem hún héldi sér við andleg málefni. Þessi sátt hélst í eina öld en þá komu aftur fram andkirkjulegar hreyfingar sem leiddu til þess að árið 1905 var sett í stjórnarskrána ákvæði um fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Árið 1937 var svo kennurum skipað að fjarlægja öll trúartákn úr skólum. Þau fyrirmæli mættu ekki mótspyrnu enda samfélagið að stórum hluta veraldlegt.

Allt frá 18. öld hefur afhelgun einkennt alla þróun í Frakklandi. Rætur hins veraldlega liggja djúpt í Frakklandi og það sama má segja um andúð Frakka í garð trúarbragða. Í raun má segja að secularismi, eða veraldarhyggja, sé n.k. ríkistrú í Frakklandi. [12]

Á meðan frambjóðendur í Ítalíu og Bandaríkjunum lýsa yfir trú sinni á Guð sverja franskir stjórnmálamenn hollustu við veraldarhyggjuna. Þetta sést einnig vel í listum þar sem algengt er að hetjur t.d. breskra bókmennta leggist á bæn á raunastundu á meðan trúin virðist vera víðs fjarri frönskum hetjum. [13]

Mannréttindabrot gegn trúarbrögðum er hvergi eins mikið í Evrópu og í Frakklandi og Belgíu. Trúarbragðakennsla er engin í Frakklandi og leitun er að trúarbragða- eða guðfræðingum í landinu, að þeim frátöldum sem hafa það eitt að markmiði að rakka niður trúarbrögð. Það er því ekkert skrítið að Frakkar eiga mikla samleið með Kínverjum þegar kemur að afstöðu þeirra til trúarbragða. Í raun líta Frakkar svo á að trúfrelsi og frjáls hugsun fari ekki saman. Þeir telja að trúfrelsi geti heft frjálsa hugsun. Trú á ekki samleið með skynsemi og einstaklingsfrelsi og því ber að frelsa almenning undan oki hennar. [14] Frakkar hafa því reynt að bola sumum trúarbrögðum í burtu og hafa t.d. sett 70% refsiskatt Votta Jehóva, sem þeir telja stórhættulega.

Í raun eru aðeins ein trúarbrögð viðurkennd í landinu og það er veraldarhyggjan. Átökin snúast því fyrst og fremst um það að verja þessi ríkistrúarbrögð gegn öðrum trúarbrögðum. Þetta sést vel á tali þeirra sem eru hlynntir lagasetningunni. Flestir styðja hana á þeirri forsendu að höfuðklútar gangi gegn meginhugsun veraldarhyggjunnar. Við skulum taka nokkur dæmi:

Chirac sagði t.d. í ávarpi til þjóðarinnar þann 17. desember:

Með því að veita öllum sömu tækifæri munum við skapa þjóðareiningu á ný. Þessu munum við einnig ná fram með því að endurvekja veraldarhyggjuna, sem er stólpi stjórnarskrár okkar. Í henni birtist vilji okkar til að búa í sátt og samlyndi í virðingu, samskiptum og umburðarlyndi. Veraldarhyggja frelsar samviskuna. Hún verndar rétt manna til að trúa eða trúa ekki. … Veraldarhyggja er æðsta afrek lýðveldisins. Hún er grunnur samfélagslegs friðar og einingar. Við megum ekki veikja grunn hennar. Við verðum að vinna að því að styrkja hana. … Við verðum einnig að leggja aukna áherslu á veraldarhyggjuna í skólum, vegna þess að skólana verðum við að vernda. Það er fyrst og fremst innan veggja skólans sem sameignleg gildi okkar eru kennd og lærð. … Markmiðið er ekki að koma fram með nýjar reglur eða að færa út mörk veraldarhyggjunnar heldur er markmiðið að leggja áherslu, af virðingu en af festu og skírleika, á reglur sem hafa verið hluti af hefðum okkar og venjum í óralangan tíma. [15]

Andúðin í garð trúarbragða sést enn betur í grein sem birtist í Time Europe Magazine en þar segir skólastjórinn Therese Duplaix frá því hvers vegna hún er á hlynnt lögunum:

Hvers vegna þurfum við lög sem banna trúarleg tákn í skólum? Í mínum augum snýst þetta um það að varðveita lýðræðið og lýðræðislega og veraldlega hefð þess. Og það þarf að vernda það. Ég minnist þess fyrir tíu árum, í menntaskóal í Seine-St. Denis, í norður París, þegar þrjár 16. ára stúlkur byrjuðu að nota höfuðklút, vegna áhrifa frá skólabróður þeirra frá Marokkó. Ég varð að útskýra fyrir honum að höfuðklútar stúlknanna truflaði bekkinn, og að ef hann fengi ekki stelpurnar til að taka þá af sér yrði hann rekinn úr skólanum. Hann féllst á það en sagði: „Eftir tíu ár verða það við sem skipum ykkur fyrir verkum.“ Við megum ekki látið spádóminn rætast.

Í þeim skóla sem ég vinn nú er um einn fjórði nemanda af norður afrískum uppruna og einn fjórði gyðingar. Ungu stúlkurnar sem setja á sig höfuðklútana þegar þær yfirgefa skólann segja mér í trúnaði að þeir séu til að vernda þær. Án þeirra, segja þær, myndu sumir telja þær „auðfengnar“ og þær yrðu „hafðar að háði.“ Á síðasta ári kærði ég nemanda fyrir trúboð vegna þess að hann kom með trúarrit í skólann og stakk upp a því við aðra nemendur að þeir myndu biðja fyrir góðum einkunnum. Eftir að ég fékk undirskriftarlista sem studdi „ranga ákæru“ á hendur skólafélaga þeirra eyddi ég einum og hálfum klukkutíma í bekknum til að útskýra grundvallar atriði veraldarhyggjunnar. Nemandinn féllst á það skriflega, frammi fyrir aganefndinni, að fylgja reglum skólans en tveimur vikur síðar var hann rekinn vegna hrottaskaps. Hann skildi ekki reglur samfélagsins.

Kennarar mínir í sögu, landafræði og vísindum hafa lent í því að nemendur setja sig upp á móti námsefni sem þeir segja að gangi gegn trúarsannfæringu þeirra. Það er einnig erfitt að fá suma nemendur til að mæta á föstudagskvöldum eða laugardagsmorgnum vegna hvíldardags gyðinga. Ég, og fleiri samstarfsfélagar mínir, lítum svo á að trúarbrögð ættu ekki að trufla stundarskrá skólans – nemendum í hag.

Fyrir tveim mánuðum byrjaði efribekkingur að nota höfuðklút. Ég sagði við hana, inn á skrifstofu minni, í návist móður hennar og nokkurra bekkjarfélaga, að hún væri að einangra sig frá okkar menntun og möguleikum hennar. Hún féllst á að fjarlægja höfuðklútinn, en tveim vikum síðar kom hún aftur til að láta mig vita að eftir að hún ræddi við skólafélaga sína ákvað hún að taka upp höfuðklútinn alfarið og yfirgefa skólann. Mig grunar að hún hafi verið beitt þrýstingi.

Ríkisskóli í Frakklandi á að vera vettvangur frelsis þar sem gagnrýnin hugsun er þjálfuð. Hann á að vera frjálst svæði þar sem unglingar móta huga sinn, án þess að vera fjötraðir af tengslum við trúfélög. Hann á að vera verndarvirki þar sem stúlkur geta þroskast án banna sem tengjast kyni, eins og að klæðast hárkút, sem aðgreinir þær frá afganginum af mannkyninu. Skólinn á að endingu að vera staður sem leyfir öllum, án tillits til samfélags þeirra eða réttmæti fjölbreytileika þeirra, að þróa með sér algilda mennsku. Veraldarhyggja gerir okkur kleyft að byggja á þeim eiginleikum sem sameina okkur, en ekki þeim sem aðgreina okkur og að stuðla að alheimslegri samhygð, á meðan trú er persónulegt einkamál.

Í þeim menntaskóla sem ég rek er skýr vilji þeirra fullorðnu að gildi veraldarhyggjunnar séu höfð í heiðri og að frá þeim sé ekki vikið. … Við þurfum á lögum að halda sem styðja markmið okkar í að verja veraldarhyggjuna. Ríkið okkar verður að verja sig af öllum mætti og vinna að sameiginlegri virðingu fyrir þeim lífsreglum og andlegu gildum sem það byggir á. [16]

Það er margt hér sem vekur athygli. Fyrir það fyrsta slær það mann hversu hart skólastjórinn gengur fram í því að berjast gegn trúartáknum í skólanum. Hún hótar að reka nemanda sem fær þrjár stúlkur til að nota höfuðklút og heldur fyrirlestur fyrir framan bekkjafélaga og móður eldri nemanda sem hylur hár sitt. Það er ljóst af orðum hennar að stúlkan hafði um tvennt að velja. Að hætta menntun sinni eða að leggja höfuðklútnum.

Þá er nemandi kærður og sendur fyrir aganefnd fyrir það eitt að stofna bænahring til að biðja fyrir velgengni á prófi og eins og hálfstíma ræða haldin yfir skólafélögum hans sem sýna honum stuðning með undirskriftarlista.

Þá hefur hún engan skilning á hvíldardegi gyðinga og finnst það nemendunum fyrir bestu að þeir mæti í skólann á helgidögum sínum, helgidögum sem eru grunnur trúarbragða þeirra. Þá má lesa það á milli línanna að hún telur trúarbrögð ekki ala á gagnrýnni hugsun og að þau stuðli að óeiningu. Hins vegar talar hún um veraldarhyggjuna á mjög trúarlegum nótum. Hún segir hana innræta fólki algilda mennsku, sameina hina sundruðu og stuðla að alheimslegri samhygð. Hún segir veraldarhyggjuna meira að segja vera andlegt gildi!

Í raun er erfitt að sjá muninn á þessum skóla og skólum í Íran eða Sádí Arabíu. Þar er islam eina lausnin og stöðugur áróður rekinn fyrir því á meðan veraldarhyggjan er eina leiðin í Frakklandi og hver sá sem setur sig upp á móti því hugmyndakerfi á að hættu að vera rekinn og þeir sem sýna viðkomandi skilning þurfa að sitja undir löngum fyrirlestrum um dásemd veraldarhyggjunnar.

Vinur minn komst vel að orði eftir að hann las þessi orð Theresu: „Markiðið er að steypa alla í sama mót. Þar eru engin frávik leyfð. Engu máli skiptir hvað nemandanum er heilagt. Það skal fjúka ef það samrýmist ekki veraldarhyggjunni. Þetta er í raun skólabókadæmi um umburðarleysi og virðingarleysi fyrir fjölbreytni mannlífsins. Það eina sem ber að virða er þröngsýn efahyggja ríkisvaldsins og öllu öðru er úthýst.“ Það vekur athygli að meira að segja þeir sem eru á móti þessu banni eru það í nafni veraldarhyggjunnar, þ.e. hófsamrar veraldarhyggju.

Þessi lög og þessi afstaða ganga í raun gegn mannréttindasáttmála evrópusambands-ins og eru því lögleysa. Í grein nr. 9 segir:

Allir hafa jafnan rétt til frjálsrar hugsunar, samvisku og trúar. Í því felst réttur til að skipta um trú eða skoðun og jafnframt frelsi til að tjá trú sína eða skoðanir með tilbeiðslu, kennslu, lífsháttum eða helgisiðum, hvort sem það er á einstaklingsgrundvelli eða í samfélagi við aðra. Aðeins er hægt að takmarka trúar- eða skoðunarfrelsi einstaklinga þegar þau varða lög og ógna öryggi borgaranna, til að halda uppi lögum landsins, vegna heilbrigðismála eða siðferðilegra mála eða til að vernda réttindi og frelsi annarra. [17]

Það er alveg ljóst að þau lög sem verið er að setja í Frakklandi brjóta þessi mannréttindalög. Trúartákn eru ekki ógn við öryggi borgaranna á neinn hátt. Það sem veldur hins vegar áhyggjum er að Frakkland er áhrifamikið land innan Evrópu og því gæti þessi lagasetning haft víðtæk áhrif í álfunni allri og leitt til lagasetninga sem skerða réttindi trúaðra. Ég tala nú ekki um þegar Þjóðverjar eru einnig farnir að taka upp svipuð lög. Belgar eru nú þegar að íhuga slíka lagasetningu og svipaðar umræður eru í Quebec í Kanada. [18]

Hættan við þessi lög er sú að hún skerði trúarfrelsi einstaklingsins, þurrki út trúarleg einkenni í samfélaginu og skapi einsleitt samfélag. Að endingu verður trúarfrelsi takmarkað af viðkvæmi annarra [19] og öðlist sömu stöðu og reykingar í dag. Þau einu trúarbrögð sem viðurkennd verða í samfélaginu er veraldarhyggja og ofurtrú á vísindi.

Af þessari yfirferð sést að það er ekkert sem mælir með þessum lögum. Þau stuðla ekki að jafnrétti kynjanna, koma ekki í veg fyrir kúgun kvenna, heldur auka á hana ef eitthvað er. Þá er verið að róa á mið útlendingahaturs og öfga hægristefnu og einingu landsins er ógnað. Að endingu er verið að brjóta gróflega á réttindum trúaðra og margt bendir til þess að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í þeirri viðleitni að bola burt trúarbrögðum alfarið í nafni annarra trúarbragða, að þessu sinni veraldarhyggjunnar. Þetta er í raun áþekkt því sem átti sér stað í fyrrverandi kommúnistaríkjum og á sér stað enn í þeim fáu þeirra sem eftir eru.

Þeir sem vilja banna trúartákn á opinberum stöðum verða að svara þeirri spurningu hvort slíkt bann eigi ekki einnig að ná yfir pólitísk eða félagsleg tákn, svo sem stjórnmálaflokka, femínista eða réttindabaráttu samkynheygðra. Er það virkilega slíkt samfélag sem við viljum?

url: http://thorkell.annall.is/2004-04-15/23.22.37/

Athugasemdir

Fjöldi 32, nýjasta neðst

Matti Á. @ 16/4/2004 09.35

Þeir sem vilja banna trúartákn á opinberum stöðum verða að svara þeirri spurningu hvort slíkt bann eigi ekki einnig að ná yfir pólitísk eða félagsleg tákn, svo sem stjórnmálaflokka, femínista eða réttindabaráttu samkynheygðra. Er það virkilega slíkt samfélag sem við viljum?

Snúum þessu við, villtu virkilega að pólitísk tákn verði áberandi í opinberum skólum? Sérðu ekkert athugavert við það ef krakkar klæðast áberandi stjórnmálatáknum í tímum og halda stjórnmálafyrirlestra í opinberum skólum? Hvað ef hægt væri að sýna fram á að stór hluti þessara sömu krakka væru neydd til þess að bera þessi tákn? Er það virkilega slíkt samfélag sem við viljum?

Í framhaldi hefði ég svo áhuga á að heyra skoðanir þínar á kristnu trúboði í opinberum leik- og grunnskólum á Íslandi í dag.

Þorkell @ 16/4/2004 09.47

Fyrstu spurningunni svara ég svona: Ef þið “trúleysingjar” hefðuð tákn og börn ykkar bæru þau í skólum þá myndi ég ekki leggja bann við því, jafnvel þótt þau væru í sumum tilfellum neydd til þess.

En gleymum því ekki að það er ekki aðeins verið að tala um grunnskóla hér, heldur alla opinbera staði. Þegar ég fór í menntaskóla báru margir pólitísk tákn á sér. Mér fannst það í góðu lagi.

Hvað opinbert trúboð í skólum varðar þá á það ekki að viðgangast, enda er kveðið á um það í námsskrá að kennslan eigi að vera fræðileg. Hins vegar snýst þetta mál ekki um trúarbragðakennslu á Íslandi og því vil ég helst að við ræðum hana annars staðar.

Matti Á. @ 16/4/2004 09.52

Gott og vel, ég vildi bara heyra hvort réttlætiskennd þín næði líka um réttinn til að vera laus við trú og trúboð.

Annars get ég ekki gert að því að mér þykir furðulegt hversu sterkum litum þú málar þá kúgun sem trúaðir verða fyrir í Frakklandi. Vissulega er Franska Ríkið laust við trú – þ.e.a.s. secular stofnun, en Frakkar mega stunda hvaða trú sem þeir vilja hvenær sem þeir vilja. Þeir mega bara ekki gera það á opinberum stöðum.

Rökin fyrir þessu eru meðal annars þau að á opinberum stöðum eigi fólk að sameinast óháð trú. Þeir sem ekki geta tekið af sér trúartákn og eru ófærir um að taka sér hlé á trúaráróðri eru að mínu mati þeir sem sýna fordóma og kúgun – ekki þeir sem þú álasar hér.

Þorkell @ 16/4/2004 10.09

Kallar þú refsiskatta á trúflokka það að “Frakkar megi stunda hvaða trú sem þeir vilja hvenær sem þeir vilja”?

Matti Á. @ 16/4/2004 10.28

Gætirðu vísað mér á heimild fyrir 70% refsiskattinum á Votta Jehóva?

Frakkar viðurkenn Vottana ekki sem trúfélag heldur líta á þá sem cult, svipað og Scientology. Ég tel það rétt metið hjá Frökkum.

Hafsteinn @ 16/4/2004 11.52

Innan trúarlífsfélagsfræðinnar er cult ein tegund af trúarhópi, ef ég man rétt, það að eitthvað sé félagsfræðilega metið sem cult kveður ekki á um að viðkomandi hópur sé ekki trúfélag.

Þorkell @ 16/4/2004 12.02

Ég biðst forláts, því talan er röng. Hún er 60% skattur á öll fjárframlög þar sem ekki er um trúarbrögð að ræða heldur hættulegan sértrúarsöfnuð. Ef 60% eru ekki greidd innan tiltekins tíma hækka þau í 80%. Jafnframt var lagt haldréttur á helstu eignir trúfélagsins þannig að hægt er að gera þær upptækar ef ekkert er greitt. Þetta er búið að veltast um í dómskerfinu árum saman. Hægt er að lesa nánar um þetta hér og hér og hér og hér og hér og

Matti Á. @ 16/4/2004 12.12

Trúarlífsfélagsfræðin, er það ekki sama fræðin og segir að trúleysi sé trú samkvæmt innihaldsskilgreiningu! Ég tek lítið mark á slíku moði.

Hér er ágæt grein sem rökstyður það að Vottarnir séu cult (og á einhvern hátt öðruvísi en aðrir trúarhópar að því leyti)

Ég hef enga samúð með trúarhópum sem drepa börn (með því að neyta þeim um blóðgjafir) og styð aðgerðir frakka gegn vottum og Church of Scientology.

Ertu með dæmi um fleiri trúhópa en Votta Jehóva sem verða fyrir ofsóknum Franskra stjórnvalda?

Þorkell @ 16/4/2004 13.11

Matti segir: “Ég hef enga samúð með trúarhópum sem drepa börn (með því að neyta þeim um blóðgjafir)”

Afstaða íslenskra stjórnvalda og landlæknisembættisins til Votta Jehóva er mun gáfulegri en lagasetning Frakka. Hér er trúarhópur Votta Jehóva viðurkenndur og í tengslum við ríkisvaldið eins og fjöldi annarra trúarhópa. Þegar læknar telja að ósjálfráða einstaklingar þurfi á lífsnauðsynlegri blóðgjöf að halda er hún veitt og fær trúarsöfnuðurinn ekki að hindra það.

Þorkell @ 16/4/2004 13.15

Matti spyr: Ertu með dæmi um fleiri trúhópa en Votta Jehóva sem verða fyrir ofsóknum Franskra stjórnvalda?

Það eru á annað hundrað trúarhópar skilgreindir sem hættilegir sértrúarhópar í Frakklandi, Vísindaspekikirkjan, Moonistar, Fjölskylda ástarinnar, Soka Gakkai búddhistar, Sjöunda dags aðventistar, Humanist Party Movement, Nýja postulakirkjan, Innhverf íhugun, Hare Krishna, Mormónar og ýmsar jógahreyfingar. Hægt er að lesa um þetta allt hér.

Þorkell @ 16/4/2004 13.19

Matti spyr: “Trúarlífsfélagsfræðin, er það ekki sama fræðin og segir að trúleysi sé trú samkvæmt innihaldsskilgreiningu! Ég tek lítið mark á slíku moði.”

Trúarhópar skilgreina sjálfa sig og umheiminn eftir eigin geðþótta, en það þýðir ekki að fræðimenn taki skilgreiningar þeirra hráar. Innhverf íhugun og Falun Gong neita öllum trúartengslum en samt eru þessir tveir hópar skilgreindir sem trúarhópar af trúarbragðafræðingum. Vottar Jehóva neituðu því lengi að þeir hefðu eitthvað með trúarbrögð að gera og gengu liðsmenn þeirra jafnvel með kröfuspjöld á lofti þar sem þeir fordæmdu öll trúarbrögð. Enda þótt guðleysingar einir sér eða í samtökum sínum sverji af sér öll tengsl við trúarbrögð þýðir það ekki þar með að trúarbragðafræðingar þurfi að samþykkja það. Samkvæmt bæði innihaldsskilgreiningum og hlutverkaskilgreiningum á trúarbrögðum má líta á þá sem trúaða.

Þorkell @ 16/4/2004 13.20

Trúarlífsfélagsfræðingar eru fræðimenn sem rannsaka trúarbrögðin á félagsfræðilegum forsendum. Þeir eru ekkert endilega kristnir, geta allt eins verið múslimar eða húmanistar og guðleysingar.

Þeir sem rannsaka trúarhópa á fræðilegum forsendum notast við ákveðin hugtök sem hafa ákveðna merkingu. Algengasta flokkunarkerfið er: Kirkja (church), kirkjudeild (denomination), sértrúarsöfnuður (sect) og laustengd trúarhreyfing (cult). Dæmi eru um frávik frá þessu flokkunarkerfi þegar um einstaka fræðimenn er að ræða en það er af og frá að hægt sé að tala um vottana sem cult, þeir eru sect.

Matti Á. @ 16/4/2004 13.22

Er það þín skoðun að allir hópar sem telja sig trúarhópa eigi að fá slíka viðurkenningu hjá stjórnvöldum og njóta um leið þeirra skattafríðinda sem því fylgja?

Þakka þér fyrir vísunina á skýrsluna. Eru einhverjir sérstakir hópar í þessum lista sem þú telur ósanngjarnt að fái þessa flokkun [hættulegir sértrúarhópar]?

Stangast það ekki á við ásökun þína um trúarofsóknir að fjöldi trúfélaga nýtur viðurkenningar Franskra stjórnvalda og þeirra skattfríðinda sem því fylgir?

Matti Á. @ 16/4/2004 13.25

Þakka þér fyrir leiðréttinguna, vottarnir eru sect.

Enda þótt guðleysingar einir sér eða í samtökum sínum sverji af sér öll tengsl við trúarbrögð þýðir það ekki þar með að trúarbragðafræðingar þurfi að samþykkja það. Samkvæmt bæði innihaldsskilgreiningum og hlutverkaskilgreiningum á trúarbrögðum má líta á þá sem trúaða.

Að sama skapi samþykki ég ekki þessar skilgreiningu trúarbragðasérfræðinganna.

Þeir eru ekkert endilega kristnir, geta allt eins verið múslimar eða húmanistar og guðleysingar.

Ef þú hefur tíma máttu gjarnan benda mér á guðlausan trúarbragðasérfræðing eða guðfræðing (getur maður verið annað en ekki bæði?)

Ólafur Tryggvi @ 16/4/2004 13.50

Peter Berger:
http://www.bu.edu/religion/faculty/individualfaculty/berger.htm

Matti Á. @ 16/4/2004 15.00

Svarið við síðustu spurningunni er augljóslega já, maður getur verið trúarbragðasérfræðingur án þess að vera guðfræðingur. Er Berger ekki annars félagsfræðingur?

Hafsteinn @ 16/4/2004 15.39

Er ekki rétt að nota rétt heiti yfir þetta. Þeir aðilar sem hafa sérhæft sig í rannsóknum á trúarbrögðum eru kallaðir trúarbragðafræðingar. Það er alveg óþarft að skjóta inn “sér” þarna. Hvað Berger varðar þá kemur fram á vefsíðunni sem Ólafur Tryggvi vísar til að hann sé prófessor emerítus í “Religion, Sociology and Theology”. Það er því rétt að hann sé prófessor í félagsfræði (og þar með félagsfræðingur) en hann er töluvert meira líka. Hugsanlega mætti jafnvel nota orðið trúarlífsfélagsfræðingur um hann ;-)

Þorkell @ 16/4/2004 16.02

Matti spyr: “Er það þín skoðun að allir hópar sem telja sig trúarhópa eigi að fá slíka viðurkenningu hjá stjórnvöldum og njóta um leið þeirra skattafríðinda sem því fylgja?”

Já, svo framarlega sem þeir brjóta ekki gegn almennu siðferði og landslögum.

Þorkell @ 16/4/2004 16.02

Matti spyr: “Eru einhverjir sérstakir hópar í þessum lista sem þú telur ósanngjarnt að fái þessa flokkun [hættulegir sértrúarhópar]?”

Allmargir trúarhópar sem tilgreindir eru í skýrslunni eru starfandi á Íslandi og sé ég ekkert athugavert við það: Soka Gakkai búddhistar, sjöunda dags aðventistar, mormónar, Nýja postulakirkjan, Íslenska íhugundarfélagið (innhverf íhugun), húmanistahreyfingin og ýmsar jógahreyfingar. Sumir þeirra eru meira að segja í tengslum við ríkisvaldið. Ég aðhyllist ekki þessa trúarhópa og er ósammála mörgu hjá þeim en ég sé ekki ástæðu til að þeir fái ekki að njóta sömu stöðu og aðrir.

Þorkell @ 16/4/2004 16.05

Matti Spyr: “Stangast það ekki á við ásökun þína um trúarofsóknir að fjöldi trúfélaga nýtur viðurkenningar Franskra stjórnvalda og þeirra skattfríðinda sem því fylgir?”

Frönsk stjórnvöld virðast gera greinarmun á trúarbrögðum og hættulegum sértrúarsöfnuðum. Vissulega njóta ýmsir rótgrónir trúarhópar vissrar stöðu í landinu en fjölmargir aðrir trúarhópar, sem m.a. eru viðurkenndir á Íslandi og í tengslum við ríkisvaldið, hafa ekki fengið hana heldur sæta misrétti af hálfu hins opinbera.

Þorkell @ 16/4/2004 16.05

Matti segir: “Ef þú hefur tíma máttu gjarnan benda mér á guðlausan trúarbragðasérfræðing eða guðfræðing (getur maður verið annað en ekki bæði?)”

Ég man ekki betur en að danski trúarbragðafræðingurinn Mikael Rothstein sé bæði húmanisti og guðleysingi, en er því miður ekki með bækurnar hans og greinar við höndina í augnablikinu. Peter L. Berger, einn af mikilvægustu trúarlífsfélagsfræðingunum, hefur einnig verið flokkaður sem guðleysingi.

Þorkell @ 16/4/2004 16.06

Til eru ótal guðfræðistefnur og kallast ein þeirra “kristilegt guðleysi”. Um hana er m.a. hægt að lesa hérna. Ennfremur mætti benda á bókina The New Gospel of Christian Atheism eftir Thomas J.J. Altizer. Aðrir guðfræðingar sem boðað hafa dauða Guðs með einum eða öðrum hætti eru t.d. William Hamilton, Richard Rubenstein og Paul Van Buren. Altizer og Hamilton skrifðu saman bókin Radical Theology and the Death of God. Meira að segja einn af biskupum anglíkönsku kirkjunnar, J.A.T. Robinson, hélt því fram á sjöunda áratugnum að Guð væri bara goðsögn og var harðlega gagnrýndur fyrir vikið.

Sá sem er guðfræðingur er háskólamenntaður sérfræðingur í a.m.k. kristinni trú. Það þýðir hins vegar ekki endilega að hann samþykki sjálfur allt það sem hann hefur lært um eða trúi á Guð.

Matti Á. @ 16/4/2004 16.13

Kristilegt guðleysi er afskaplega einkennilegt fyrirbæri miðað við lýsingingu á síðu BBC. Guðleysingjar sem finnst gaman í Kirkju!

Hafsteinn: þessi athugasemd út af “sér” sem læddist óvart inn í heiti trúarbragðafræðinganna er með því smásmugulegasta sem ég hef orðið vitni að á annálum og þó hef ég séð ýmislegt ;-)

Þorkell @ 16/4/2004 16.19

Matti segir: “Kristilegt guðleysi er afskaplega einkennilegt fyrirbæri miðað við lýsingingu á síðu BBC. Guðleysingjar sem finnst gaman í Kirkju!”

LOL! Mikið er ég sammála þér Matti. :-)

Hafsteinn @ 16/4/2004 18.21

Mér fannst þetta nú eiginlega bara fyndið, en athugasemdin var annars sett fram í mesta bróðerni og mér sýnist ábendingin hafa komist til skila. Annars finnst mér ekkert furðulegt eða einkennilegt við kristna guðleysingja, þeir hafa einfaldlega áttað sig á því hvað það er gaman í kirkju þótt þeir séu ekki sammála boðskapnum ;-)

Matti Á. @ 16/4/2004 23.07

Varðandi þessa skrítnu guðleysingja. Líffræðingurinn Donald M. Broom sem skrifaði m.a. bókina The evolution of morality and religion fellur vafalítið í þennan flokk kristinna guðleysingja, a.m.k. miðað við þá bók. Mæli með henni, skrifa nokkra punkta um hana síðar. Þegar ég las hana furðaði ég mig á því að hann væri trúmaður og virkur í söfnuði, því bókin gæti að stærstum hluta eins og hún sé skrifuð af hörðustu tegund trúleysingja.

Matti Á. @ 16/4/2004 23.08

Þessi bók eftir Broom er skrambi áhugaverð og tengist umræðunni um siðfræði sem átti sér stað í annálnum hans Skúla ansi mikið – tengist pistlinum hér að ofan aftur á móti ekki neitt :-P

Árni Svanur @ 17/4/2004 11.13

Og bókin heitir …

Matti Á. @ 17/4/2004 12.29

Glöggir menn sjá að slóðin hefur misfarist, gæsalöppin stóð utan við stærra en merkið, ekki innan þess. Langa slóðin vísar á bókina.

Þorkell, getur þú ekki lagað athugasemdina? það þarf bara að færa þessa gæsalöpp inn fyrir stærra en merkið í lok amazon slóðarinnar.

Þorkell @ 17/4/2004 12.48

Ég geri allt fyrir þig Matti… eða flest :-)

gunný @ 17/4/2004 13.30

Þetta var lærdómsrík lesning. Mikið var! Þorkell þú ert æði:-)

Þess má til gamans geta að Julia Kristeva, sú stórmerkilega fræðikona, þegar hún kom til Oxford til að flytja nokkra fyrirlestra, var ekki einasta beðin um að taka þátt í bænastundum skólans, sem er sterkur þáttur í sögu breskra skóla og verða örugglega aldrei aflagðar, heldur var hún beinlínis beðin um að flytja bæn! Hún átti erfitt með að jafna sig svo fyndið fannst henni það. Eftir að heim kom, en hún býr í París, runnu hins vegar á hana tvær grímur og hún fór að velta því fyrir sér hvort dulúð þekkingarinnar sem hefur talsvert vikið fyrir afhelgun menntastefnunnar í Frakklandi, hefði hugsanlega mátt halda einhverju. Þetta eru skemmtilegar pælingar í bréfaskriftum hennar og Catherine Clement, The Feminine and the Sacred.

eva @ 20/4/2004 09.25

Hvað er svona dularfullt við að guðleysingjum geti þótt gaman í kirkju? Ekki trúi ég því að allur sá skari sem hefur gaman af Hringadróttinssögu trúi í alvöru á álfa og hobbita. Margar af Biblíusögunum eru hin ágætustu ævintýri og Jesús karlinn sagði ýmislegt athyglisvert sem menn geta haft áhuga á þótt þeir telji ólíklegt að sá mæti maður hafi verið skilgetið afkvæmi guðs almáttugs.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli