þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Journal d’un curé de campagne / Diary of a Country Priest – 4. maí · Heim · Eternal Sunshine of the Spotless Mind – 5. maí »

Að vera trúr í hinum rangláta mammón

Þorkell @ 20.33 5/5/04

Ég er oft spurður um merkingu dæmisögunnar af rangláta ráðsmanninum í Nýja testamentinu. Mig langar því að tjá mig smávegis um hana.

Mörgum hefur fundist dæmisagan um rangláta ráðsmanninn í Lúkasarguðspjalli 16:1-8 vera mjög torskin, óþægileg, og jafnvel siðlausa með öllu og hafa sumir gengið svo langt að efast um að Kristur hafi getað sagt hana. Hvernig getur það verið lofsvert hjá ráðsmanninum að svíkja og pretta? Er Kristur að hvetja okkur til að vera slóttug í viðskiptum? Þessar óþægilegu spurningar eru líklega ástæðan fyrir því hve lítið er prédikað úr af dæmisögunni og hve sjaldan henni er flaggað, jafnvel þegar erfiðar dæmisögur eru til umræðu.

Til að skilja dæmisögur Krists hjálpar oft að lesa þær í tengslum við sögulegt umhverfi og í samhengi guðspjallsins sjálfs, en lítum fyrst á textann:

Lúkas 16:1-13
1. Enn sagði hann við lærisveina sína: ,,Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans.
2. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.“
3. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennsku minni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla.
4. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.
5. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?“
6. Hann svaraði: ,,Hundrað kvartil viðsmjöls.“ Hann mælti þá við hann: ,,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.“
7. Síðan sagði hann við annan: ,,En hvað skuldar þú?“ Hann svaraði: ,,Hundrað tunnur hveitis.“ Og hann sagði honum: ,,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.“
8. Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.
9. Og ég segi yður: Afla yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.
10. Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.
11. Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúið yður þá fyrir sönnum auði?
12. Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?
13. Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mannón.“

Kaflinn í samhengi sínu í guðspjallinu
Þessi dæmisaga er sögð eftir að Jesús er lagður á stað til Jerúsalem og þegar hér kemur sögu hefur hann þegar sagt fyrir um þær þjáningar sem bíða hans sem og all nokkrar dæmisögur. Allar fjalla þessar dæmisögur um guðsríkið, um að hinir fyrstu verði síðastir og hinir síðustu fyrstu.

Í þessum dæmisögum er réttlætishugmyndum mannanna á þessum tíma snúið við og hinir umkomulausu og jafnvel hinir ótrú og syndugu eru réttlættir og vegsamaðir. Þannig er samverjinn gyðingunum fremri, María Mörtu betri, þótt hin síðarnefnda gekk beina fyrir Krist, ríki bóndinn missir líf sitt og sál fyrir það eitt að safna auði, gyðingar komast ekki inní guðsríki, hinum fátæku er boðið til brúðkaupsveislunnar en hinum ríku er haldið burtu og meira er fagnað yfir týnda sauðinum, drökmunni eða glataða syninum en yfir hinu sem meira var og til var fyrir. Þrátt fyrir að glataði sonurinn hafði fært skömm yfir hús föður síns og sóað öllum sínum arfi er meira glaðst yfir honum en þeim sem heima var og þjónaði af elju. Öllu er snúið á hvolf.

Á eftir öllu þessu kemur sagan af rangláta ráðsmanninum þar sem honum er hrósað fyrir að gefa upp skuldir húsbónda síns og koma sér í mjúkinn hjá skuldunautunum. Þessu er fylgt úr hlaði með sögu af ríkum manni sem vill ekki gefa fátæka Lasarusi neitt og lendir í helvíti fyrir vikið en Lasarus hvílir í staðinn í faðmi Abrahams. Þá er hvatning um að fyrirgefa að eilífu og að inna meiri þjónustu af hendi en krafist er. Guðsríki er fyrir hina umkomulausu og þeim sem minna mega sín. Þar er hinum syndugu fyrirgefið en hinum dramblátu ekki.

Þátttakendur í frásögunni og tengsl þeirra
Þátttakendur í dæmisögunni eru ríki húsbóndinn, ráðsmaðurinn, þeir sem saka ráðsmanninn (þeir koma þó aðeins óbeint fyrir), skuldunautar húsbóndans og minnst er á börn þessa heims og börn ljóssins. Ríki maðurinn er drottnandi húsbóndi (sem sýnir þó kærleik í lok sögunnar og hrósar ráðsmanninum) en ráðsmaðurinn er slóttugur. Skuldunautarnir skipta litlu máli í sögunni. Börn ljóssins eru hinir andlegu og Guði þóknanlegu en börn þessa heims er slóttug og kæn.

Utan dæmisögunnar í köflum 15 og 16 eru það tollheimtumenn, bersyndugir menn, farísear, fræðimenn, lærisveinarnir og að sjálfsögðu Kristur. Tollheimtumennirnir og hinir bersyndugu eru úrhrak og settir að jöfnu. Farísearnir og fræðimennirnir eru hinir lögmálshlýðnu og leiðtogar safnaðarins sem ganga um og dæma þá sem halda ekki lögmálið. Þeim er lýst sem drambsömum og dómhöðrum.

Röksemdafærslan, áhersluþættir og hnökrar
Bornar eru sakir á ráðsmanninn en ríki maðurinn rannsakar ekki einu sinni hvort fótur sé fyrir þeim né gefur hann ráðsmanninum tækifæri á að svara fyrir sig. Ráðsmaðurinn er ráðþrota og kærir sig ekki um að gerast verkamaður eða betlari og hræðist sultardaga. Til þess að tryggja framtíð sína ákveður hann að gefa upp skuldir húsbónda síns og koma sér þannig í mjúkinn hjá skuldunautum hans. Maður mætti búast við því að húsbóndinn myndi sýna vald sitt, er hann kæmist að þessu, og refsa ráðsmanninum heiftarlega fyrir athæfið en svo er ekki. Hann lofar gerðir ráðsmannsins og tekur hann í sátt.

Áherslan er á meðhöndlun fjármuna. Þessi sama áhersla kemur fyrir á mörgum stöðum í ferðabálknum. Þeir sem fara vel með fjármuni eru: Miskunnsami Samverjinn sem borgar sjálfur fyrir umönnun slasaða mannsins, Sakkeus sem gefur helming eigna sinna fátækum og borgar ferfalt til baka það sem hann hafði haft ólöglega af fólki og þjónarnir í dæmisögunni um pundið sem ávaxta það í fjarvist húsbónda síns.

Þeir sem fara illa með fjármuni eru: ríkibóndinn sem ætlaði að byggja stærri hlöðu undur auðævi sín til að seðja sál sína, glataði sonurinn sem eyðir arfi sínum, sagt er frá því að farísearnir séu fégjarnir, ríki maðurinn vildi ekki gefa Lasarusi neitt, auðugi höfðinginn vildi ekki selja eigur sínar, gefa fátækum og fylgja Kristi og í dæmisögunni um pundin ávaxtar einn þjónanna ekki pundið og missti það fyrir vikið.

Þeir sem fara vel með fjármuni eru fórnfúsir og gjafmildir, réttlátir og traustsins verðugir. Þeir sem fara illa með fjármunina eru efnishyggjumenn, fégjarnir, nískir og ekki traustsins verðugir. Áherslan er semsagt á að nota fjármuni rétt.

Hnökrarnir sögunnar hafa valdið mörgum vangaveltum og jafnvel áhyggjum. Hvernig er hægt að hrósa rangláta ráðsmanninum fyrir það að koma sér í mjúkinn hjá skuldunautunum á kostnað húsbóndans? Hverskonar húsbóndi er það sem gleðst yfir því að ráðsmaður hans, sem var rekinn fyrir eyðslusemi, gerist enn meiri eyðsluseggur og gefur upp skuldir hans? Kristur er alltaf að hvetja fólki til að vera traustsins vert í fjarmálum og að eyða þeim á hina minni máttar. Ráðsmaðurinn gerir hvorugt!

Samtímaheimildir um félagslegar aðstæður
Oft er nauðsynlegt að setja sig inn í sögulegar aðstæður til að skilja betur gamlar sögur sem þessa. Við skulum fyrst líta á ríka húsbóndann. Ríkir húsbændur kúguðu bændur í Galíleu á þessum tíma og voru því ekki vel liðnir. Húsbóndinn gæti hafa verið landeigandi sem leigði út jarðir sínar til smábænda og lifði góðu lífi af gróðanum. Ráðsmaðurinn sá um fjármál húsbóndans og var algerlega undir náð og miskunn húsbónda síns kominn. Bent hefur verið á að ráðsmaðurinn fékk laun sín með því að smyrja á skuld húsbónda síns. Því hafa sumir vilja skilja dæmisöguna svo að ráðsmaðurinn hafi í raun aðeins verið að gefa upp gróða sinn er hann gaf skuldunautunum helmings afslátt. Í fyrsta lagi er frekar vafasamt að ráðsmaðurinn hafi fengið svo háa prósentu og í öðru lagi er ráðsmaðurinn ekki kallaður ranglátur fyrr en eftir að hann gaf upp hluta skuldanna. Því er þetta hæpin skíring.

Utan dæmisögunnar koma fyrir nokkrar persónur, sem skipta máli til að skilja söguna. Fyrst ber að nefna tollheimtumenn, en þeir unnu fyrir Rómverska ríkið og voru því ekki vinsæll lýður. Þeir voru þekktir fyrir það að maka krókinn á innheimtunni. Tollheimtumennirnir voru því úrhrak samfélagsins í augum trúrækinna gyðinga og er engin tilviljun að þeir eru nefndir saman með bersyndugum, rétt eins og um hugsanarím væri að ræða.

Þeir sem gagnrýndu hina bersyndugu og tollheimtumennina hvað mest voru farísearnir og fræðimennirnir. Farísear voru aðalflokkurinn á meðal Gyðinga og lögðu þeir gífulega áherslu á lögmálshlýðni. Guðs forsjálni var komin undir því að fara í einu og öllu eftir lögmálinu. Þessu fylgdi hörð gagnrýni á alla þá sem ekki gerðu eins. Fræðimenn voru ekki flokkur heldur samtök manna sem lærðu og kenndu lögmálið. Meirihluti þeirra voru farísear. Báðir þessir hópar litu á sig sem hátt upphafna og Guði þóknanlega menn og töldu velmegun vera tákn um kærleika og velþóknun Guðs. Þessi skilningur þeirra á tengslum hjálpræðis og velmegunar skiptir miklu máli til að skilja orðræðuna sem kemur á eftir dæmisögunni.

Merking sögunnar
En hvað merkir þá þessi dæmisaga og orðræðan sem á eftir kemur. Eins og við höfum séð var ráðsmaðurinn að tryggja framtíð sína með því að gefa upp skuldir húsbónda síns. Húsbóndinn hrósar síðan ráðsmanninum, ekki fyrir að hafa sóað auð sínum heldur, fyrir að hafa tryggt afkomu sína í framtíðinni. Vers 8b útskýrir síðan dæmisöguna. Rétt eins og börn þessa heims eru kæn í að tryggja veraldlega framtíð sína eiga börn ljóssins að vera kæn í að tryggja sér framtíð sína á himnum.

En hvernig eiga börn ljóssins að fara að því? Svarið kemur strax á eftir. Það hljómar kannski sem mótsögn að í 9. versi er hvatt til þess að afla sér vina með hinum rangláta mammón en í 13. versi er tekið fram að ekki sé hægt að þjóna Guði og mammón samtímis. Við nánari athugun kemur í ljós að hér er engin mótsögn á ferð. Mammón stendur fyrir efnislegan auð, ekki eitthvað sem er illa fengið og þegar við erum hvött til að afla okkur vina með mammón er verið að hvetja okkur til að þjóna Guði með því að fara rétt með fjármuni okkar. Þ.e.a.s nota fjármuni okkar til að tilbiðja Guð, en ekki Guð til að tilbiðja Mammón. Með því að gefa ölmusur og hjálpa hinum snauða erum við að þjóna Guði, tjá ást okkar á honum og náunga okkar, og á sama tíma að tryggja framtíð okkar á himnum. Þannig látum við af mammóntilbeðslu og byrjum að þjóna Guði og öðlumst við það inngöngu í Guðs ríki. Rétt meðferð á fjármunum er því forsenda hjálpræðis því ,,sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu“, sem og öfugt (16:10).

Jesús er að ávarpa faríseana og fræðimennina en, eins og áður sagði, trúðu þeir því að velmegun væri tákn um velsæmd Guðs. Aftur snýr Jesús öllu við, rétt eins og hann gerði í dæmisögunni um Lasarus og ríka manninn þar sem hinn fátæki, óhreini Lasarus fær góða hlutskiptið í næsta lífi en níski, ríki maðurinn kvelst í hel. Ríki maðurinn er tákn um misnotkun auðs, því hann gaf ekki með sér. Hjálpræði næst ekki með því að safna fjármunum á jörðu heldur með því að nýta þá á jörðu til að safna þeim á himnum.

Áherslan á að deila eigum sínum með öðrum var mikil á tímum frumkristninnar og er Postulasagan, Didake og Ignatiusarbréf góð dæmi um það. Höfundur Guðspjallsins er að hvetja lesendur (rétt eins og Páll er hann safnaði saman aurum handa trúbræðrunum í Jerúsalem) til að fara að ráðum Krists og þjóna Guði með Mammón.

Þetta er líklega ein af erfiðustu dæmisögum Jesú og mætti kannski frekar kalla hana gátu en dæmisögu. Það er nauðsynlegt að kynna sér sögulegan bakgrunn sögunnar og sjá hana í samhengi við guðspjallið í heild til þess að skilja hana, þá sér í lagi í ljósi ferðabálksins sem fjallar mikið um rétta meðferð fjármuna.

url: http://thorkell.annall.is/2004-05-05/20.33.22/

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli