þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Stir of Echoes (David Koepp: 1999) – 23. mars 2005 · Heim · Könnun: Hvað áttu við þegar þú segir Hollywoodmyndir? »

The Asphalt Jungle (John Huston: 1950) – 25. mars

Þorkell @ 23.26 25/3/05

Það var nú kominn tími á að ég horfði á The Asphalt Jungle. Það er varla að maður þorði að viðurkenna að maður hafði ekki séð hana. Föstudagurinn langi er líklega tilvalinn til að horfa á film noir mynd.

Ég verð þó að segja að myndin var ekki eins stórkostleg og ég átti von á. Vissulega mjög góð mynd en alls ekki fullkomin. Fyrir það fyrsta hefur sumt elst illa. Þetta á sérstaklega við handritið. Samtölin eru stundum ferlega kjánaleg. Þá skín óttinn við Hays lögin í gegn og er löng einræða um að “þótt ein lögga hafi verið spillt þá séu löggur almennt góðar” frekar vandræðaleg. Þetta var augljóslega sett inn til að afsaka bortin á lögunum.

En eins og allar film noir myndir þá fjallar þessi um það að glæpir borga sig ekki. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort Hollywood sé í raun og veru ekki bara byggt á Sálmi eitt. Flestar leggja áherslu á hinn góða mann og hvernig honum vegnar vel en sumar myndir (eins og film noir) fjalla um þá sem fara villur vegar og hvernig þeirra líf endar í vegleysu. Svo eru einnig margar myndir með báða hópana, gott og vont fólk og fær þá vonda fólkið oftast makleg málagjöld á meðan hinum góðu vegnar vel.

Þegar fólk talar um Hollywood myndir þá held ég að það eigi fyrst og fremst um þetta, boðskap fyrsta sálms. Hvað heldur þú ÁSD?

url: http://thorkell.annall.is/2005-03-25/23.26.41/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 26/3/2005 16.12

Ég veit ekki alveg hvort ég myndi orða þetta svona, en held að hugsunin sé rétt – boðskapur þessara mynd er oft í megindráttum í samhljóm við boðskap sálmsins (án hins trúarlega inntaks auðvitað).

Þorkell @ 26/3/2005 16.31

Auðvitað er þetta djarft orðað en ef þú biðir fólk að útskýra hvað það ætti við þegar það talaði (oft niðrandi) um Hollywood myndir þá held ég að þetta kæmi oft upp. Heyrðu annars, könnum bara málið. Ég geri könnun á annálnum mínum. :-)

Árni Svanur @ 26/3/2005 16.32

Líst vel á könnun, hlakka til að fylgjast með.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli