þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Sin City (Frank Miller, Robert Rodriguez og Quentin Tarantino: 2005) – 4. apríl 2005 · Heim · Kvikmyndaleiðsögn Vatikansins »

Trúfælni / Faith-Phobia

Þorkell @ 15.30 5/4/05

Ég vil kynna nýtt hugtak til sögunnar. Trúfælni eða Faith-Phobia á ensku.

Hugtakið á við fólk sem finnst sér ógnað í návist trúaðra eða að það sem þeir standi fyrir sé á einhvern hátt óæðra. Við getum tekið hommafælni sem hliðstæðu. Sumum finnst óþægilegt að hafa homma nálægt sér, sérstaklega ef þeir láta kynhneigð sína í ljós. Því heyrir maður oft setningar á borð við: “Ég er ekkert á móti hommum svo lengi sem þeir haga sér eins og annað fólk og eru ekki að flíka eðli sínu.” Þeir sem eru haldnir hommafælni vilja helst ekki ráða homma í vinnu, hafa þá sem nágranna sína og gætu t.d. ekki séð mynd þar sem ástarleikir karla kæmu fram (og þá er ég ekki að tala um bláa mynd).

Svipað á við um þá sem eru haldna trúfælni. Trúarlíf annarra fara í taugarnar á þeim og þeim er illa við að lesa bækur eða horfa á myndir trúaðra einstaklinga. Ég sá nýlega dæmi þess á IMDb þar sem einstaklingur tjáði sig um táknfræðihugleiðingar mínar. Þar segir hann t.d.: “I don’t know if I can reconcile myself with the fact that he was a practicing/believing Christian (it would be the same for any other religion, for that matter).”

Í mínum huga er þessi maður haldinn trúarfælni og á það reyndar líka við um marga gesti Annáls í gegnum tíðina (án þess að ég nefni nein nöfn). Síðan mætti einnig segja að trúaðir sem hafa svipaðar tilfinningar til annarra trúarbragða séu einnig haldnir vissri tegund af trúfælni. Munurinn er bara sá að í staðin fyrir að finnast öll trúarbrögð ógna sér (í þröngri merkingu þess orðs) þá eru það öll önnur trúarbrögð en viðkomandi.

Getur verið að trúfælni séu þeir fordómar sem við þurfum að fara að takast á við af meiri krafti en hingað til. Eitthvað segir mér að samsvarandi skrifum og vísað er í hér að ofan eigi eftir að fjölga.

url: http://thorkell.annall.is/2005-04-05/15.30.02/

Athugasemdir

Fjöldi 9, nýjasta neðst

Binni @ 5/4/2005 16.00

Þetta er athyglisvert. Ég get umsvifalaust játað trúarfælni í eigin fari. Einkum beinist þetta að bókstafshyggju hvers konar, sem ég tel raunar skaðlega.

musi @ 5/4/2005 17.00

Ég myndi ekki þjást af trúfælni ef það væri ekki fyrir trúaða einstaklinga troðandi sínum lífskoðunum upp á mig og virðandi ekki það trúfrelsi sem á að ríkja á Íslandi.

Þorkell @ 5/4/2005 17.10

Þetta er nú svona svipað og þegar fólk segir: Ég er ekki haldinn hommafælni, svo fremur sem þeir reyna ekki við mig. Ég heyri aldrei gifta menn segja þetta um konur. “Mér er sama um aðrar konur svo fremur sem þær reyna ekki við mig”. :etta eru bara duldir fordómar. Þegar trúaðir eru að boða trú sína gera þeir það af miklum kærleik og ást. Þeir trúa því að þeir séu að gera góða hluti og vilja fólki sem þeir hitta vel. Það eina sem maður þarf að gera er að segjast ekki hafa áhuga. Sama og við hommana :-)

Anna G @ 5/4/2005 17.16

Sem betur fer virðist ég hafa sloppið við slíka fordóma allavega að mestu. Mér finnst kynhneigð og trúarlíf fólks í lagi svo lengi sem fólk er ekki að valda öðrum skaða. Barnaníðingar t.d. valda öðrum skaða en fólk sem háttar hjá öðrum með samþykki þess er ekki að gera neinum neitt.

musi @ 5/4/2005 17.43

Þegar trúaðir eru að boða trú sína gera þeir það af miklum kærleik og ást.

Hef ekki séð mikið af þessum kærleika og ást hjá biskupnum þegar hann alhæfir um trúlausa – topp hræsnari!

Annars myndi ég segja frekar að trúfælni væri meðvituð ásókn í visku og fróðleik. Þess vegna má segja að ég fælist trúnna.

Þorkell @ 5/4/2005 17.49

Nei, Musi.
Það er til helling af “trúlausu” fólki sem finnst trú annarra ekkert ógna sér og líður bara vel í nærveru trúaðra. Því myndi ég ekki setja samasemmerki á milli trúfælni og “trúleysis”. Það þarf alls ekki að fara saman.

Svavar Knútur @ 5/4/2005 19.56

Ég held að þú hittir þarna naglann á höfuðið Þorkell. Þetta er áhugaverð kenning og sérstaklega get ég tekið undir þetta með að ekki sé samasemmerki milli trúfælni og trúleysis. Ég er t.d. frekar agnostískur náungi að eðlisfari, en ég fagna þeim sem trúa af hógværð og innileika og án heiftar og hroka.
Ég vildi samt óska þess að biskupinn gæti einmitt tjáð sig á hófsamari hátt um trúlausa og frekar reynt að draga fram jákvæðar hliðar trúarinnar en að níða niður samfélagshóp.

Hugrún @ 5/4/2005 21.05

Eins og talað úr mínu hjarta Keli (og ekki í fyrsta skiptið)!! Þetta er akkúrat nokkuð sem ég hef verið að hugsa mikið um upp á síðkastið. Ég hef verið að gera tilraunir á þessu eins og t.d. það sem ég skrifaði um Guð á bloggið mitt…þú varst sá eini sem þorðir að kommenta…!!! Svo hef ég líka tekið eftir ákveðinni tegund af þögn þegar maður fer að tala um trú, þ.e.a.s. ef það kemur upp að maður sjálfur sé trúaður, en ekki að ræða um trú almennt séð. Það er eins og allir haldi að maður fari að tala tungum og hristast bara af því maður er trúaður.

P.S. Sendi bókina af stað til þín á morgun Keli minn, þú verður að lesa hana og segja mér um hvað hún er, ég fæ mig ekki til að lesa hana sjálf, einhverra hluta vegna.

Anna Jóns @ 10/4/2005 22.40

Er ekki rót þessa eins og margs annars ótti. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvers kyns ótti en mér finnst það oft vera raunin þegar fólk verður mjög heiftúðugt. Ég hef líka fundið fyrir því að fólk getur orðið óöruggt þegar kemur í ljós að ég er trúuð. Það er eins og það viti ekki hvar það hefur mig…? Ég held að það sé vegna þekkingaskorts á trúarlífi og trú yfirleitt.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli