þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Nýjar kvikmyndagátur · Heim · Fréttir frá Noregi – Minnisleysi, vani og heimsfrægð. »

Ást – Kvikmyndahandrit sem ég er að vinna að

Þorkell @ 17.33 28/6/05

Hér er stutt kvikmyndahandrit sem ég er að vinna að. Ætla að reyna að kvikmynda það í sumar. Allar ábendingar vel þegnar.

Ást

Maður situr við glugga og horfir út. Hann kemur auga á konu ganga upp götuna og fylgist með henni, augljóslega nokkuð hrifinn. Þegar hún lítur hins vegar upp og sér hann fylgjast með sér lítur hann undan og þykist vera að gera eitthvað allt annað. Hún heldur áfram en snýr svo við þegar hún er komin í hvarf og gengur aftur upp götuna til að athuga hvort hann fylgist með sér. Hann fylgist með henni bak við tölvuna en reynir að gæta þess að hún taki ekki eftir því. Hún hefur augljóslega gaman að þessu og vinkar honum. Hann veit ekki hvað hann skal gera en ákveður að lokum að standa upp og vinka á móti. Hún gengur fram hjá en snýr svo aftur við þegar hún er komin í hvarf. Í þetta skiptið reynir hann ekki að fela sig og þau borsa til hvors annars. Stúlkan gengur þá að húsi hans og ber að dyrum. Hann veit ekki hvað hann skal gera. Hún bankar aftur og enn situr hann ráðvilltur kyrr. Það er ekki fyrr en hún bankar í þriðja sinn sem hann rís upp og svarar.

Björn: Hæ.

Eva: Ég er Eva! Hvað heitir þú?

Björn. Björn.

Eva: Má ég koma inn?

Björn: Ha?

Eva: Má ég koma inn til þín?

Björn: Ég veit ekki. Getum við ekki bara setið úti hérna?

Eva: Hvað ertu eitthvað hræddur við mig?

Björn: Nei, nei. Það er ekki það sko. Það er bara svo gott veður úti og ég er búinn að vera inni í allan dag.

Eva: Þú hefur þá ekkert á móti því að bjóða mér inn?

Björn: Nei, auðvitað ekki. Ég þarf bara ferskt loft.

Hann sest og hún líka. Þau þegja í smá sund og segja ekkert. Þögnin er vandræðaleg.

Eva: Ég hélt kannski að þú hefðir engan áhuga á að bjóða mér inn. Ég get alveg farið ef þú vilt það.

Hún stendur upp og býst til fara.

Björn: Nei, ekki láta svona. Getum við ekki bara setið hérna í smá stund og spjallað? Ég ætlaði ekki að særa þig. Ég bara… Æi… Hvernig á ég að orða þetta? Mér finnst bara óþægilegt að bjóða fólki inn sem ég þekki ekki. Þú veist hvernig fólk er. Það er svo fljótt að dæma.

Eva: Hvað meinarðu?

Björn: Æ, gleymdu því. Ertu þú héðan?

Eva: Já og nei. Ég var fædd hérna en fjölskyldan flutti burt þegar ég var sex ára. Ég flutti hingað aftur fyrir mánuði síðan. Veistu, það er svo ótrúlegt hvað allt er lítið þegar maður kemur aftur. Í minningunni var allt stærra. Núna líður mér eins og Gúlliver í Puttalandi, eða eitthvað. Þetta er alveg fáranleg tilfinning. En þú, ert þú héðan?

Björn: Já, fæddist meira að segja í þessu húsi. Mér lá víst svo mikið á að pabbi náði varla að sækja bíllyklana áður en ég kom í heiminn. Hvað gerir þú?

Eva: Ég vinn í bókasafninu. Ég er reyndar nuddari en ég nenni ekki að vinna við það lengur. Ég hélt að þetta væri voða gefandi starf en svo er þetta í raun bara færibandavinna. Svo eru það allir perrarnir sem koma í von um að maður nuddi þá á ákveðnum stöðum. Gjörsamlega óþolandi! Frænka mín er bókasafnsvörður hér svo hún reddaði mér vinnu. Höfum við kannski hist á bókasafninu?

Björn. Nei, það held ég ekki. Ég fer nánast aldrei þangað.

Eva: Nú, af hverju ekki? Hefurðu ekki gaman að því að lesa?

Björn: Jú, jú. Ég kaupi bara vanalega þær bækur sem ég les.

Eva: Ertu svona ríkur?

Björn: Nei, það er ekki það. Mér finnst bara ekki… Nei, æi… það er svo kjánalegt.

Eva: Nei, segðu mér!

Björn: Æi, mér finnst bara eins og maður bindist bókum tilfinningaböndum eftir að hafa lesið þær. Þær verða eins og vinir manns. Maður skilar ekki vinum sínum. (Hann brosir vandræðanlega)

Eva: (Hlær). Ég hef aldrei pælt í þessu svona.

Björn: Svo finnst mér kvikmyndir líka skemmtilegri. Horfi mest á kvikmyndir.

Eva: Kaupirðu þær kannski líka?

Björn: Já, reyndar (frekar feiminn).

Eva: Áttu kannski margar myndir?

Björn: Nei, svo sem ekki. Svona tvöþúsund.

Eva: Tvöþúsund? Ertu ekki að grínast?

Björn: Nei.

Eva: Þú ert ríkur!

Björn: Nei, alls ekki. Ég eyði líklega jafn mikið af peningum í DVD kaup og reykingafólk í sígarettur.

Eva: Já, sígarettur eru fáranlega dýrar.

Vandræðanleg þögn. Hvorugt þeirra veit hvað það á að segja næst.

Eva: Má ég koma inn núna?

Björn: (Hikandi) Já, já.

Þau ganga inn.

Björn: Viltu kaffi?

Eva: Áttu Cappetíno?

Björn: Nei, en ég á svona kaffi og súkkulaðiblöndu.

Eva: Mmm. Það hljómar spennandi.

Hún sest niður og hann hitar vant og sækir bolla og kexkökur.

Eva. Áttu húsið?

Björn: Nei mamma á það. Reyndar býr hún ekki hér lengur. Hún er með alsheimers.

Eva: Veistu, ég vona að ég fái alsheimers þegar ég verð gömul.

Björn: Ekki segja svona. Þú veist ekki hvað þú ert að tala um.

Eva: Ég meina það. Ef ég verð svona ósjálfbjarga gamalmenni sem þarf að ganga með bleyju og láta ókunnuga skipta á mér vil ég sem minnst vita í þennan heim. Í alvöru. Hvað er svona slæmt við það að gleyma öllu nema bernskunni? Verða barn alveg upp á nýtt og vita ekki einu sinni að maður er að deyja? Í mínum augum er það betra en að deyja í svefni. Þeir sem deyja í svefni eru oftast komnir með bleyju áður.

Björn: (Kíminn) En er það ekki einmitt hluti af því að verða barn aftur? Að vera með bleyju sko.

Eva: Æi, þú veist hvað ég meina. Það er eitthvað svo ógeðslegt við það að láta einhvern ungling í sumarafleysingum skipta á manni, smjattandi á tyggigúmmí og talandi niður til manns, rétt eins og maður sé einhver óviti. Hefurðu aldrei pælt í því?

Björn: Jú, hafa ekki allir gert það?

Eva: Hvernig myndir horfir þú á?

Björn: Aðallega drama. Eiginlega allt nema rómantískar myndir.

Eva: Nú? Ertu svona órómantískur?

Björn: Nei, ég held ekki.

Eva: Hvers vegna er þér þá svona illa við rómantískar myndir?

Björn: Mér finnst þær bara ekki segja sannleikann um ástina. Mér finnst ástin ekki fallegt ævintýr. Mér finnst hún vera grimm og jaðra við geðveiki.

Eva: Ástin er ekkert grimm eða geðveik.

Björn: Víst. Fólk hagar sér eins og rándýr þegar það er ástfangið, situr um þann sem það elskar og telur sér í trú um að það geti ekki lifað án viðkomandi persónu. Það er ekkert fallegt við þetta. Fólk tætir hvort annað í sig, þrátt fyrir að þekkja hvort annað afskaplega lítið og skilur svo hvort annað eftir í sárum. Ég sá góða mynd um þetta efni. Hún heitir Crash og er eftir David Cronenberg. Það líkir hann samböndum fólks við það að lenda í bílslysi. Ég er hjartanlega sammála honum. Bílslys eru ekki rómantísk og þau eru stórhættuleg.

Eva: Þú ert að grínast!

Björn: Nei, alls ekki. Ástin er líklega misskildasta fyrirbæri samtímans. Reyndar held ég að fólk sé bara í eilífri leit að sjálfu sér. Hvað er t.d. það fyrsta sem fólk segir frá þegar það verður ástfangið? Það telur upp allt það sem viðkomandi á sameiginlegt með því sjálfu. Það elskar það fyrir að líkjast sér. Svo þegar fólk kemst að því að viðkomandi er ekki í einu og öllu eins og það sjálft telur það ástina vera horfna úr sambandinu.

Vandræðanleg þögn.

Eva: Hvað er uppáhalds myndin þín.

Björn: Dead Ringers. Eftir Cronenberg. Hefurðu séð hana?

Eva: Nei. Um hvað er hún?

Björn: Tvíbura sem greina ekki í sundur eigið sjálf. Eru í raun ekki sjálfstæðar persónur.

Eva: (Kýmin) Hin fullkomna ást! (Brosir)

Björn. Já ætli það ekki. (Brosir líka)

Eva: Má ég fá myndina lánaða?

Björn: (Vandræðanlegur) Það væri svo sem í lagi en DVD forritið mitt í tölvunni er bilað svo ég get ekki skráð myndina. Ég lána sko ekki nema ég skrái það þaður í forritið, skilurðu. Það er svo oft sem ég þarf á mynd að halda og þá man ég ekkert hvar hún er.

Eva: Geturðu ekki skifað það á miða?

Björn: Nei, ég týni þeim alltaf. Ég skal lána þér hana síðar.

Eva: (daðrandi) Hvað veist þú um það hvort ég komi aftur í heimsókn? (brosir)

Björn: Nú ætlaðir þú ekki að skila myndinni?

Eva: Jú, auðvitað.

Vandræðanleg þögn.

Eva: Hvar er klósettið?

Björn. Fyrsta hurðin til vinstri þegar þú gengur inn ganginn.

Eva fer á klósettið en skoðar sig um í íbúðinni áður en hún fer inn í stofu. Hún fer inn í svefnherbergi. Lítur á myndir á náttborðinu af móður Björns og fl. Hún gengur svo að skápnum og opnar eina hurðina þar og sér þá furðulega hluti. Sumt af því lítur út eins og grænmeti, nema að er um einn metri á lengd og líkist ekki neinu sem maður finnur vanalega í matvörubúðum. Annað er eins og einhver tól en ekkert líkt því sem hún hefur nokkurn tíman séð. Tólin hafa furðulegar línur, nánast lífrænar og eru hálf óhugnanleg í útliti. Hún skoðar í fleiri skápa og sér að svona hlutir eru alls staðar. Einnig í skúffunum. Hlutirnir sjást rétt svo í nokkrar sek. þannig að áhorfandinn áttar sig ekki á því hvað hann sér.

Í þessu kemur Björn inn og horfir vandræðalegur á hana.

Eva: (hissa og með smá óhugnað í röddinni) Hvað er þetta eiginlega?

Björn skellir aftur hurðinni og stendur fyrir skápnum.

Eva: Hvað var þetta?

Björn: (Eins og sonur sem skammast sín) Eitthvað sem þér kemur ekki við. Hvað varstu að skoða í skápana mína?

Eva: Þú bauðst mér inn.

Björn: Já, en ekki til að róta í skápunum mínum.

Eva: Hvað varstu þá að horfa á mig?

Björn: Má maður ekki horfa á fólk án þess að bjóða því inn til sín róta í skápunum?

Eva: Ekki á þann máta sem þú gerðir.

Hún horfir á hann hissa og reið og rýkur svo á dyr.

Björn sest aftur við sama gluggann (með bakið til móts við hann). Hann lítur sorgbitinn út og sötrar á kaffinu.

url: http://thorkell.annall.is/2005-06-28/17.33.39/

Athugasemdir

Fjöldi 18, nýjasta neðst

Anna @ 29/6/2005 16.13

Athyglisvert;) Fær maður einhverjar nánari upplýsingar um innihald skápsins?

Þorkell @ 29/6/2005 16.55

Nei, enda ekki þörf á því :-)

Hugrún @ 29/6/2005 18.36

Margir athyglisverðir punktar! :) Ég var orðin svo spennt að ég var hálfsvekkt þegar sagan endaði. Þú verður eiginlega að halda áfram með söguna held ég ;) …mér finnst hún oggolítið snubbótt.

Sigga @ 30/6/2005 10.18

Fínasta byrjun, getum við fengið meira að heyra… eða réttara sagt lesa :)

Þorkell @ 30/6/2005 13.41

Byrjun? Ég ætlaði bara að enda hana svona. Fannst ég ekki þurfa að segja meira :-/

Sigga @ 30/6/2005 14.30

Enda “þarftu” þess ekkert. Þetta stendur alveg svona. Ég var bara forvitin að vita aðeins meira um fólkið… sem hlýtur bara að vera gott :) Auk þess misskildi ég fyrstu setninguna… “sem ég er að vinna að”… misskildi það sem byrjun. Þess vegna var fast í hausnum á mér að ég fengi framhald :) Spurning hvort þú gerir ekki bara trílógíu… þetta verður fyrsta myndin :)

Þorkell @ 30/6/2005 15.20

Reyndar hef ég einmitt verið að pæla í því að gera þríleik. :-)

Annars móðgaðist ég ekki varðandi komment þín. Það má nefnilega vel vera að endirinn sé of snubbóttur. Endirinn er ástæðan fyrir því að ég skrifaði handritið en ég vil passa mig á því að segja ekki of mikið þannig að ég taki ekki of mikið frá áhorfandanum. Ætli maður þyrfti ekki að hafa langar þagnir á milli í lokaatriðinu (spila með augnaráð) og kvikmynda það þannig að það virki ekki eins og það hafi komið auglýsingahlé :-)

Árni Svanur @ 1/7/2005 15.46

Eða hafa auglýsingahlé og birta auglýsingar sem gætu virkað sem túlkunarlyklar (kústar, hreinlætistæki, hjarir, sólgleraugu) að myndinni. Annars finnst mér þetta spennandi. Skáp-líkingin er góð held ég og persónurnar áhugaverðar. Segi það sama og Sigga, held þetta gæti orðið áhugavert sem þrjár stuttmyndir.

Gunný @ 3/7/2005 23.27

Spjall Björns um ástina minnti mig verulega á spjall Gyðingsins í myndinni Crimes and Misdimeanour eftir Dave Allen. Ekki leiðum að líkjast! :-)

Söguþráðurinn er grípandi og mér finnst snubbóttur endir flottur. Er það ekki líka fræg setning úr einni kvikmyndinni um draum leikstjórans sem þráir það heitast að allir spyrji eftir að leiknum líkur: Hvað gerðist??? Mig minnir það hafi verið í Tootsie. Þér tekst það sum sé…að mínu hógværa áliti.

Þorkell @ 4/7/2005 09.07

Þakka þér kærlega fyrir Gunný. Eins og þú veist met ég þitt hógværa álit ávalt mikils.

Gunný @ 5/7/2005 21.34

Takk elskan. Ég læt það fylgja með að myndin sú eftir Allen heillaði mig aljgörlega. Sum sé ég held þú hafir touchið…..en kýs að kalla það hógvært hikst.

gaj @ 12/7/2005 17.42

Stundum verða vinir að tala eða skrifa ‘klartext’ og sleppa öllu kurteisishjali. Þetta lofar alls ekki góðu að mínu hrokafulla mati. Það er ekkert í þessu sem höfðar til mín, ekkert: Falleinkunn! Gerðu nýja tilraun. Hentu þessari!

Sveinbjörn Kristinn @ 15/7/2005 08.14

Ágætt sem smásaga, finnst ekki margt myndrænt í 80% textans, svo myndi ég láta manninn bara snúa baki við glugganum – ekk horfa aftur út.

Bjarni @ 15/7/2005 10.23

Ég skil athugasemd Gunnlaugs svo að þú þurfir nauðsynlega að ræða grænar grundir, nazisma og gyðingdóm í þessari smásögu.

Gummi @ 18/9/2005 19.25

Þræl flott hjá þér að mínu mati. Í einfeldni minni skil ég söguna einhvern veginn á þessa leið.

Tvær ólíkar persónur kynnast á skemmtilegan hátt. Persóna A opin og ákveðin, full forvitin og alltaf því frek, án þess þó að ætla það. Persóna B feiminn, óframfærinn og ekki tilbúinn að gefa af sér strax, en gæti þó gert það með tímanum.
Persóna B ákveður að treysta persónu A, hún bregst hans trausti og því verður niðurstaðan auðvitað þessi. Mér finnst það þurfi ekki að bæta neinu við þessa mynd, í mínum huga er hún augljós, en ég er líka viss um að einhver annar skilur hana öðruvísi, eða ég vona það, því þá fyrst er hún góð.
Kær kveðja allra og haltu endilega áfram að skrifa.Gummi.

Þorkell @ 18/9/2005 19.37

Þakka þér kærlega fyrir hrósið Gummi. Já, ég skil söguna eins og þú. Hún hefur þó breyst smá frá þessum drögum. Nú styttist í tökur svo ég vona að ég geti sýnt ykkur myndina sem fyrst.

ennginn @ 25/1/2006 21.01

mér fanst þetta órómantískasta ástar saga sem ég hef heyrt(lesið) hún var ekkert um ást bara bull bara að láta þig vita en hún hefði verið betri lengri byrjunin sökkaði feit1!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Þorkell @ 25/1/2006 21.18

Ég hef þann vana og reglu að eyða færslum sem eru nafnlausar en þar sem “ennginn” er svo málefnaleg(ur) hef ég ákveðið að láta þetta standa. Auðvita verða allar sögur um ást að vera rómantískar! :-)

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli