þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« DVD safnið mitt · Heim · Þægindamenningin – Þjóðarsál Norðmanna afhjúpuð »

Heim

Þorkell @ 23.04 21/8/05

Hér eru smá handritsdrög að stuttmynd. Njótið.

Tíu ára stúlka kyssir móðir sína bless áður en hún leggur af stað í skólann með skólatösku á bakinu. Hún valhoppar niður götuna og veifar til skólafélaga sinna sem keyra fram hjá í bíl. Hún stoppar og horfir skælbrosandi í sólina.

Klippt á bjart ljós sólarinnar og svo beint í myrkur. Unga stúlkan vaknar í rúmi sem hún kannast ekkert við. Hún kveikir á náttlampanum og sér að hún er inn á stofnun. Líklega sjúkrahúsi. Hún er gripin angist, fer fram úr rúminu, opnar hurðina, gengur fram á gang og kallar á hjálp. Á móti henni kemur maður á þrítugs aldri:

Brynjar: Sæl Elsa mín. Hvert ætlar þú að fara?

Elsa: Heim til mömmu.

Brynjar: Þú ferð nú ekki að fara út um miðja nótt. Klukkan er bara 3.

Elsa: Já en mamma veit ekki hvar ég er. Ég verð að fara heim til hennar. Hún bíður eftir mér.

Brynjar: Kæra Elsa mín. Þú veist ósköp vel að móðir þín er látin.

Unga stelpan horfir undrandi á manninn: Mamma er ekki dáin. Hún bíður eftir mér heima.

Brynjar: Móðir þín er víst látin elsku.

Elsa: Ég trúi þér ekki. Hvar er síminn?

Brynjar: Hvað ætlar þú að gera við símann?

Elsa: Hringja í mömmu.

Brynjar: Ekki um miðja nótt. Maður hringir ekki í fólk kl. 3 um nætur.

Elsa er komin með tár í augun: Já en ég vil heim. Mamma bíður eftir mér. Hún er hrædd um mig.

Brynjar: En þú býrð hér. Þú hefur búið hér í meira en eitt ár.

Elsa: Ég bý ekkert hér. Ég bý heima hjá mömmu og pabba.

Brynjar: Manstu ekkert eftir mér Elsa mín?

Elsa: Nei.

Brynjar: Ég hef nú samt oft talað við þig. Ég heiti Brynjar og vinn hér á næturnar.

Elsa: Það er ekki rétt. Ég hef aldrei séð þig.

Elsa strunsar af stað en Brynjar eltir hana og spyr: Hvert ertu að fara Elsa mín?

Elsa: Láttu mig í friði. Ég ætla heim.

Brynjar: En þú getur ekki farið heim núna.

Elsa: Víst! Af hverju ertu svona vondur við mig. Mamma er hrædd. Hún bíður eftir mér. Þú hefur engan rétt til þess að loka mig inni.

Brynjar: Viltu ekki bara leggja þig og svo getur þú hringt á morgun.

Elsa: Hvers vegna er ég á sjúkrahúsi? Datt ég?

Brynjar: Nei, þú dast ekki. Þú ert hér vegna þess að þú ert gömul kona og átt erfitt með að muna.

Elsa: (með grátstafina í kverkunum): Ég er ekki gömul kona. Hvers vegna segir þú svona lagað við mig? Hvers vegna ertu svona vondur við mig? Ég vil fá að fara til mömmu. Af hverju má ég ekki fara til mömmu?

Brynjar: Hvað ertu gömul Elsa mín?

Elsa: Tíu ára..

Brynjar. Þú ert áttræð ára Elsa. Áttatíu ára ekkja og langamma.

Elsa: Hvernig get ég verið áttatíu ára þegar ég er enn í skóla?

Brynjar: Bíddu aðeins. Ég ætla að sækja spegil svo þú sjáir hve gömul þú ert.

Elsa: Ég þarf engan spegil. Heldurðu að ég sé einhver fáviti? Ég veit ósköp vel hve gömul ég er. Hvers vegna kvelur þú mig svona?

Brynjar: Bíddu bara í smá stund.

Brynjar hleypur í burtu og kemur að vörmu spori með ljósmynd af gamalli konu og sýnir Elsu.

Brynjar: Sjáðu bara. Líttu í spegilinn. Þetta er ekki ung stúlka í speglinum heldur eldri dama.

Elsa: Þetta er ekki spegill. Þetta er mynd af einhverri gamalli konu!

Brynjar: Víst er þetta spegilmynd af þér.

Elsa: Heldurðu að ég sjái ekki að þetta er ljósmynd?

Unga stúlkan brýst í grát og segir svo á milli ekkana: Hvers vegna lætur þú svona? Hvar er mamma mín? Ég vil fara til mömmu.

Brynjar gefst upp, hristir höfuðið og leggur spegil sem hann heldur á frá sér. Myndin endar á speglinum á borðinu.

url: http://thorkell.annall.is/2005-08-21/23.04.10/

Athugasemdir

Fjöldi 4, nýjasta neðst

Ása @ 23/8/2005 14.07

Ég fékk gæsahúð! Afar sorglegt en fallegt um leið!

Sigga @ 21/9/2005 11.30

Fallegt. Hefurðu séð Notebook?

Þorkell @ 21/9/2005 12.27

Nei, ekki séð hana enn. Mælir þú sem sagt með henni Sigga?

Annars er önnur bókarmynd, “The Pillow Book,” einhver besta mynd sem ég hef séð lengi.

Sigga @ 21/9/2005 18.12

“The Pillow Book” er líka ein af mínum uppáhaldsmyndum. Nei, Notebook hefur ekkert í hana eða slíkar myndir. En það var út af þemanu í sögunni þinni sem ég spurði. Og vinnunni þinni. Þú hefur kannski gaman af að sjá hana þess vegna.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli