þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Su Doku – Stundargaman fyrir þá sem hafa allt of mikið að gera… og fyrir hina líka :-) · Heim · Ljósmyndir frá Noregi »

Er þekking alltaf til góðs: Hugleiðing um trú og guðleysi.

Þorkell @ 16.04 18/9/05

Ég hef mikið velt trú og guðleysi fyrir mér upp á síðkastið og þá sérstaklega spurningunni hvort ég vildi trúa á Guð þótt hann væri í raun og veru ekki til. Þetta hljómar kannski fáranlega í eyrum sumra því við lítum svo á að sannleikurinn sé sagna bestur og að þekking sé ávallt betri en vanþekking. Ég er hins vegar ekki svo viss.

Mér finnst lífið án tilgangs, án trúar, án Guðs… dapurlegt. Ég leggst nánast í þunglyndi við það eitt að hugleiða tilvist án dýpri tilgangs. Mér finnst varla að það taki því að lifa. Það er eitthvað svo hræðilegt að hugsa til þess að við séum eins og hver annar maur í maurahrúgu. Kviknum til lífs af einskærri tilviljun, fáum um 80 ár til að sanka að okkur auði, minningum og þekkingu og til hvers? Svo það verði gert að engu. Þá vil ég frekar lifa í þeirri trú að ég sé hér til að þjóna einhverjum æðri tilgangi. En hér er vandinn. Ef ég vissi að það væri enginn Guð til væri útilokað fyrir mig að halda áfram að trúa. Þekking mín hefði rænt mig gleðinni af því að hafa tilgang.

Ég hugsa oft til þess hvað ég var sannfærður í trú minni áður en ég fór í guðfræðina. Það var ekki til efi í mínu hjarta. Og ég held að ég hafi aldrei verið glaðari. Þessi fullvissa gerði lífið svo dásamlega einfalt. Guðfræðin kenndi mér að hlutirnir voru ekki svo einfaldir og öruggir. Í raun rændi þekkingin mig sakleysinu. Ég var eins og Adam sem beit í ávöxtinn af SKILNINGStrénu og féll.

Því velti ég því mikið fyrir mér hvort þekking sé í raun og veru alltaf til góðs. Gefum okkur t.d. það að ég fengi að vita það einn daginn að Guð væri ekki til. Ég er ekki viss um að ég myndi gera þeim/þeirri sem væri sæl(l) í sinni trú greiða með því að segja frá því.

Við getum tekið dæmi. Gefum okkur að Jón lifi á því hvað faðir hans elskaði hann mikið. Hann hugsar stöðugt til þess á erfiðis-stundum og reynir að elska börn sín og aðra jafn mikið og faðir hans elskaði hann. Staðreyndin er hins vegar sú að faðir hann elskaði hann alls ekki og það eru til dagbækur þar sem hann skrifar um fyrirlitningu sína á syni sínu. Væri Jóni greiði gerður með því að sýna honum þessar dagbækur?

Hvað finnst ykkur? Er þekking alltaf til góðs? Og er kannski dýpri merking í sögunni af Adam og Evu? Er þekkingin kannski tvíeggja sverð? Við verðum vissulega líkari Guði (þekkingin) en lífið verður einnig þeim mun erfiðara (fallið).

url: http://thorkell.annall.is/2005-09-18/16.04.57/

Athugasemdir

Fjöldi 16, nýjasta neðst

Lindita @ 18/9/2005 16.44

Þetta er eins og með söngin. Áður en ég byrjaði að læra klassískan söng var ég hrifinn af nánast öllum söngkonum. Eftir að ég hafði hins vegar lært söngtækni og fengið meiri innsýni inn í söngin er ég sjaldan ánægð á tónleikum.

En spurningin er hins vegar hvort sé mikilvægara. Að vera ánægð með hvað sem er eða að kunna að meta sjaldgæf gæði.

Vignir V. @ 18/9/2005 18.00

Segum svo að faðir Jóns væri ekki rétt skilgreindur, væri honum gerður greiði með því að upplýsa hann um rétt faðerni ?
Ég held að flestir þoli nú vel að höndla sannleikann þótt hann geti stundum verið sár.

Hugrún @ 18/9/2005 18.56

Ég verð að segja að ég er sammála Linditu. :)

Þorkell @ 18/9/2005 19.34

Já, ég er sammála því að dæmi Linditu er gott. Ég er t.d. mjög hrifinn af kavíar og finnst mér Mills kavíarinn bestur. Ég veit hins vegar að þeir sem hafa eitthvað vita á kavíar myndu ekki líta við Mills kavíarnum og myndu frekar kaupa rándýran gæðakavíar.

Ég held ég kjósi frekar fáfræðina þegar kemur að kavíar. Mills kavíarinn fæst alls staðar og er miklu ódýrari en aðrar “betri” tegundir.

Eva @ 18/9/2005 19.54

Ég geri mér grein fyrir því að Guð er skáldskapur og lífið hefur ekki annan tilgang en því sem maður sjálfur gefur því. Samt lifi ég jafn góðu og innihaldsríku lífi og hver annar. Sennilega betra lífi en margur strúturinn.

Ég veit að oft er kærleikurinn blekking ein og þessvegna lifi ég ekki fyrir ást annarra.

Sumum foreldrum þykir ekki rassgat vænt um börnin sín en ef þú veist sannleikann um ónýta foreldra geturðu orðið þér úti um merkilegri pappíra að leita til.

Ég mæli með því að sem flestir rækti með sér hugrekki til að horfast í augu við sannleikann því sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.

Sveinbjörn Kristinn @ 18/9/2005 22.02

Mest um vert finnst mér að það er að bætast við skilninginn á sögu Adams og Evu (hjá þér)
Ég held að okkar mannlegi skilningur geri mann ekki FRJÁLSAN, en okkur er þetta áskapað, að leita okkur þekkingar. Það er okkar skylda að leita (líklega)-en ekkert merkilegra að vera leitandi alla sína æfi (stundum böl), en að ganga daglega um í trúarfullvissu, í auðmýkt, í kærleika, vinnadi stöðugt að meiri þekkingu, nánara ástarsambandi við Guð. læt þetta bara fara svona

Sveinbjörn Kristinn @ 18/9/2005 22.04

Hinir trúlausu hafa ekki einkarétt á þekkingunni, öðru nær.

Eva @ 19/9/2005 08.38

Af hverju halda trúaðir svona oft að efahyggjufólk sé í stöðugri “leit”?

Ég álít að það sé enginn einn “æðri” tilgangur, heldur að hver og einn gefi lífi sínu tilgang (hann er ekkert ómerkilegri fyrir því), svo að hverjum fjáranum ætti ég að vera að leita?

Ég býst við allir leiti lífsfyllingar en það á jafnt við um trúaða sem trúlausa.

Ég er sammála Sveinbirni um að trúlausir hafa ekki einkarétt á þekkingunni. Þess vegna finnst mér sjúkt og rangt hjá skólum landsins að bjóða Þjóðkirkjunni inn á gafl en úthýsa bæði öðrum trúflokkum og efahyggjufólki sem er tilbúið til að upplýsa börnin um þá þætti í kristindómsins sem venjulega er haldið leyndum fyrir þeim.

Guðmundur G. @ 19/9/2005 09.44

“…. við lítum svo á að sannleikurinn sé sagna bestur og að þekking sé ávallt betri en vanþekking. Ég er hins vegar ekki svo viss.”

Ég vona að þessi staðhæfing þín sé fljótfærnisvilla – hvernig er hægt, eða réttlætanlegt, að velja nokkuð annað en sannleikann ef hann er í boði? Annars sýnist mér hugmyndin um guð vera á hröðu undanhaldi hjá þér; sannleikurinn mun gera yður frjálsa.

Þorkell @ 19/9/2005 10.24

Nei, þetta er alls ekki fljótfærnisvilla. Það er hægt að réttlæta það ef það ef fólki líður betur með það, án þess þó að það skaði það á nokkurn hátt.

Það er alla vega spurningin sem ég vildi varpa fram, svona til að fá umræðu um það. :-)

Ég las einhvern tíman bók sem ég man ekki hvað heitir. Fjallaði um mann sem vandræðagemsi. Honum var sagt að hann ætti að fara í ferðalag en fyrst þyrfti hann að undirbúa sig og breyta líferni sínu. Maðurinn gerði það og varð betir maður fyrir vikið en hann fór aldrei í ferðalagið því það stóð aldrei til að senda hann í ferðalag. Það var bara skáldskapur til að fá hann til að taka sig á.

Matti @ 19/9/2005 11.24

Væntanlega ertu að vísa í söguna Ferðin sem aldrei var farin eftir Sigurð Nordal.

Atli Harðarson ræðir hana hér.

Þorkell @ 19/9/2005 11.27

Nákvæmlega Matti. Þúsund þakkir fyrir!

Eva @ 19/9/2005 20.05

Vissulega getur blekking verið heppileg í ákveðnum áðstæðum. Ég myndi t.d. ekki hika við að beita blekkingum eða hreinræktaðri lygi til að afstýra voða. Að því tilskildu að það væri ekki til þess fallið að skaða neinn, myndi ég líka hugsanlega beita blekkingum til að ná mikilvægu markmiði. Þetta er auðvitað satanískt viðhorf því með slíku framferði er maður að virkja “hið illa afl sem gjörir gott”.

Ég tel hinsvegar grundvallarmun á að sætta sig við blekkingu sem hluta af lífinu, í þeim tilgangi að knýja einhvern til dáða eða afstýra voða og því að lifa í blekkingu um sjálfan sig og veröldina.

Sigga @ 21/9/2005 11.28

Sannleikur er líka alltaf svo afstæður. Fer eftir hversu mikið maður heyrir/sér og hvað. Hef fundið það hjá börnum að undanförnu að þau eru frekar hrædd… það eru alls staðar hryðjuverk, flóð, fellibylir og stríð. Börn eru hungruð og deyja. Þegar við vorum lítil var í mesta lagi að maður vissi að börnin í Biafra væru svöng (án þess að fá mikla tilfinningu fyrir því… aðra en að vera stöðugt duglegur að borða matinn sinn fyrir þau) og svo var það atómsprengjuógnin á unglingsárunum, samt svo fjarlæg. Maður var hamingjusamur og rólegur í sínum litla heimi fáfræðinnar. Ef fréttirnar væru allar frá því hvað íbúar í Skövde í Svíþjóð væru rólegir… eða hvernig það er að búa þar sem þú ert Keli væri það líka sannleikur. Bara annar sannleikur en fréttirnar sem við fáum. Svo hvað vitum við… ekki neitt hvort sem er. Vísindi og fréttir eru ekkert merkilegri sannleikur en hvað annað svo sem. Bara það sem við “eigum” að viðurkenna sem sannleik. Úff… ekki veit ég hvort nokkur skilur þetta :)

Þorkell @ 21/9/2005 12.32

Ég skil mjög vel hvað þú ert að fara. Ég var reyndar ekkert hamingjusamur og rólegur út af kjarnorkuógninni. Ég var sannfærður um að heimurinn myndi farast, það var bara spurning hvort ég næði að verða fullorðinn fyrst. Man eftir því hvað ég var hissa þegar ekkert gerðist 1984, enda hafði það verið eitthvað svo óhugnanlegt ár :-) Ég held einmitt að mér hefði liðið betur ef ég hefði ekki vitað af kjarnorkuváinni og afleiðingum hennar.

Magnús @ 21/9/2005 16.48

Var það ekki eitt af mottóunum hjá stóra bróður?
ignorance is strength

Skemmtilegar pælingar annars.
Er nokkuð hamingjusamur trúleysingi sjálfur, sem trúi því að það sé bara þetta líf og ekki meir. (trúleysingi sem trúir, svolítið skondið), En ef það er eitthvað meira þá er bara gaman af því. Annars er það svolítið eins að skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem það er að lifa að treysta á guð og næsta líf / himnaríki. En eins og Sigga segir, hvað vitum við í raun og veru? Skynfæri okkar eru ákaflega takmörkuð, og í því stóra rími sem eilífðin er, erum við ekki hérna lengi. þá er náttúrlega kanski rétt að skapa sér einhverjar siðareglur, og einhver takmörk, þótt það sé kanski þegar á heildina er litið álíka gáfulegt og hjá Sýsýfussi forðum að velta upp steininum á fjallið endalaust, til þess eins að sjá hann detta niður og byrja upp á nýtt.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli