þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Leiðsögn óskast – Hvar er best að kaupa… · Heim · Af húmor og lélegasta dýri í heimi »

The Gospel According to Hannes Holmsteinn

Þorkell @ 18.01 8/11/05

Já, fólk á að halda sér við það sem það hefur vit á. Hannes Hólmsteinn leggur út af miskunnsama samverjanum á síðu sinni en ég held ég hef aldrei séð jafn furðulega (og langsótta) útleggingu á texta Biblíunnar. Þar segir:

Í fyrsta lagi er ríkið nauðsynlegt, svo að stigamenn úr fjöllunum ógni okkur ekki. Við þurfum öfluga lögreglu og traustar landvarnir.

Í öðru lagi eru til margir menntamenn, sem ekki hjálpa náunga sínum, þótt þeir kunni að mæla fagurlega úr ræðustól. Hér voru þeir presturinn og levítinn.

Í þriðja lagi var miskunnsami Samverjinn aflögufær. Hann gat keypt fórnarlambinu gistingu og aðhlynningu. Með öðrum orðum er nauðsynlegt, að til sé sæmilega efnað fólk, en allir séu ekki jafnfátækir.

Í fjórða lagi gerði miskunnsami Samverjinn góðverk sitt á eigin kostnað, en ekki annarra. Í sjónvarpinu eru viðtöl á hverju kvöldi við fólk, sem vill gera góðverk, en þegar nánar er að gáð, eru þau góðverk jafnan á kostnað annarra. Það eru engin takmörk fyrir manngæskunni, ef menn þurfa ekki að greiða sjálfir fyrir hana, en um leið hættir hún auðvitað að vera manngæska.

Hvað fyrsta punktinn varðar þá leyfi ég mér að efast um að her og lögregluvald hafi verið það sem Kristur hafi haft í huga þegar hann sagði þessa sögu.

Hvað annan punktinn varðar þá held ég að Kristur sé að gagnrýna hræsni almennt, ekki bara menntamenn, en allt í lagi. Sleppur samt.

Hvað þriðja punktinn varðar þá er það sem skiptir máli hér að samverjar voru fyrirlitnir af gyðingum á þessum tíma. Hann var utangarðsmaður. Það kemur ekkert fram um það hvort samverjinn hafi verið vel efnaður eða ekki. Hann gat hafa notað það litla sem hann átti. Þá er ekkert ólíklegt að presturinn og levítinn hafi haft fjár milli handanna. Ég sé bara ekki hvað þessi saga hefur með ríkidæmi að gera og enn síður hvernig hægt er að réttlæta auðsöfnun fárra og fátækt annarra út frá henni.

Hvað fjórða punktinn varðar þá skil ég svo sem hvað Hannes er að fara en…

  • Í fyrsta lagi þá gefa oftast listamenn sem koma fram í söfnunum vinnu sína. Það sama á við um marga aðra. Sjálfboðavinna er líka framlag.
  • Í öðru lagi þá skiptir samtakamátturinn miklu máli og einhver þarf að vera til staðar til að virkja fjöldann og halda utan um söfnunina.
  • Í þriðja lagi voru samskot alls ekki óþekkt á tímum Krists (og líklega ekki í óþökk hans heldur) og stóð Páll postuli t.d. fyrir miklu samskoti til að hjálpa kristnum í Jerúsalem. Ég sé ekki hvernig þessi texti mælir á einn eða annan hátt á móti samskoti eða þeim sem standa fyrir þeim.

Vísun fengin hjá Varríusi

url: http://thorkell.annall.is/2005-11-08/18.01.21/

Athugasemdir

Fjöldi 16, nýjasta neðst

Eva @ 8/11/2005 18.26

Það er alveg sama hvaða þvælu er um að ræða, það má rökstyðja allt og réttlæta með Biblíunni.

Þorkell @ 8/11/2005 19.13

Reyndar efast ég núna um að ég hafi skilið hvað Hannes var að fara í fjóra punktinu. Hann á líklega við að vinstri menn séu að boða góðverk á kostnað annarra. Ef það er það sem hann á við þá verð ég bara að segja: Heldur hann virkilega að ríkir hlaupi fram í umvörpum til að bæta upp þá þörf sem myndi skapast ef stuðningur og aðstoð ríkisins bæri ekki við.

Bjarni @ 12/11/2005 12.21

1. Ég sé ekkert að þeirri ályktun sem Hannes Hólmsteinn dregur af dæmisögunni um miskunnsama samverjann að lögregla og landvarnir séu nauðsynlegar til að verja almenning fyrir ræningjum. Þótt það sé ekki megin boðskapur dæmisögunnar er það engu að síður ályktun sem kemur óhjákvæmilega upp í hugann í hvert sinn sem það spyrst til ræningja sem vaða uppi og misþyrma og ræna almenning hvar sem hann er á ferð. Hannes nefnir reyndar ekki her eins og Þorkell gefur til kynna heldur landvarnir, en auðvitað er það rétt að þær geta m.a. verið í formi herja.

Bjarni @ 12/11/2005 12.21

2. Hannes Hólmsteinn tekur undir orð Jesú Krists þegar hann segir þá til sem ekki hjálpi náunga sínum og bendir á menntamenn þess tíma sem dæmi, prestann og levítann. Það er ekkert að þessari útleggingu og er næsta víst að Hannes Hólmsteinn myndi taka undir með Þorkeli að hér sé um hræsni að ræða. Í raun viðurkennir Þorkell að útlegging Hannesar Hólmsteins gangi upp enda segir hann hana „sleppa samt“.

Bjarni @ 12/11/2005 12.23

3. Vissulega voru samverjar litnir hornauga meðal gyðinga og er það ekki síst þess vegna sem Jesús Kristur talar um miskunnsama samverjann við lögvitringinn sem sagt hafði lögmálið snúast um að elska Drottinn Guð af öllu hjarta, allri sálu, öllum mætti og öllum huga og náungann eins og sjálfan sig. Það er athyglisvert sjónarhorn sem Hannes Hólmsteinn tilgreinir að sæmilegur efnahagur auðveldi fólki að hálpa náunganum og sé því raunar nauðsynlegt að til sé sæmilega efnað fólk, að ekki séu allir jafnfátækir. Það er hins vegar rangt sem Þorkell segir að ekkert komi fram um það „hvort samverjinn hafi verið vel efnaður eða ekki“ enda gaf hann fórnarlambinu ekki aðeins viðsmjör og vín, svo dæmi sé tekið, heldur borgaði hann fyrir hann með tveim denurum á gistihúsi og sagðist borga allt annað sem síðar yrði kostað til. Vissulega geta menn alltaf gefið eitthvað af sér, þótt ekki væri nema fyrirbæn, en miskunnsami samverjinn gaf af þeirri efnislegu auðlegð sem hann átti til.

Bjarni @ 12/11/2005 12.23

Vissulega eru presturinn og levítinn dæmi um menn sem sennilega hefðu getað gert hið sama en gerðu það samt ekki enda hræsnarar eins og Þorkell gefur til kynna og raunar Hannes Hólmsteinn líka þótt hann segi það ekki berum orðum. Það breytir því hins vegar ekki að til þurfa að vera menn sem eru aflögufærir af fúsum og frjálsum vilja. Ég skil ekki hvernig Þorkell getur túlkað orð Hannesar Hólmsteins svo að með dæmisögunni sé verið að „réttlæta auðsöfnun fárra og fátækt annarra út frá henni“. Frekar má ætla að Hannes Hólmsteinn vilji gera öllum mönnum kleypt að verða efnaðir vegna eigin dugnaðar þótt deila megi um hvaða leiðir séu bestar í þeim efnum.

Bjarni @ 12/11/2005 12.24

4. Mér er það hulin ráðgáta hvernig Þorkell fær það út úr útleggingu Hannesar Hólmsteins að hann sé að andmæla sjálfboðavinnu, söfnun og samskotum. Ekkert í útleggingunni gefur slíkt til kynna. Þvert á móti er Hannes Hólmsteinn að leggja áherslu á mikilvægi þess að menn geri góðverk á eigin kostnað en ekki annarra. Þeir sem taka þátt í sjálfboðavinnu, söfnun og samskotum gera það af fúsum og frjálsum vilja. Í raun er Hannes Hólmsteinn aðeins að árétta kristilegan náungakærleika með útleggingu sinni á dæmisögunni. Hitt er svo annað mál hvernig meta skuli skatta vegna heilbrigðisþjónustu, menntunnar og löggæslu og er þar ýmislegt sem deila má um, þar með taldar skoðanir Hannesar Hólmsteins í ýmsum efnum. En benda má á að hann áréttar sjálfur strax í upphafi útleggingar sinnar að ríkið sé nauðsynlegt, svo og öflug lögregla og traustar landvarnir.

Bjarni @ 12/11/2005 12.25

Sjálfur er ég ekki á móti skattheimtu til að tryggja grundvallarstofnanir samfélagsins, heilbrigðisþjónustu og menntun enda öllum til góða, en ég tek undir með Hannesi Hólmsteini að mikilvægt sé að fólk geri góðverk á eigin kostnað en ekki annarra.

bjarni @ 12/11/2005 12.26

Er það ekki annars ánægjulegt að sjá stjórnmálafræðinga styðjast við heilaga ritningu í fræðum sínum?

Torfi Stefánsson @ 12/11/2005 16.52

Ég segi nú bara eins og aðstandendur Live 8 sem kröfðust Justice not charity

Hægra liðið vill jú vera sjálfrátt um það hvað það gerir við peningana sína og vill því ekki borga neina skatta (gefa þá charity-gjafir til að friða samviskuna eða sýna öðrum hvað þeir séu góðir).
Jafnaðarmenn vilja hins vegar nota skattakerfið til að jafna kjör fólks (koma á réttlátri skiptingu teknanna – justice).

Fyrir mér er það augljóst hvort sýnir meiri góðmennsku …

Þorkell @ 12/11/2005 19.18

Ég þakka Bjarna Randveri fyrir svarið. Sagði Kristur ekki: “Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.”?

Það sem skiptir máli hér er að sagan fjallar ekkert um mikilvægi þess að sumir séu efnaðir. Það hefur ekkert með boðskap hennar að gera. Það sem skiptir máli í þessari sögu er að staða eða uppruni skiptir ekki máli heldur gjörðir og kærleikur fólks. Miskunnsami Samverjinn hefði verið jafn miskunnsamur þótt hann hefði tekið hann heim og hjúkrað honum sjálfur, án þess að kosta nokkru til. Það að draga þá ályktun að þetta hafi eitthvað með auð fólks að gera er bara rangt (að mínu mati). Þá skil ég ekki orð Hannesar sem svo að hann hafi verið að segja að allir ættu að vera ríkir (ekki bara sumir).

Hvað fjórða punktinn varðar þá var ég búinn að svara honum í athugasemd sem Bjarna Randveri virðist hafa yfirsést.

Bjarni @ 12/11/2005 21.07

Allir geta gefið af skorti sínum. Það var m.a. það sem ég hafði í huga þegar ég sagði að menn gætu í það minnsta beðið fyrir náunganum. Ritningartextinn sem Þorkell vísar í um fátæku ekkjuna er a.m.k. engan veginn í mótsögn við málflutning Hannesar Hólmsteins því að hún gaf af því litla sem hún átti að eigin frumkvæði en ekki vegna þess að hún væri neydd til þess. Í því er kjarni málsins fólginn.

Bjarni @ 12/11/2005 21.08

Ég er ósammála Þorkeli þegar hann segir að dæmisagan um miskunnsama samverjann fjalli „ekkert um mikilvægi þess að sumir séu efnaðir“ því að hún gengur út frá því sem staðreynd að menn sem hafi efnisleg gæði geti nýtt þau í þágu náungans að eigin frumkvæði. Hins vegar tek ég undir með honum þegar hann segir að það sem skipti máli í sögunni, mestu máli myndi ég reyndar segja, sé „gjörðir og kærleiki fólks“, náungakærleikurinn alls óháður stétt, þjóðerni eða trú. Vissulega hefði miskunnsami samverjinn verið „jafn miskunnsamur þótt hann hefði tekið [fórnarlambið] heim og hjúkrað [því] sjálfur, án þess að kosta nokkru til“, en það er bara ekki um það að ræða í þessari dæmisögu, enda geta þær aðstæður komið upp að nauðsynlegt er að hjálpa mönnum fjærri heimahögunum þar sem ekki verður hjá því komist að kosta einhverju til.

Bjarni @ 12/11/2005 21.09

Auðsöfnun er af hinu góða þegar hún er grundvölluð á heiðarlegum dugnaði manna og er ekkert sjálfsagðara en að þeir fái að njóta ávaxta erfiðis síns og verja þeim í þágu náungans í samræmi við það sem þeir sjálfir vilja. Algjör efnalegur jöfnuður manna er ekkert annað en óraunsæ draumsýn, hversu göfug sem hún kann að virðast. Náungakærleikurinn gerir það hins vegar að verkum að hægt er mæta þörfum þeirra sem minna mega sín, ekki síst þegar þeir sem vilja hjálpa búa við efnisleg gæði. Réttlæti er ennfremur ekki fólgið í algjörum efnalegum jöfnuði manna enda felst í slíku aðeins neikvæð mismunun í garð þeirra sem hafa forsendur og hæfni til að skapa auð og virkar að auki mikið til letjandi á allt frumkvæði. Réttlæti er fólgið í mannsæmandi lífi þar sem grundvallarréttindi allra eru tryggð.

Bjarni @ 12/11/2005 21.09

Hvað fjórða atriðið varðar þá yfirsást mér ekki athugasemdir Þorkels í kjölfar viðbragða Evu. Engu að síður var ástæða til að benda á þá fyrirferðamiklu rangtúlkun Þorkels á orðum Hannesar Hólmsteins að hann væri að andmæla sjálfboðavinnu, söfnun og samskotum enda ógjörningur að lesa slíkan boðskap úr orðum hans. Enda þótt Hannes Hólmsteinn tilgreini ekki vinstri menn sérstaklega í útleggingu sinni á dæmisögunni, má ætla að hann hafi m.a. ýmsa úr þeirra röðum í huga þegar hann gagnrýnir þá sem „boða góðverk á kostnað annarra“. En er það ekki einmitt réttmæt gagnrýni því að vart er hægt að tala um manngæsku ef hún er eingöngu á kostnað annarra en ekki þeirra sem góðverkið vilja gera? Það er kjarni málsins í málflutningi Hannesar Hólmsteins. Og það er nokkuð sem harla margir ættu að geta tekið undir.

Bjarni @ 12/11/2005 21.10

Ég skil ekki útleggingu Hannesar Hólmsteins á dæmisögunni sem svo að ríkið eigi hvorki að veita mönnum stuðning né aðstoð, sama hverjar aðstæður þeirra séu. Hverjar svo sem skoðanir hans eru á skattlagningu og grundvallarstofnunum ríkisins, þá tel ég það vera hlutverk ríkisins að tryggja öllum grundvallarmannréttindi og möguleika á því að lifa mannsæmandi lífi. Hjá skattlagningu verður ekki komist til að tryggja löggæslu, menntun, heilsugæslu og varðveislu menningarlegra verðmæta en skattlagningar leysa ekki hvaða vanda sem er og geta í mörgum tilfellum verið óréttmætar og jafnvel skaðlegar. Skattlagning er réttmæt að því marki sem hún er öllum til góða en um leið og menn eru farnir að gera góðverk eingöngu á kostnað annarra en ekki sinn eigin eru þeir á villigötum. Um þetta hljótum við að geta verið sammála.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli