þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Blót (saga af Mirjam) og gáta dagsins · Heim · Það sem pirrar mig – Væl »

Lifðum við í náð þótt Guð væri ekki til?

Þorkell @ 04.19 17/11/05

Það er áhugavert að skoða trúarkenningar út frá guðlausum forsendum. Náðarhugmynd kristindómsins er gott dæmi.

Náðarkenningin útskýrð:
Hugmyndin um að lifa í náð er ein af grundvallarkenningum kristindómsins. Grunninn er að finna í fórnarathöfnum gyðinga þar sem fólk þurfti að fórna X mörgum dýrum til að greiða fyrir syndir sínar. Erfðasyndina gat maðurinn hins vegar ekki greitt fyrir með dýrafórnum þar sem hún var of alvarleg og stór. Aðeins fullkomlega saklaus vera gat greitt fyrir þessa dýru synd og þar með var hjálpræði mannkynsins ekki í þess eigin höndum. Af náð og kærleik fórnaði hins vegar Guð syni sínum til að þvo mannkynið af erfðasyndinni og þess vegna lifir mannkynið í náð Guðs.

Kenningin strípuð
Ok, hvað gerist ef við strípum þessa kenningu? Tökum í burtu Guð, erfðasyndina og fórnir og skiljum bara eftir þá hugmynd að maðurinn sé syndugur og hann þurfi einhvern vegin að greiða fyrir syndir sínar? Kæmumst við að svipaðri niðurstöðu, þ.e. að maðurinn lifi í einhvers konar náð? Ég held að það megi færa rök fyrir því.

Það eru líklega flestir sammála því að það fyrirfinnist ekki syndlaus persóna. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að við séum flest stórsyndug, hvort sem við skilgreinum synd út frá trúarlegum eða siðfræðilegum grunni.

Okkur finnst lífið oft ranglátt (sérstaklega á þeim dögum sem allt gengur á afturfótunum). En getur verið að þetta rangláta líf sé í raun náð? Myndum við t.d. vilja lifa í réttlátum heimi? Heimi þar sem við greiddum fyrir allar þær syndir sem við drýgðum? Fyrir mitt leyti væri svarið nei. Ég vil frekar þjást ranglega en að líða fyrir syndir mínar. Ástæðan er sú að ég er nokkuð viss um að flest okkar hafa gert meira af sér en við höfum mátt þolað; það á alla vega við um mig. Syndir mínar eru fleiri en þeir erfiðleikar sem ég hef mátt ganga í gegnum.

Ef þessar forsendur standast er niðurstaðan því þessi: Við lifum í náð, þ.e. þeirri náð að heimurinn er ranglátur.

Reynslan af kenningu minni
Hvort sem þessi kenning mín gangi upp eða ekki þá hefur hún reynst mér afskaplega vel. Nýlega var nýju hjóli sem ég átti stolið og í nótt helti ég kaffi yfir fartölvuna mína(ég veit ekki enn hvort hún sé í lagi þar sem maður á helst ekki að kveikja á henni fyrr en eftir 24 tíma). Um leið og ég fann fyrir reiðinni yfir hinum rangláta heimi gjósa upp innra með mér minntist ég þess (við þessi atvik) að ég væri ekki til í að skipta á hinum rangláta heimi fyrir réttlátan heim. Reynsla mín er því sú að kenningin geri mér auðveldara að sætta mig við ranglæti heimsins og skilja áföll að baki (það skal tekið fram að ég geri mér fulla grein fyrir því að hér var ekki greint frá alvarlegum áföllum).

Og så videre?
Árni Svanur hefur einmitt rannsakað kenningu Lúthers um réttlætingu af trú út frá svipuðum forsendum og telur hann að hún sé e.t.v. sam-mannlegur og menningarlegur grunnur (ef ég skildi Árna Svan rétt). Getur verið að margar trúarkenningar séu í raun byggðar á slíkum grunni, þegar allt kemur til alls? Ég veit alla vega að margir Freudistar hafa tekið undir orð Gamla testamentisins um að syndir feðranna komi niður á börnunum og telja þeir að þar sé um sam-mannlegan og menningarlegan grunn að ræða, óháð því hvort Guð sé til.

Hvað finnst ykkur?

P.s. Kenningin er úrfærsla á orðum Michael Garibaldi í Babylon 5 en ég hef áður fjallað um þau hér. Svo tengist þetta auðvitað vangaveltunni um að þekkja sjálfan sig, sem aðallega er fjallað um hér en einnig hér og hér.

url: http://thorkell.annall.is/2005-11-17/04.19.23/

Athugasemdir

Fjöldi 8, nýjasta neðst

Ólöf I. Davíðsdóttir @ 17/11/2005 08.48

Ertu að segja að náðin felist í því að ástandið sé ekki verra en það er nú?

Ólöf I. Davíðsdóttir @ 17/11/2005 08.49

Mundi ekki réttlátur heimur fela það í sér að það væri engin synd? Og þar af leiðandi engin þjáning?

Ása @ 17/11/2005 11.17

Mér gott að hafa þessa setningu í huga þegar eitthvað bjátar á: maður verður að kynnast þjáningunni til að þekkja hamingjuna! ;-) Alveg burtséð frá öllum trúarbrögðum þá hlýtur jafnvægi að vera ákjósanlegasti kosturinn. :-)

Þorkell @ 17/11/2005 12.54

Já Ólöf og nei Ólöf. Réttlæti í heiminum merkir ekki að allir séu syndlausir. Það tel ég alla vega ekki.

Þorkell @ 17/11/2005 23.32

Sko, lífið er náðugt. Fartölvan er í lagi ef frátalið er skjárinn en það er einhver slikja yfir 1/4 hluta hans.

Eva @ 20/11/2005 20.47

Ég held að þeir séu ærið margir í veröldinni sem kysu frekar réttlæti ef það væri í boði.

Það er óréttlæti að börn fæðist með sjúkdóma. Það er óréttlátt að fólk fæðist til fátæktar og þeir sem búa við þessháttar óréttlæti eru miklu fleiri en þeir sem búa við lúxusóréttlætið okkar.

Eva @ 20/11/2005 20.51

Í réttlátum heimi myndu afleiðingar gjörða okkar hafa þau áhrif að fólk myndi neyðast til að horfast í augu við sjálft sig þegar það gerir eitthvað rangt og forðast að endutaka það. Ég sé ekkert ógnvekjandi við slíkt fyrirkomulag.

Sigga Jónsd @ 28/12/2005 09.30

Sæll Keli, vildi bara senda þér og þínum kveðjur frá vinkonu a Íslandi. Hlakka til að fá ykkur heim á Klakann aftur ;-) )

þín vinkona Sigga J

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli