þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Það sem ég hef lært á lífsleiðinni – Áætlanir · Heim · Drög að kvikmyndahandriti: Bensi fer að heiman »

Drög að stuttmynd: Ferðalag

Þorkell @ 02.11 25/7/06

ATH. Ég hef fært inn smá breytingar í samræmi við tillögur hér að neðan:

Hér er drög að kvikmyndahandriti, stuttmynd sem ber vinnuheitið Ferðalag. Gaman væri að heyra álit ykkar og tillögur. Einnig hvernig þið túlkið það.

Maður (Gunnar) gengur niður götu og sér unga stúlku sem situr grátandi á kornakri sem verið er að slá.

Gunnar gengur að stúlkunni – lítur niður að henni.

Gunnar: Er eitthvað að vinan?
Stúlkar lítur upp, tárvotum augum.
Gunnar: Hvers vegna grætur þú?
Stúlka: Vegna þín.
Gunnar: Mín?

Stúlkan stendur upp og fer. Gunnar horfir undrandi á eftir henni, lítur svo yfir akurinn og heldur göngu sinni áfram. Stuttu síðar gengur berfættur maður að honum.

Maður: Ertu Gunnar Karlsson?
Gunnar: [Hissa] Já.
Maður: [Lætur hann fá tvo tíkalla] Hér eru ferðapeningarnir.
Gunnar: Ha? Ferðapeningar?
Maður: Já, ferðapeningarnir þínir. Svo átti ég að minna þig á að sækja skóna þína áður en þú leggur af stað.
Gunnar: Skóna mína?
Maður: Já.

Maðurinn gengur í burtu og Gunnar stendur eftir ráðþrota. Hann lítur niður götuna og sér skósmið standa fyrir framan búð sína. Skósmiðurinn heldur á nýjum skóm og virðist bíða eftir honum. Gunnar gengur til hans og horfir á hann orðlaus. Þeir horfast í augu í smá stund en að lokum tekur skósmiðurinn til máls.

Skósmiður: Viltu ekki máta þá?
Gunnar: Eru þeir mínir?
Skósmiður: Já, auðvitað. Sérðu ekki fingraförin.

Gunnar lítur á skóna en sér engin fingraför.

Gunnar: Nei
Skósmiður: Mátaðu þá!

Gunnar mátar skóna sem passa fullkomlega á hann.

Skósmiður [brosir]: Ég sagði þér að þeir væru þínir.

Hann gengur svo inn í búð sína. Gunnar lítur í kring um sig og gengur svo beint af augum. Eftir smá stund kemur hann að á. Á árbakkanum situr maður í sundskýlu sem lítur upp:

Sundkappi: Viltu komast yfir?
Gunnar: [vandræðalegur] Já.

Sundkappinn réttir þá fram höndina. Gunnar horfir undrandi á hann en áttar sig síðan og sækir tíkallana sem hann fékk stuttu áður. Sundkappinn tekur við þeim.

Sundkappi: Þú verður að fara úr fötunum.
Gunnar hikar
Sundkappi: Ætlarðu yfir eða ekki?
Gunnar klæðir sig úr peysunni og bolnum og ætlar síðan að fara úr skónum.
Sundkappi: Nei, ekki fara úr þeim. Þú þarft á þeim að halda.
Gunnar fer úr öllu nema skónum.
Sundkappi: Fylgdu mér.

Þeir ganga saman út í ánna. Þar tekur hann utan um brjóstkassa Gunnars aftanfrá og syndir með hann björgunarsund yfir ánna, á meðan sólin roðar himinn.

Myndin endar þar sem þeir eru hálfnaðir yfir.

url: http://thorkell.annall.is/2006-07-25/02.11.56/

Athugasemdir

Fjöldi 13, nýjasta neðst

Pétur Björgvin @ 25/7/2006 09.25

Skemmtileg hugmynd. Finnst vera eitthvað stílbrot varðandi samskipti Gunnars og stúlkunnar. Held að það sé setningin ,,Er eitthvað að vinan” sem er að trufla mig og það að hann leggur hönd á öxl hennar.

Árni Svanur @ 25/7/2006 09.30

Það fer kannski eftir aldri Gunnars. Sé hann um eða yfir sjötugt þá gæti vinan verið í lagi, annars finnst mér það stinga í stúf.

Þorkell @ 25/7/2006 12.35

Jú, það er líklega rétt hjá ykkur. Þessi setning gæti orkað tvímælis. Pældi ekkert í því. En færi það samt ekki eftir því hvernig það er sagt? Ég myndi t.d. segja þetta við barn sem væri að gráta og myndi líklega leggja hönd á öxl þess.

Árni Svanur @ 25/7/2006 14.55

Ps. Gleymdi að nefna það áðan að mér líst afar vel á handritið.

Bjössi @ 25/7/2006 19.12

Eitthvað skrítið við fyrstu senu. Mér finnst “vinan” allt í lagi en liljan er kannsi fullsterkt tákn fyrir minn smekk. Hitt er allt mjög flott.

Sveinbjörn Þ @ 25/7/2006 19.47

Mér líst ágætlega á þetta, en mætti ekki segja:

Gunnar gengur að stúlkunni – lítur niður (að henni) og segir:
Gunnar: Er eitthvað að vinan?

Ok. mér finnst vel viðeigandi að segja Vinan, bara mjög eðlilegt (látum ekki pólitíska rétthugsun gelda tungumálið)
Hinsvegar finnst mér þetta með liljun óþarfi, ofhlaðið held ég.

sveinbjörn þ @ 25/7/2006 19.50

já, svo er ég að spá í þetta með fingraförin, kanski bara ágæt gáta, eða einhverskonar myndlíking, en ég er á því að fingraför tengist illa skónum!! Má vera að höfundurinn hafi eitthvað sérstakt í huga þarna. Hvað segurðu um það Þorkell?

Þorkell @ 25/7/2006 20.08

Mjög góðar tillögur. Fingraförin var nú bara svona hugdetta sem ég fékk. Engar miklar pælingar þar að baki. Já kannski er liljan of sterkt tákn. Einhverjar uppástungur að öðru blómi sem er ekki eins augljóst dauðatákn en tengist dauðanum samt einhvern vegin?

Þorkell @ 25/7/2006 21.28

Ég er búinn að færa inn smá breytingar í samræmi við tillögur ykkar og mömmu. Nú er bara sp. hvort þetta hafi verið til batnaðar.

Sveinbjörn Þ @ 26/7/2006 15.03

Persónulega myndi ég byrja látlaust, hversdagslega. Að fella korn, slá, er enn sterkara tákn en liljan.

Ef þú hefðir aðgang að kornakri við veg og slátturinn færi fram dáldið langt frá – vel inní bakgrunninum- þá líst mér vel á þetta.

Sjálfur sá ég fyrir mér hversdagslegt atriði þar sem stúlkan situr á götunni/gangstéttinni, situr grátandi með höfuðið niður í bringu og fæturna í V stellingu. Hversdagslegt, en hún er samt dáldið utanheims, sitjandi svona uppstillt á götunni!

bless.

Þorkell @ 26/7/2006 18.42

Já, ég var einmitt að hugsa um að hafa það langt í burtu í bakgrunninum. Sammála að það verður að vera mjög látlaust.

maggi @ 1/8/2006 08.23

Blessaður Keli, og takk fyrir síðast!

Líst vel á þetta. Ein pæling, gera þetta á svipaðan hátt og þöglu myndirnar eftir Gimli gæjan sem þú varst að sýna mér. Gæti verið spennandi.

Þorkell @ 1/8/2006 20.41

Ég ætla að taka hana upp með hljóði en hugmyndin er að kanna hvernig hún kæmi út sem þögul mynd. Ég held að það gæti verið flott.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli