þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Drög að stuttmynd: Ferðalag · Heim · Hvað er langdregin kvikmynd? »

Drög að kvikmyndahandriti: Bensi fer að heiman

Þorkell @ 22.52 25/7/06

Ég gerði mynd sem heitir Bensi í Norge og mörgum þótti hún mjög fyndin og báðu um fleiri Bensamyndir. Við mamma settumst því niður og gerðum drög að Bensamynd sem gerist á undan Bensa í Norge, en hún útskýrir uppruna hans og ástæðu fyrir flakkinu. Gaman væri að fá tillögur og athugasemdir.

Myndin hefst á gömlum niðurníddum sveitabæ. Bensi sækir kaffibolla sem er hálffullur af kaffikorg og hellir heitu vatni í hann og hrærir vel í. Bragðar á kaffinu og bætir svo nokkrum kaffikornum út í og hrærir. Sötrar síðan aftur og brosir út að eyrum. Hann teygir sig eftir kjötlæri og bítur stórt sykki úr því og kjamsar vel á. Í því sem hann bítur í annað sinn úr kjötlærinu rekst hann í kaffibollann þannig að það hellist niður á kálfann og niður í gúmmítúttur sem hann er í. Bensi fer úr túttunni og sokknum. Vindur sokkinn niður í túttuna og hellir svo úr túttunni í bollann og drekkur. Síðan rekur hann vísifingri ofan í kaffikorginn og sækir góða slummu af korg og sígur hann rösklega upp í aðra nösina.

Bensi leggur svo í sekk sínar kærustu eigur, svo sem gærur, ketil, gamla kastarolu og hlandkopp. Hann sækir síðan fínan en velnotaðan borgarhatt. Þurrkar af honum með erminni og setur hann á kollinn. Bensi yfirgefur síðan býlið og leggur af stað í átt til borgarinnar.

Bensi er að niðurlotum kominn þegar hann kemur í borgina. Hann sér mann koma út úr hjólreiðaverslun með hjól og hjóla af stað og ákveður að kanna þetta furðufyrirbæri. Hann fer inn og biður um slíkt trillitæki og fær að prufa eitt þeirra. Bensi kann hins vegar ekki að hjóla, heldur ekki jafnvægi og dettur. Bensi sér þá barn á hjóli með hjálpardekk. Hann sækir sér samskonar hjól og tekst að hjóla á því. Gengur síðan til kaupmannsins og segist vilja hjólið. Kaupmaðurinn horfir undrandi á hann, jankar síðan að lokum og nefnir upphæð. Bensi gramsar þá í strigapokanum sínum og dregur upp refaskinn og skellir á borðið. Maðurinn neitar og nefnir upphæðina aftur. Bensi fussar þá og dregur upp annað skinn, skellir því á borðið og strunsar síðan í burtu. Búðamaðurinn stendur eftir orðlaus.

Bensi hjólar á barnahjólinu sem er allt of lítið fyrir hann og kemur að torgi þar sem verið er að selja grænmeti og ávexti. Bensi horfir undrandi yfir söluborðið og virðir fyrir sér þessar framandi vörur. Hann tekur upp banana og lyktar af honum þannig að “neftóbakið” lekur yfir banannann. Sölumaðurinn rekur upp stór augu og biður um greiðslu fyrir ávöxtinn. Bensi gramsar aftur í pokanum sínum og finnur kaffikönnuna, tekur í hönd mannsins og tæmir úr könnunni í lófa hans. Gengur síðan í burtu með banannann og bítur í einn fjórða með hýði og öllu saman.

Bensi hjólar að kveldi til og er orðinn ansi þreyttur. Hann leitar að hvíldarstað og kemur að tjaldstæði. Þar stendur bíll með stórum borða og dollur hangandi aftur úr. Brúðarparið sefur sælt í tjaldi við hliðina á bílnum. Bensi nær sér í hníf og sker bandið með dollunum aftan úr og bindur hjólið við eitt tjaldbandið. Hann kíkir inn í tjaldið, sækir síðan hreindýraskinn og skríður inn og leggst á milli hjónanna og breiðir skinnið yfir sig.

Myndin endar á því að við sjáum tjaldið í kyrrð og ró en heyrum svo allt í einu skerandi öskur.

url: http://thorkell.annall.is/2006-07-25/22.52.48/

Athugasemdir

Fjöldi 7, nýjasta neðst

Sveinbjörn Þ @ 25/7/2006 23.44

ágætt, en hvaðn kemur Bensi, ég hélt hann væri íslendingur, bjó hann hér á landi, af hverju fór hann utan. Hvað liggur á bak við fáfræði hans og frumstætt útlit.

Er ekki betra að útskýra sem minnst um Bensa, bara láta hann koma inn í hinar ýmsu kringumstæður???

Þorkell @ 26/7/2006 03.52

Er eitthvað þarna sem segir að hann sé ekki Íslendingur eða að myndin gerist ekki á Íslandi?

Annars er ég sammála því að það sé best að útskýra ekki of mikið. Held ég geri það ekki hér.

En hvað þjóðerni varðar þá er ég að pæla í því að láta það vera óráðið. Hann á að vera svona Gísli í uppsölum sem enginn skilur. Er að velta því fyrir mér að láta alla muldra eitthvað óskiljanlegt tungumál. Nálgast þannig þöglumyndirnar enn meira.

Sveinbjörn Þ @ 26/7/2006 14.54

Einmitt, þú talaðir reyndr um það að hann væri islendingur (einhvertíma) – sem mér finnst alveg óþarfi.

ludvik hjardar @ 3/9/2006 16.43

Vardandi bensa, svo var ekki tekid fram ad hans frumstædi personuleiki kemur af thvi hann hefur haft litil samskifti med nutiman, og ad hans personuleiki er frumskopud af mer og hann hef eg sett saman af morgum personuleikum sem mer minnist hafa hitt gegnum ferdalog min. Hann er svo ad segja omedvitadur um sinu magiska eiginleika og frumstædri framkomu. timinn hefur stoppad upp fyrir hann thvi hann er hinn duldi forfadir okkar.

Þorkell @ 3/9/2006 16.45

Vel orðað Lúlli. :-)

Torfi Stefánsson @ 3/9/2006 18.32

Hinn duldi forfaðir okkar? Þvílíkt rugl!!! Hér kemur hins klisjukennda og heimskulega mynd af Íslendingnum sem einhverjum yfirmáta hallærislegum afdalakalli sem kann enga mannasiði. Þetta minnir á viðhorf Magnúsar Stephensens og upplýsingarinnar til íslenskrar menningar um aldamótin 1800.
Söguþekking þjóðarinnar er með eindæmum léleg, eða eigum við að segja brengluð, því þetta er sú mynd sem fólki hefur verið talið trú um (bara til að níða niður stjórn Dana á landinu).
Hin rétta mynd af forföður okkar er hinn vellesni, fróði bóndi sem í kotbæ uppi í afdal fylgist með heimsmálunum og er betur að sér en vel menntað fólk í öðrum löndum. Lesið bara ferðabækur manna eins og Hendersons, Hollands og Schleisners til þess að komast að hinu sanna!

Ingo @ 14/11/2006 10.50

Þetta var nú samt fyndið og ekkert eins skemmtilegt þegar að fólk getur gert grín af sjálfu sér.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli