þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Þetta er eitt það fyndnasta sem ég hef heyrt… ever! · Heim · “Varúð! Áhorf þessarar kvikmyndar gæti fengið þig til að hugsa.” »

París, París, mín fagra!

Þorkell @ 02.16 15/9/07

Við Lindita eru á leið til Parísar í frekar síðbúna brúðkaupsferð. Það hefur lengi verið draumur Linditu að fara til Parísar. Við förum 27. september og verðum þar fram til 1. okt. Nú vantar mig ráð frá ykkur sem þekkið til borgarinnar. Með hverju mælið þið?

Ég hef bara einu sinni farið til Parísar og sú ferð var stórslys. Ég fór með vini mínum en við vorum svo óheppnir að neðanjarðarlestarnar gengu ekki vegna verkfalls. Við vorum á bílaleigubíl en það hjálpaði okkur lítið. Umferðin var svo þung vegna verkfallsins og þar að auki var þetta um jólaleitið og rétt fyrir undirbúning stórhátíðar fyrir byltingarafmælið. Við þetta bætist síðan endalausar einstefnur og umferðamenningarleysa Frakka. Við vorum í þrjá daga í París og það eina sem við sáum var Eiffel turninn. Afgangurinn af tímanum fór í það að villast (reyndar fór einn dagur í að leita að bílaleigubílnum en gleymdum hvar við lögðum honum og það eina sem við mundum var að það var ljónastytta þar rétt hjá. Sú vitneskja hjálpaði okkur lítið því það eru ljónastyttur út um alla París og þurftum við því að taka leigubíl og þræða götur borgarinnar í leit að bíl). Ég vil sem sagt koma í veg fyrir að slíkt fíaskó endurtaki sig og ætla því að undirbúa mig vel.

Eitt mun þó ekki endurtaka sig. Ég gerði þau mistök að leita aðstoðar á ensku og var alltaf svarað á frönsku, jafnvel þótt ég segði þeim að ég skildi ekki frönsku. En sá tími er liðinn. Nú mun ég ávarpa frakkana á íslensku þangað til þeir neyðast til að svara á ensku. Nú eða þá að láta Linditu um öll tjáskipti, en hún er svaka flink í frönsku, enda tungumálasnillingur.

Eins og sum ykkar væntanlega vitið þá bjó Kandinsky um tíma í París og eru mörg af verkum hans þar til sýnis, sérstaklega í nýlistasafni nokkru sem ég man ekki nafnið á. Er einhver hér sem veit hvað safnið heitir?

Svo væri auðvitað gott að fá ráðleggingar varðandi veitingastaði og annað sem ferðalangar meiga ekki láta framhjá sér fara (fyrir utan Louvre, sem mér tókst aldrei að sjá að innan vegna þess að við náðum aldrei að rata þangað fyrr en eftir lokun).

url: http://thorkell.annall.is/2007-09-15/paris-paris-min-fagra/

Athugasemdir

Fjöldi 12, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 15/9/2007 10.33

Það eru Kandinsky myndir í Centre Pompidou og ég hygg reyndar að safnið sjálft sé líka þess virði að staldra þar við. Minnugur okkar góðu stunda á Vínarkaffihúsunum ætla ég bara að mæla með því að þú njótir þess að staldra við á Parísarkaffihúsum.

Þorkell @ 15/9/2007 11.16

Þúsund þakkir Árni Svanur! Það er einmitt þetta safn sem ég var að leita að. Snilld!!!

Hefurðu verið þar?

Árni Svanur @ 15/9/2007 11.48

Neibb, google hefur verið þar :)

Oddný @ 15/9/2007 13.07

Blessaður Keli,
Ég skal leggja mitt af mörkum til að þú lendir ekki í sömu hrakförum og síðast.:)
Hér kemur smá forréttur, kem með meira seinna:
Til að sjá Kandinsky ferðu á Pompidou-safnið en þar var nýlega opnuð álma fyrir hann og nokkra aðra listamenn.
Þú skalt endilega skreppa á Café Marlys við Louvres en þar sérðu inn í safnið. Það er risastór verönd á kaffihúsinu beint á móti Louvres og píramýdanum, en þar er einn inngangurinn. Þegar þið eruð búin að skoða allt sem ykkur lystir (þið labbið nokkur þúsund fermetra:)) skaltu skoða verslunarklasann undir píramýdanum, en þar er Virgin Megastore með fína DVD-diska, mjög sérstök náttúruverndarbúð (þar er hægt að kaupa heyrnartól sem magna upp dýrahljóð) og margt fleira. Þar er líka matstaður með básum frá öllum heimsins hornum. Mæli með honum.
Svo er það rómantíska dæmið. Er með nokkra matstaði í huga sem þið ættuð að fara á eins og Flo, Chez Julien, La Coupole, Brasserie Lipp o.fl.
Farðu með Linditu í rómantíska gönguferð í Tuileries-görðunum og farðu síðan á kökuveitingahúsið Angelinu á rue de Rivoli (það er gatan meðfram garðinum hægra megin í áttina að Place de la Concorde. Þar var fallöxin í gamla daga, en torgið hefur verið hreinsað svo að þar er bara góður andi). Það er mjög rómantískur staður, þangað fóru brúðhjón frá Englandi í gamla daga. Mæli með kökunni Mont Blanc.Hún er geðveik!
Frakkar eru nú farnir að tala meiri ensku en áður, enda voru þeir skikkaðir til þess af Ferðamálaráðuneytinu, en það þýðir ekkert að tala íslensku við þá. Það hafa sumir reynt og nánast lent í átökum fyrir vikið!
Ég sendi meira í vikunni, er sjálf að fara til New York með Sólrúnu. Er eitthvað þar sem þú mælir með þar, fyrir utan þetta venjulega?
Bestu kveðjur,
Oddný

Þorkell @ 15/9/2007 15.41

Þúsund þakkir fyrir þetta Oddný! Þú ert bara búin að skipuleggja ferðina fyrir mig. Frábært!!! :-)

Hvað New York varðar þá hef ég aldrei komið þangað. Legg til að þú talir við Bjarna Randver og Siggu Péturs um þá merku borg. Það er eins og mig minni að Árni Svanur hafi einnig verið þar og þekki eitthvað til.

Oddný @ 15/9/2007 16.12

Það gleður mig að hjálpa ykkur hjónum og ég er að athuga með afar skemmtilega verslun/kaffihús, sem heitir Colette. Kaffihúsið er ekki langt frá Rue de Rivoli og Tuileries-görðunum, en ég er ekki viss um hvort það standi enn.

Það sem er sérstakt við þetta kaffihús er að þar var stór súkkulaðigosbrunnur, sem jós konfektmolum og heitu kakói upp í tonnatali á neðri hæðinni. Á efri hæðinni var japanskur bar en þar var hægt að fá sérstakt vatn úr ísjökum, sem voru dregnir af reginhafi til byggða og 3000 ára gamalt ferskvatn sett á flöskur. Staðurinn var vinsæll af Japönum. Ég er að spyrjast fyrir um þetta og læt ykkur síðan vita.

Gunnlaugur A. Jónsson @ 15/9/2007 17.55

Ég gæti, Keli, bent þér – sem áhugmanni um trúarbagðafræði og þar með gyðingleg fræði og sögu – á gyðingasafnið nýja (helfararsafnið) í París Keli, en það er stutt að ganga þaðan frá Louvre. Þar er líka hægt að kaupa áhugaverðar kvikmyndir en eiginkona mín kunni mér ekki miklar þakkir fyrir göngutúrinn þangað og ekki er það sérlega rómantískt heldur. Þannig að líklega á ég bara að vara þig við þeirri hugmynd. Hvað um það: http://www.travel-watch.com/newholoparis1.htm
Oddnýju má svo benda á Museum of Jewish Heritage í New York, mjög vandað og áhugavert safn, og heilmikið af gyðinglegum kvikmyndum til sölu þar. Fór þangað í vor. Fallegt útsýni út að frelsisstyttunni einnig. En þið þurfið hins vegar ekki á þessi söfn til að finna kvikmyndina Le viel homme et ll’enfant. Mjög falleg og áhugaverð mynd sem ég hyggst sýna næst þegar röðin kemur að mér í Dec. Myndin er frá árinu 1967 en kom ekki á dvd fyrr en núna í ár og fæst í öllum alvöru bóka- og dvd-búðum í New York með enska titilinum The Two of Us. Þannig að eina alvöru ábending mín er líklega sú að vekja athygli ykkar á þessari góðu mynd. – Það var ekkert að þakka!

Oddný @ 16/9/2007 00.06

Ég þakka Gunnlaugi góðar ráðleggingar vegna ferðarinnar til New York og þú minntir mig á dálítið mikilvægt. Jú, fósturfjölskyldan í París myndi ganga af mér dauðri ef ég færi ekki á Museum of Jewish Heritage í New York, það er víst og satt.

Keli minn, ég bendi líka á Orsay-safnið. Mér fannst ég hafa gleymt einhverju. Það var áður brautarstöð sem var breytt í geysilega flott safn til að hýsa myndir impressionista. Þar er heilmikið af verkum Kandinskys og á efstu hæð er´eitt geðveikasta kökusafn borgarinnar. Það er hægt að taka lyftu, svo að ég efast um að eiginkonan skammi þig. Kaffihúsið er líka rómantískt og minnir á Vín. Þú slærð sem sagt margar flugur í einu höggi.

Hefur enginn áhuga á súkkulaðigosbrunnum og japönskum ísjökum?

Þorkell @ 16/9/2007 14.30

Þakka ykkur kærlega fyrir þetta Gunnlaugur og Oddný. Ég held ég sleppi helfararsafninu í þetta skiptið Gunnlaugur :-)

Jú súkkulaðigosbrunnar og japanskir ísjakar er eitthvað sem mig hefur alltaf dreymt um að sjá, alveg síðan ég var þriggja ára! ;-)

Sigurður Árni @ 16/9/2007 22.14

Kæri frændi. Skrifaði um veitingahús í París, sjá
http://sigurdurarni.annall.is/2004-10-16/12.01.22/
Skemmtu þér vel.

Gunnlaugur @ 17/9/2007 09.25

Dvd-úrvalið í Virgin megastore, Champs elysess 52-60 er býsna magnað og vel flokkað. Starfsfólk þar skilur enskuna þína! Þú hefur hins vegar þegar fengið svo góða leiðsögn frá fagfólki og þá einkum heimamanneskjunni og dec-félaganum Oddnýju Sen (Lilith) að þú ættir að vera harla vel nestaður til fararinnar. Óska ykkur hjónum góðrar ferðar (bon voyage).

Þorkell @ 17/9/2007 20.38

Þúsund þakkir fyrir þetta frændi! Þetta fer í ferðamöppuna okkar :-)

Og Gunnlaugur. Ég veit ekki hvort ég fái leyfi til að kaupa mikið af DVD myndum í þessari ferð en ég mun ó að minnsta kosti líta inn og athuga hvort þeir séu með einhverjar Eden myndir eða áhugaverðar þöglumyndir.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli