þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« “Varúð! Áhorf þessarar kvikmyndar gæti fengið þig til að hugsa.” · Heim · Óopinberir kvikmyndaþríleikir »

Þetta er allt saman list!

Þorkell @ 21.25 19/9/07

Ég á alltaf jafn erfitt með að sætta mig við þá aðgreiningu sem fólk gerir á því sem það kallar annars vegar listrænar kvikmyndir  og hins vegar afþreyingu (eða poppkorn). Í mínum huga eru bara til ólíkar kvikmyndir sem þjóna ólíku hlutverki og sé ég lítinn mun á þeim sem vilja ekki sjá neitt annað en Hollywood myndir og þeirra sem sniðganga þær.

Ég skil vel fólk sem kvartar undan einhliða kvikmyndaúrvali og tek heilshugar undir slíka gagnrýni. Það er sorglegt að fólk elst upp við mjög takmarkað kvikmyndamál og er því í raun ólæst á stóran hluta af heimskvikmyndunum (sbr. heimsbókmenntir), svo ekki sé nú minnst á kvikmyndaarfinn (eins og t.d. þöglumyndirnar).

En það er einnig sorglegt þegar fólk sniðgengur það sem er vinsælast í þeirri barnslegu trú að vinsælt sé afþreying og geti því ekki verið listrænt. Ég fæ það meira að segja stundum á tilfinninguna að maður eigi að þurfa að berjast við að halda sér vakandi yfir myndinni til að hún teljist listræn, eða að maður eigi alla vega að eiga erfitt með að skilja hana. Ef maður skemmti sér um of var verkið ekki alvarlegt og þar með afþreying.

Og svo eru það þeir sem virðast líta svo á að kvikmynd þurfi að vera á öðru tungumáli en ensku til að hún geti talist listræn. Flestar netverslanir eru t.d. með sér hóp kvikmynda sem kallast World Cinema. Rétt eins og það sé einhver ein tegund kvikmyndagerðar sem passi ekki inn í almenna greinaflokkun.

Nú er það svo að mér finnst fátt skemmtilegra en að horfa á Avant Garde myndir og ég á ekki í neinum vandræðum með að halda mér vakandi yfir þeim. Í raun nota ég þær til til að slappa af, því þær krefjast ekki neins annars en að maður njóti þeirra. Þær eru því mín afþreying.

Vinsælar Hollywoodmyndir (sem margir nota til að slappa af) fá mig hins vegar oft til að hugsa, ýmist vegna þess boðskapar sem borinn er á borð (sbr. t.d. V for Vendetta) eða vegna þess menningarlega bakgruns sem myndin endurspeglar. Hinar ódýrustu sápuóperur geta sagt okkur heilmikið um menningu okkar og geta því verið gífurlega áhugaverðar ef horft er á þær út frá því sjónarhorni.

Að lokum má geta þess að ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta er sú að fólk er alltaf jafn hissa þegar það sér vinsælar kvikmyndir og vinsæla sjónvarpsþætti á borðinu hjá mér. Ég veit ekki hve oft ég hef heyrt fólk segja: “Ég vissi ekki að þú horfðir á svona lagað!”

url: http://thorkell.annall.is/2007-09-19/thetta-er-allt-saman-list/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Eva @ 25/9/2007 17.23

Ég er sammála. Snobb er jafn varasamt og hræðslan við að verða fyrir nýjum áhrifum. Alþýðumenning er stórlega vanmetin sem fræðilegt viðfangsefni. Það vill gleymast að lágmenning dagsins í dag er hámenning morgundagsins.

Ég held að þeir sem setja samasammerki milli “listrænnar myndar” og myndar með öðru tali en ensku hafi nú sjaldnast hugsað það djúpt. Líklega kemur þessi tenging til af því að það er alltaf eitthvað framandlegt við tungumál sem maður skilur ekki auk þess sem kvikmyndir endurspegla oftast að einhverju leyti þær menningu sem þær spretta úr. Framandleikatilfinningin er svo nátengd listinni.

Sigga @ 26/9/2007 10.41

Já, þetta er svolítið eins og þegar börn og unglingar segjast ekki horfa á útlenskar myndir. Og meina þá myndir sem ekki eru á ensku. Fólki hættir alltaf til að einfalda hlutina. Held það sé bara mannlegt. Aðal kennarinn minn í kvikmyndafræðinni var doktor í Dallas. Það var frábært að hlusta á hann tala um þessi mál.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli