þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Pant vera óvinur Íslands! · Heim · Eru vandræðabörnin okkar bara seinþroska? »

Hvað varð um dans- og söngvamyndir?

Þorkell @ 01.47 13/11/07

Ég elska dans- og söngvamyndir. Þótt Hollywood hafi hætt að framleiða þær gat maður lengi vel reitt sig á Disney teiknimyndir en nú er það meira að segja úr sögunni (Shrek bar líklega að mestu ábyrgð á því). Fyrst voru þöglumyndirnar teknar af lífi, svo vestrarnir og nú dans- og söngvamyndir. Hvað næst? Kvikmyndaúrvalið verður ávallt dapurlegra!

Og aldrei hef ég skilið þá gagnrýni að dans- og söngvaatriði hægi á atburðarásinni eða stoppi hana jafnvel gjörsamlega. Dans- og söngvaatriði dýpka söguna. Þau lýsa því sem er að gerast innra með persónunni (gluggi sálarinnar) og oft á tíðum hraða þau á atburðarásinni . Fólk verður t.d. ástfangið í einu lagi, eða það verður öfundsjúkt og ákveður jafnvel að myrða mann. Það getur verið tímafrekt að lýsa slíku ferli í kvikmynd en þar sem söngur er tímalaus, er hægt að komast upp með ýmislegt á aðeins 2 mín.

En þess er líklega ekki að vænta að kvikmyndaiðnaðurinn sjái ljósið. Ætli maður verði ekki að reiða sig á Bollywood. Þótt þeir kvikmyndi alltaf sömu söguna eru dans- og söngvaatriðin í myndum þeirra stórkostleg. Ég vona bara að Indverjar fari ekki að taka upp illa siði vestursins.

url: http://thorkell.annall.is/2007-11-13/hvad-vard-um-dans-og-songvamyndir/

Athugasemdir

Fjöldi 8, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 13/11/2007 15.17

Það mætti nú alveg hvetja Allen til að gera fleiri dans- og söngvamyndir ;)

Eva @ 13/11/2007 17.26

Ætli það sé nú ekki ívið fjölbreyttara úrval kvikmynda á markaðnum nú en fyrir 50 árum. Það eru tískusveiflur í þessu sem öðru og framboðið fer væntanlega eftir því. Sjálfri þætti mér t.d. mun eftirsóknarverðara að sjá þrívíddarteiknimynd frá því óbermis kapítalistafyrirtæki Disney en indverska dans- og söngvamynd.

Rómantíska gamanmyndin er vinsælli en kábbojmyndin, einfaldlega vegna þess að nútímafólki gengur betur að samsama sig nútímahetjum.

Þorkell @ 13/11/2007 17.35

Ég efast um að það sé fjölbreyttara úrval kvikmynda í dag Eva mín. Hvað þrívíddina varðar þá væri auðvitað frábært að fá þrívíddar dans- og söngvamynd. :)

Og hvað vestra varðar þá held ég að þeir eigi erindi við nútímann, sérstaklega þar sem Bush er forseti Bandaríkjanna.

Geir @ 18/11/2007 00.55

Þú gleymir að sakna 3 klst löngu epísku stórmyndanna (sem þó áttu stutt come-back), klisjukenndu háskóla-grínmyndanna og annarra mynda sem var markaður fyrir en er ekki lengur.

Þorkell @ 18/11/2007 01.24

Góð ábending Geir! Takk fyrir hana.

Sigga @ 28/11/2007 19.23

Vestrarnir eru með come-back núna :-) En ég er eins og þú mjög hrifin af dans- og söngvamyndum. Svo er ég líka forfallinn Bollywood áhugamaður.

Þorkell @ 28/11/2007 20.30

Ég veit ekki hvort það sé hægt að tala um come-back hjá vestranum. Jú, vissulega voru nokkrar slíkar gerðar en ég held að það þurfi að vera fleiri myndir og yfir lengri tíma til að teljast come-back. En þú settir jú broskall fyrir aftan, kannski þess vegna… :)

Einar Steinn @ 14/12/2007 01.15

Bendi á Hairspray sem var nýlega sýnd í kvikmyndahúsum. Kærkominn dans- og söngvamynd, eða söngleikjamynd. Það mættu vissulega vera fleiri slíkar.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli