þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Ælujól og nýr megrunarkúr · Heim · Hér er góð leið til að kafa dýpra í kvikmyndasöguna »

Hvað ræður för þegar maður kynnist fólki?

Þorkell @ 03.10 31/12/07

Hvað ræður því hversu fljótt maður kynnist fólki? Sumum kynnist maður nánast aldrei á meðan maður nær að mynda sterk bönd við suma á aðeins örfáum dögum.

Hér er eitt dæmi um slíkt. Við fórum til Hollands í sumar. Bróðir minn var að gifta sig og fengum við að gista hjá foreldrum mágkonu minnar, Tom og Sylvíu. Þetta er stórmerkilegt fólk. Tom er um 60 ára og með doktorsgráðu í stærðfræði. Hann lítur út eins og skopmynd af Einstein. Hárið í allar áttir og skegg niður á bringu. Það geislar af honum lífsgleðin og hann er með prakkaraglampa í augunum. Sylvía er hjúkka. Hún er nokkrum árum eldri, liðug eins og táningur og elskar dýr og plöntur. Þau búa í útjaðri smáþorps og reka þar hobbýdýragarð, eða réttarasagt Sylvía sér um hann, enda hennar áhugamál. Þar er hún með tvö eða fleiri dýr af ótrúlegustu sortum, svo mikinn fjölda að það minnir einna helst á Nóa. Húsið er fullt af hljóðfærum og fá allir leyfi til að taka í þau, óháð aldri og hæfileikum.

Við urðum strax mjög góðir vinir. Við Tom rifumst (í góðu) frá morgni til kvölds og vorum sammála um fátt (nokkuð sem Tom virtist kunna að meta). Svo náin varð vinátta okkar á þessum örfáu dögum að þau hjónin voru hjá okkur um jólin.

Því spyr ég aftur, hvað ræður því hversu fljótt maður kynnist fólki? Ekki voru það sameiginleg áhugamál þegar við kynntumst Tom og Sylvíu. Ekki voru það svipaðar félagslegar aðstæður. Það eina sem ég get komið auga á er að við vorum opin og einlæg. Ég held satt best að segja að það ráði meiru en sameiginleg áhugamál. Maður finnur nokkuð fljótt hversu opið og einlægt fólk er tilbúið að vera. Við suma getur maður aðeins rætt yfirborðslega hluti á meðan aðrir draga ekki nein landamæri. Því opnara og einlægara, því nánara verður sambandið. Ástæðan er líklega sú að slíkt viðmót skapar traust og öryggi, nokkuð sem verður ekki of oft á vegi manns.

url: http://thorkell.annall.is/2007-12-31/hvernig-kynnist-madur-folki/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

gajus @ 31/12/2007 09.26

Þú ert nú þannig, Keli minn, að maður kemst ekki hjá því að kynnast þér hvort sem manni líkar betur
eða verr. Það gildir jafnvel um durta eins og mig! Og víst líka mér kynnin vel. Bestu þakkir fyrir árið sem er að líða. Virkni þín í bloggheimum er slík að það gleymist stundum að þú ert fluttur til Noregs. Annars sýnist mér sem Noregsdvölin sé eitthvað farin að koma niður á íslenskunni, sbr. orðalagið: “Hann sér út eins og skopmynd af Einstein.” Dálítið skandinavískt, “eller hur?” – Hvernig fór annars með Einsteinsgervinginn hollenska? Lenti hann líka í Drammen-megrúnarkúrnum dramtíska? Nýárskveðjur af Nesinu þar sem setið er við ræðuskrif á síðasta degi ársins. Jólasnjórinn horfinn og vonskuveður hefur dunið á þjóðinni allri í meira en sólarhring.

Ninna Sif @ 31/12/2007 15.40

Heill og sæll Keli. Ég kímdi þegar ég sá þessa færslu um brúðkaup bróður þíns því okkur hjónum var einnig boðið í þetta brúðkaup. Raunar minnist ég þess ekki að hafa verið boðin nokkuð með jafn löngum fyrirvara. Bróðir þinn og mágkona komu til Íslands 2002, og eitt kvöldið borðuðu þau hjá okkur. Þá sögðust þau ætla að gifta sig 7.júlí 2007 og buðu okkur að koma. En fyrirvarinn reyndist nú samt ekki duga okkur, því er á hólminn var komið var ég komin á steypirinn með þriðja barnið mitt og komst hvorki lönd né strönd. Þannig fór nú það.
En mig langaði að kasta á þig kveðju Keli, langt síðan ég hef séð þig. Ég hitti föðursystkini þín Önnu Siggu og Hallgrím rétt fyrir jól og sýndi þeim fallegu fjölskyldumyndirnar sem þú birtir á annálnum þínum. Voru systkinin á einu máli um að þú værir nú á fullorðinsárum farin að líkjast meira föðurfólki þínu í útliti, einkum Þórhalli föðurbróður þínum heyrðist mér á þeim. Ég þori ekkert að fullyrða, en vona bara að þú sért a.m.k. ekki jafn utan við þig og hann;)
Kærar jóla- og áramóta kveðjur úr Hveragerði.

Þorkell @ 31/12/2007 16.49

Veistu Gunnlaugur. Ég er alltaf að leiðrétta þessa villu hjá dætrum mínum. Þetta sannar það enn einu sinni að maður á ekki að skrifa á næturnar þegar maður er orðinn þreyttur. Villan er hér með leiðrétt. Takk fyrir ábendinguna :-) Hvað gestina varðar þá fékk Sylvía Drammen-megrúnarkúrnum dramtíska en Tom hefur líklega verið of mikið utan við sig til að smitast.

Takk fyrir kveðjuna Ninna Sif. Mikið var nú gaman að heyra frá þér! Ég ég vona að ég verði ekki eins utan við mig og Þórhallur!! :-)

Ég bið innilega að heilsa þér og fjölskyldu þinni sem og stórfjölskyldunni á Íslandi.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli