þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Gætir þú búið með sjálfum/sjálfri þér · Heim · Hefur Blu-Ray sigrað? »

Hvers vegna er “vondi kallinn” vondur?

Þorkell @ 00.48 8/1/08

Ég hef verið að lesa norskar sakamálasögur upp á síðkastið og rifjaðist þá upp gamalt óþol hjá mér. Ég þoli ekki bækur eða kvikmyndir þar sem “vondi kallinn” nýtur þess að vera vondur (þetta á sérstaklega við um sakamálasögur og barnamyndir). Ég held að vondar manneskjur séu alls ekki meðvitaðar um að þær séu vondar. Þvert á móti held ég að þær upplifi gjörðir sínar sem réttlátar eða iðrist þeirra þegar þeir sjá að sér.

Og hversu marga þekkið þið sem hugsa heimspekilega um tilfinningar sínar? Velta því fyrir sér hvers vegna honum eða henni líður svona og hvað það merkir? Ég held að flestir leiði ekki hugann að tilfinningum sínum. Ég las t.d. nýlega sakamálasögu þar sem einn þrjóturinn var búinn að komast að því að það var fernt sem vakti áhuga hans á konum. Eitt af því var að þær vildu hann ekki. Ég á erfitt með að trúa því að maður sem svo brenglaðar kenndir sé svo meðvitaður um eigin illsku að hann kortleggi hana á heimspekilegan hátt. Ég fæ því grænar þegar rithöfundar eyða mörgum blaðsíðum í að lýsa vangaveltum vonda kallsins um eigið tilfinningalíf. Það er líklega ágætt að rithöfundar geri slík drög til að skilja persónur sínar betur en það á alls ekki heima í sögunni sjálfri (að mínu mati).

Er einhver annar haldinn sama óþoli?

url: http://thorkell.annall.is/2008-01-08/hvers-vegna-er-vondi-kallinn-vondur/

Athugasemdir

Fjöldi 4, nýjasta neðst

Eva @ 8/1/2008 11.48

Jamm, ég.

Einhversstaðar las ég langa röð tilvitnana í þekktustu raðmorðingja sögunnar. Yfirleitt lýstu þeir sjálfum sér sem kærleiksríkum manneskjum sem hefðu einungis tekið að sér óvinsæl þjóðþrifaverk eða einhverju í þá veruna.

Sveinbjörn Þ @ 9/1/2008 03.12

umh, kannski skil ég ekki meiningu færslunnar, en er ekki nokkuð ljóst að sá sem er t.d. siðblindur réttlætir gjörðir sínar – eins og flestir gera (héldt ég, eða þannig) þar af leiðandi er ekkert undarlegt þó rithöfundar hafi oft lýst hugrenningum glæpamanna, eðlilega.- Vondi maðurinn má alveg vera vondur, frá þeim stað sem við stöndum er ekkert víst að okkur komi við þó hann hafi sínar ástæður fyrir vonsku sinni (meðvitaðar eða ómeðvitaðar) Er það þetta sem fer í taugarnar á þér Þorkell? Að fá langar lýsingar á sálarlífi sögupersónanna? Það getur auðvitað verið drepleiðinleg ef illa er skrifað. Eða er þetta bara stress í þér, eða þeim sem hafa svona óþol?
Ég hugsa að sálfræðingar séu þér ekki sammála um að enginn hugsi um tilfinningar sínar, við gerum það líklega öll á einhvern hátt – vonandi – sumum er ráðlagt að hugsa um það í hversdagslífinu AF HVERJU þeir þeir geri þetta, eða þetta, skoða hug sinn og ákvarðanir (það yrði auðvitað leiðinleg reynslusaga á bók)

Þorkell @ 9/1/2008 03.31

það fer í taugarnar á mér þegar vondir menn njóta þess að vera vondir. Svona, “Oh það er svo gaman að komast yfir konu ef hún vill ekkert með mig hafa. Þá finnst mér ég vera svo stór og sterkur.” Ég held að sá sem hefði slíkar kenndir myndi frekar hugsa: “Hvers vegna vill hún mig ekki? Hvað hef ég gert henni? Ég skal sko sanna fyrir henni að ég er ekkert verri en aðrir. Hún skal ekki fá að koma svona fram við mig…” Tilfinningarnar eru sem sagt sprottnar af vanmátt og lélegri sjálfsmynd, ekki löngun til að vera vondur.

Og jú, auðvitað hugsum við um tilfinningar okkar en ég held að það sé ókerfisbundið og alls ekki eins heimspekilegt og útpælt og greint er frá í mörgum sakamálasögum. Ég er ekkert á móti því að rithöfundar lýsi sálarlífi fólks, þeir þurfa bara að gera það vel. Dostojevski kunni t.d. þá list að lýsa innri tilfinningum á trúverðugan hátt. Þar krauma þær eins og pottur á mestu suðu, rekast hver á aðra. Gleymast, koma aftur upp á yfirborðið og svo framvegis. Aðalpersónan er áttavilt og skilur oftast ekki sínar eigin tilfinningar eða gjörðir. Í sakamálasögum og sumum kvikmyndum gera vondu mennirnir nánast heimspekilega úttekt á líðan sinni. Ég trúi ekki á slíkt.

Eva @ 11/1/2008 16.58

Þegar Keli segist halda að flestir leiði ekki hugann að tilfinningum sínum á hann nú líklega við orsakir og hin fínni blæbrigði. Það er munur á því að hugsa “nú er ég reiður og ég ætla sko að koma öllum sem gætu átt sök á því í skilning um það” eða “hvaða reynsla, grafin í undirvitund mína ætli hafi kallað fram þessa órökréttu reiði sem ég finn fyrir og hvernig ætli væri æskilegast að bregðast við henni?”

Vondu og góðu kallarnir koma oft skýrast fram í efni sem er ætlað börnum. Láki jarðálfur segir t.d. “en hvað það er gaman að vera vondur” þegar raunverulegt barn sem felur leikföng annarra barna myndi hugsa sem svo að það væri að framfylgja réttlæti með því.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli