þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Nýr fjölskyldumeðlimur · Heim · Skemmtun +/- minning »

Fjórir þættir ástarinnar

Þorkell @ 01.11 5/2/08

Ég var að spjalla um ástina við vin minn. Hann vildi meina að það væri fernt sem mótar hrifningu hans og ást (í mismiklum mæli):

Kynþokki (sexual)
Útlit (physical)
Tilfinningar (emotional)
Vitsmunir (intellectual)

Sumir hrífa hann kynferðislega á meðan hann dregst meira að öðrum vitsmunalega eða tilfinningalega. Mér finnst þetta góð flokkun. Ætli það yrði ekki minna um skilnaði ef fólk velti því fyrir sér í upphafi sambands hvort hrifningin væri á öllum þessum sviðum (sem væri væntanlega ákjósanlegast) og ef ekki, hvort viðkomandi gæti lifað með því. Það er kannski ekki nóg að líða vel í návist einhvers og finnast hann/hún skemmtileg(ur) ef hið kynferðislega vantar. Og varla er gott ef kynferðislegi þátturinn er til staðar en hið vitsmunalega eða tilfinningalega (vellíðan/vinátta) ekki. Væntanlega eru allir þættirnir oftast til staðar en í mismiklu mæli og þá er spurning hvað skiptir mestu máli. Hvað þarf að vera mikið af og hvað má vera minna af.

Svo hvað segið þið um þessa skiptingu? Er skipting sem þessi gagnleg? Viljið þið bæta einhverju við eða taka eitthvað út. Og hvernig mynduð þið raða upp þessum þáttum, frá því mikilvægasta til þess sem skiptir ekki eins miklu máli?

url: http://thorkell.annall.is/2008-02-05/fjorir-thaettir-astarinnar/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Eva @ 6/2/2008 19.30

Mér finnst mjög einkennilegt að persónuleiki sé ekki inni í upptalningunni, þar sem mér finnst hann aðalatriðið og mér finnst svolítið erfitt að greina þetta svona að. Mér finnst t.d. kynþokki ekki vera einangrað fyrirbæri heldur spila ýmsir þættir, svosem líkamlegt og andlegt atgervi, líkamsþefur, persónuleiki og viðmót inn í það hvort hvort einhver höfðar til mín kynferðislega. Mig hefur aldrei langað að sofa hjá einhverjum sem mér finnst leiðinlegur, þótt hann sé bæði klár og fallegur.

Persónuleiki spilar reyndar líka inn í það hvort manni finnst einhver fallegur til lengdar svo það er ekki heldur hægt að taka útlit út sem einangraðan þátt og gefa einkunn á skalanum 1-10. Fólk hefur tilhneigingu til að fríkka þegar manni fer að þykja vænt um það, auk þess sem fólk virðist oft fallegra og kynþokkafyllra þegar það verður ástfangið.

Ef ég á að nefna einhvern einn þátt sem er grundvallaratriði til þess að ég verði ástfangin af einhverjum, þá er það gott geðslag. Mér líður betur með hamingjusömum bjána en fýldu gáfnaljósi, auk þess sem ánægt fólk er betur í stakk búið til að takast á við ýmis verkefni sem koma upp í mannlegum samskiptum. Auk þeirra þátta sem vinur þinn nefnir vil ég tilgreina:
-geðslag
-persónuleika(er maðurinn innhverfur eða úthverfur rökhyggjumaður eða með gott innsæi)
-hugsunarhátt og lífviðhorf (ég nenni t.d. ekki að búa með einhverjum sem finnst lífið á móti sér)
-hæfileika og áhugasvið (verð frekar hrifin af þeim sem ég á eitthvað sameiginlegt með)
-félagslegar aðstæður (ég er ekki líkleg til að verða ástfangin af útmignum róna þótt hann sé sexý, myndarlegur, elskuleg manneskja og geysilega klár)
-framkomu (ég missi bara áhugann ef mér finnst viðkomandi dónalegur) og
-gildismat (hvernig forgangsraðar hann hlutunum, hvaða máli skiptir fjölskyldan, hvernig hagar hann fjármálum o.s.frv)

Þorkell @ 6/2/2008 21.10

Þetta er góð viðbót Eva. Ég skildi það reyndar þannig að persónuleikinn væri hluti af tilfinningadæminu (þ.e. að manni líður vel í návist viðkomandi) en það þarf auðvitað ekki að vera það.

Hugrún @ 7/2/2008 22.00

Ég held ég verði að vera alveg sammála Evu hérna.

Ég hef í gegn um tíðina verið frekar óheppin í ástarmálum, en nánast um leið og ég tók sjálfa mig í gegn og gerði huglægan lista yfir það sem mér fannst ég eiga skilið, og yfir hvað mér þætti mikilvægast í fari hins aðilans kynntist ég manni sem féll algerlega (að mestu leyti allavega) að þessum lista mínum.

Svo verð ég að bæta inn því sem mörgum finnst vera kaldar og órómantískar staðreyndir, en mér finnst vera svo stór hluti af töfrum ástarinnar: ferómón! Reyndar koma önnur hormón líka við sögu, eins og oxitocyn, en ferómón er þar sem þetta allt byrjar.

Ps. Ég held að blogg-meinlokan mín hafi opnast, ég er vöknuð úr dvala :D


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli