þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« 15 ára brúðkaupsafmæli · Heim · Hvers vegna man enginn eftir: »

12 bestu myndir ársins 2007

Þorkell @ 23.22 8/3/08

Ég á eftir að sjá margar mikilvægar myndir frá síðasta ári svo listinn mun breytast (sérstaklega myndir sem ekki eru á ensku, sem berast frekar seint), en hér er alla vega bráðabirgðalisti:

I’m Not There.
Djarfasta mynd ársins. Ég er ekki viss um að maður þurfi að vera Dylan aðdáandi til að fíla hana. Maður þarf bara að vera opinn og tilbúinn til að upplifa eitthvað nýtt.

Atonement
Ég elska ljóðrænar kvikmyndir, með fallega kvikmyndatöku, klippingu, sviðsmynd o.s.frv. Og ekki skemmir nú fyrir ef kjólarnir eru fallegir :-)

There Will Be Blood
Ef það er einhver mynd sem sat í mér frá síðasta ári þá er það þessi. Ég get hreinlega ekki hætt að hugsa um hana. Þetta er einnig einhver besta ádeila á stefnu Bush sem ég hef séð. Stórkostleg mynd sem bara vex og vex við frekari íhugun.

Inland Empire
Jú, jú, hún var fyrst frumsýnd 2006 en bara á nokkrum hátíðum og örfáum sýningum. Almenn dreifing hófst ekki fyrr en 2007 svo ég leyfi henni að fljóta með. Inland Empire er líklega næst erfiðasta mynd Lynch (Strokleðurhausinn verður líklega alltaf á toppnum). Ég þurfti að horfa á hana þrisvar sinnum til að átta mig á henni og enn eru þættir í henni sem ég skil ekki til fulls. Mín kenning er sú að hér sé um Id, Ego og Superego að ræða. Aðalpersóna myndarinnar er konan sem grætur og allt sem gerist inn í sjónvarpinu sem hún horfir á er átök þessara þriggja þátta innra með henni. Myndin batnar við hvert áhorf, en því nú ver og miður mun þriggja tíma lengd hennar koma í veg fyrir að margir gefi henni annað tækifæri. Reyndar er vel hægt að njóta hennar í botn án þess að skilja upp né niður í henni en þá verður maður að vera tilbúinn njóta andrúmsloftsins og gleyma söguþræðinum. Þannig nálgaðist ég hana við fyrsta áhorf.

The Diving Bell and the Butterfly 
Það hefði verið svo auðvelt að klúðra þessari mynd með væmni og leiðinlegri kvikmyndatöku. Sagan bíður kannski ekki upp á mikið.  Maður lamaður að mestu og oftast á sama stað. Hér er veikleikinn nýttur. Myndin er aldrei einhæf, þreytandi eða einsleit. Með kvikmyndatökunni tekst þeim að brjóta flestar reglur í kvikmyndagerð og komast upp með það. Skot sem eru sökk og úr fókus eru engu að síður eitthvað það fallegasta sem maður hefur séð. Gullfalleg mynd um vonina.

Kunsten at græde i kor
Gífurlega sterk mynd um sifjaspell og meðvirkni. Persónulega var ég reiðari út í mömmuna en pabbann. Hann var augljóslega sjúkur á geði en hún valdi að horfa fram hjá vandanum. Það er hreint ótrúlegt að leikstjóra myndarinnar hafi tekist að blanda húmor saman við svona alvarlegt viðfangsefni. Myndin átti verðlaun kirkjunnar svo sannarlega skilið.

Michael Clayton
Gífurlega sterk “sakamálamynd” sem fékk allt of litla athygli þegar hún var sýnd í bíó (þrátt fyrir góða dóma). Sem betur fer hefur hún sópað að sér tilnefningum og verðlaunum svo fólk er loksins farið að taka eftir henni.

No Country for Old Men
Sveinbjörn mun líklega spyrja hvers vegna ég er með þessa mynd á topp 10 lista. Jú, það er vegna þess að andrúmsloftið er svo dásamlegt í henni. Ég elska þennan goðsögulega/draugalega blæ sem svífur yfir vötnunum.

Juno
Falleg, hugljúf og skemmtileg. Margir hafa gagnrýnt hana fyrir að vera of meðvitaða um eigið ágæti. Mér fannst hún bara hafa efni á því. :-)

In the Valley of Elah
Ég skil ekkert í því að þessi mynd fékk ekki meiri athygli. Einhver besta ádeila á Íraksstríðið sem ég hef séð. Mér fannst hún mun betri en síðasta mynd Paul Haggis, Crash, sem fékk óskarinn árið 2004. Kannski var hún of flókin fyrir almenning?

Across the Universe
Það skal tekið fram að ég er Bítlaaðdáandi og því má vel vera að það hafi áhrif á val mitt hér, en ég hreint og beint elskaði þessa mynd. Mér fannst hún flott, frumleg og skemmtileg.

Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street
Ef maður horfir fram hjá söngnum (sem er oft á tíðum ekki alveg nógu góður, sérstaklega hjá Helena Bonham Carter) þá er engin spurning að hér er um meistaraverk að ræða. Sjónrænt er myndin algjört konfekt. Sjaldan hefur blóð runnið jafn fallega og í þessu meistarastykki.

[Viðbót: Myndir sem dottið hafa út af topp tólf listanum:]

Once
Og að lokum vil ég geta þriðju söngvamyndarinnar sem heillaði mig upp úr skónum. Kvikmyndin Once var sýnd á hátíðum árið 2006 en fór ekki í almenna dreifingu fyrr en 2007. Once er gullfalleg, sérstök og einlæg. Tónlistin er falleg og leikurinn sterkur. Reyndar finnst mér óþarfi að afsaka söngleiki með því að koma með ástæðu fyrir því að fólk þenur raddböndin og kvikmyndatakan er oft í ódýrari kantinum en það er auðvelt að fyrirgefa slíkt – svo mikill er sjarmör myndarinnar.

url: http://thorkell.annall.is/2008-03-08/tiu-bestu-myndir-arsins-2007/

Athugasemdir

Fjöldi 13, nýjasta neðst

Lefú @ 10/3/2008 08.30

Úff…þá liggur alla vega fyrir hvaða myndir ég á eftir að sjá. Mér sýnist síðasta ár hafa farið til spillis hjá mér. Get þó sagt mér til afbötunar að fyrir tilstilli góðra manna tókst mér að sjá “Once” nýverið. Afbragðsmynd að mörgu leyti en kannski ekkert meistaraverk. Jæja, best að skammast út á leigu ekki seinna en núna!

Torfi Stefánsson @ 14/3/2008 22.46

Þú getur alveg sleppt því að fara að sjá There will be blood nema þá til eins að verða vitni að dekadensinum í bandarískri kvikmyndagerð í dag, sem endurspeglar auðvitað þjóðfélagsástandið.
Kaninn er orðinn svo hrjáður af öllum óþverranum hjá og í sér að hann gerir lítið annað en að búa til siðblindar myndir – og verðlauna þær í hæstu hæðir.

Tilgangslaus mynd með lélegum og þunglamalegum söguþráði, og alveg átakanlega leiðinlegri og ósmekklegri tónlist. Gef mér þá aftur dogmumyndirnar með eðlilegu hljóði.

Ég skil ekki hvað kvikmynda”vitarnir” sjá við þessa mynd. Ég þakka Guði fyrir að vera ekki einn af þeim.

Þorkell @ 15/3/2008 21.34

Þar er ég ekki sammála þér Torfi. Mér fannst There Will be Blood stórfengleg. Það tók mig smá tíma að melta hana en hún batnaði bara eftir því sem pældi meira í henni. Ég hefði nú haldið að þú hefðir fagnað þessari sterku ádeilu á Bush :-)

Annars hefur topp listinn breyst smá. Ég kom því loksins í verk að sjá The Diving Bell and the Butterfly og fór hún beint á topplistann. Sjá hér fyrir ofan.

Torfi Stefánsson @ 15/3/2008 22.03

Þetta er nú eins og nýju fötin keisarans. Myndin felur ekki í sér neina ádeilu á Bush.
Hún fjallar um geðsjúkan olíufursta, þjóf og morðingja sem hagnaðist á árunum fyrir heimskreppuna – og það án nokkurs brodds eða ádeilu. Mér sýndist hún miklu frekar vera dýrkun á ofbeldi og skúrkshætti sögupersónunnar. Hann var jú heill í sínum kvikindisskap og sadisma, annað en fórnarlömbin.
Hvernig í ósköpunum getur þú túlkað hana sem ádeilu á Gogga göngukarl?

Þorkell @ 16/3/2008 00.06

Ég skil vel að þú sért ekki hrifinn af myndinni ef þú túlkar hana svona. Tengslin sem ég sé við Bush eru t.d. þessi:

Hann endurtekur í myndinni að hann sé olíumaður og það sé fjölskyldustarf. Bush kemur frá olíufjölskyldu. Hann er olíumaður og margir vilja meina að Íraksstríðið sé út af olíu.

Hann segist vilja hjálpa samfélaginu en markmið hans er fyrst og fremst eigin hagsmunir. Hann kaupir upp land undir markaðsverði og stendur ekki einu sinni við skuldbindingar sínar. Mjólkurhristingaræðan er gott dæmi um þetta. Hann tæmir meira að segja olíuauðlindir nágranna sinna og gerir þær þar með verðlausar. Hljómar eins og Írak?

Það eru tvö öfl sem ráða ríkjum í USA núna, kapitalismi og kristnir öfgahópar. Í myndinni höfum við báða fulltrúa og báðir eru spilltir. Vissulega stendur Bush með fæturnar í báðum hópunum en það þarf ekki endilega að útiloka vísun, eða að minnsta kosti hliðstæðu. Framhaldið er sérstaklega áhugavert. Hvorugt þessara færir hamingju. Hann eignast allt en endar uppi með ekki neitt. Fjölskyldu- og vinalaus. Hann er meira að segja dauðadrukkinn í “ræsinu” í lokin (þ.e. ræsi bowling-brautarinnar). Þá er síðasta setning myndarinnar sterk. Ég held að það sé nokkuð ljóst að þar sé um beina vísun í síðustu orð Krists að ræða. En hvað er fullkomnað? Ólíkt orðum Jesú bera þessi orð ekki með sér neina von. Kannski svona svipað og boðskapur Bush?
Það eru fleiri hliðstæður/vísanir en ég læt þetta duga í bili.

Torfi Stefánsson @ 16/3/2008 09.15

Er þetta nú ekki dálítið langsótt Þorkell? Ég hélt að þetta væri eitthvað sem leikstjórinn hefði sent frá sér og að þú myndir vísa á þráð þar um. Svo virðist sem þetta sé þín einkaskoðun, eða hvað?

Það sem setur spurningarmerki við þessa skoðun þína er fyrir það fyrsta að mr. Plainview var trúleysingi og fór oft ekki í felur með það (þótt hann vissulega notað trúna sér til framdráttar og lét skírast í eldi til að bjarga sér frá morðákæru (og sér til annarra hagsbóta)).
Þá var endir myndarinnar ekki á sömu nótum og samstarf Bush og þeirra kristnu hægri í USA (hvað átti sá endir annars að sýna? Dekadens leikstjórans og bara það?).

Mér finnst Íraksskírskotunin hjá þér ekki heldur sannfærandi. Hér sýnist mér einungis verið að lýsa óheftum kapitalisma síns tíma, þ.e. fyrir kreppuna þar sem réttindi manna voru lítil sem engin.

Það sem mér finnst í raun verst við myndina er að hún reynir ekki að varpa neinu ljósi á hugmyndafræðina á þessum tíma, sem er mjög athyglisverð. Progressivisminn, framfarahyggjan, og fleira er þarna hvergi. Þessi tími, um og upp úr síðustu aldamótum, var mjög merkilegur hugmyndafræðilega. Social-darwinisminn réð þarna ríkjum og endaði með skelfingu, heimskreppu og heimsstyrjöld.
Ég sá enga skírskotun til þess. Myndin snerist fyrist og fremst um geðveika sál sem hataði allt og alla og hvernig það hatur fór með hann þrátt fyrir mikið ríkidæmi.
Sem sálfræðilegt drama var hún þó einnig léleg. Það koma t.d. aldrei fram af hverju þetta hatur var, hvernig það var til komið. Þannig vantaði hana allan sannfæringarkraft. Hún var bara tilraun til að vera plain lýsing á sjúkum huga athafnamanns (mr. Plainview!) en tókst það ekki einu sinni.

Nei þú þarft að koma með betri rök en þetta til að sannfæra mig, en skil reyndar vel ef þú nennir því ekki!

Þorkell @ 16/3/2008 11.13

Ég hef ekki kynnt mér hvað Anderson hefur um myndina að segja, en ég veit að ég er ekki einn um að túlka myndina á þennan veg. En auðvitað er þetta bara túlkun, ekki neinn heilagur sannleikur.

Sveinbjörn Kristinn @ 23/3/2008 04.15

Jæja, félagar, ég sé að þið eruð enn og aftur með Bush á heilanum!

Reyndar finnst mér rök Torfa sterk, en ég á eftir að sjá myndina. Held að nokkuð sé til í úrkynjun kvikmyndagerðar í USA – samanber No Country for Old Men, Keli – engin mynd á skilið að vera meðal bestu mynda ársins BARA út á andrúmsloft (jæja, ég verð nú að viðurkenna að ég þarf að horfa aftur á myndina til að vera alveg viss í minni sök)

Sigga @ 31/3/2008 10.32

Once, Juno og Atonment eru í mestu uppáhaldi hjá mér á þessum lista. Svo var ég afskaplega hrifin af lítilli mynd sem sýnd var hér á kvikmyndahátíð og heitir Heimsókn hljómsveitarinnar. Hún er frá Ísrael. Önnur mynd á hátíðinni sem ég var mjög hrifin af var Gildran frá Serbíu og Himinbrún var frábær líka.

Árni Svanur @ 31/3/2008 15.28

Ég tek undir þetta með þér Sigga, en myndi vilja nefna myndina 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar. Alveg hreint mögnuð!

Torfi Stefánsson @ 31/3/2008 15.43

Talandi um kvikmyndir þá verður Adams æbler bara betri því oftar sem maður sér hana.

Sigga @ 1/4/2008 09.40

Já! Trúi ekki að ég hafi gleymt 4 mánuðum, 3 vikum og 2 dögum! Hún átti sannarlega að vera þarna. Sammála þessu með Epli Adams.

Þorkell @ 1/4/2008 11.47

Ég hef ekki séð Fjóra mánuði… en hef heyrt að hún er frábær. Hvað Epli Adams varðar þá er það hverju orði sannarra að hún batnar bara við hvert áhorf og var hún þó frábær við fyrstu sýn.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli