þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Hvers vegna man enginn eftir: · Heim · Mínar þrjár uppáhalds senur í kvikmyndum »

11. boðorðið: Þú skalt ekki bera tilfinningar þínar á torg!

Þorkell @ 02.47 24/3/08

Ég datt í það eina nóttina að horfa á efni Chris Crocker á youtube. Hann hefur lengi sent frá sér myndskeið þar sem hann dansar og “mímar” við lög Britney, ræðir um tilfinningar sínar, ástarsambönd og fl. Hann varð heimsfrægur er hann bað fólk og fjölmiðla (í mikilli geðshræringu) um að láta Britney í friði.

Þessi yfirlýsing Chris hneykslaði umheiminn svo mikið að hún komst í fréttir um heim allan og var Chris boðið í fræga spjallþætti til að útskýra mál sitt (það var meira að segja samið lag við yfirlýsingu hans). Og ekki stoppaði frægðin þar. Chris var boðinn eiginn sjónvarpsþáttur, nokkuð sem reitti andstæðinga hans til reiði (en Chris er svo innilega hataður að honum berast morðhótanir daglega).

Ég hef tvennt um þetta að segja. Í fyrsta lagi finnst mér merkilegt að það skuli koma andstæðingum Chris á óvart að hann fékk eiginn sjónvarpsþátt. Það er jú þeirra hneykslun sem gerði hann frægan og því þeim að “kenna”.

Í öðru lagi finnst mér merkilegt að jafn einlæg og saklaus yfirlýsing skuli vekja svona sterk viðbrögð. Chris hefur verið Britney aðdáandi síðan hann var ungur strákur. Ég skil því vel að honum skuli hafa verið niðrifyrir. Mér hefur sjálfum blöskrað framferði fjölmiðla og þekki ég þó varla til hennar.

Ég er gjörsamlega ósammála andstæðingum Chris sem segja að það sé dæmi um sjúkleika þessa heims að einhver eins bilaður og hann skuli verða frægur. Þvert á móti tel ég það vera lýsandi fyrir firru samfélagsins að hann varð frægur fyrir það eitt að vera opinn og heiðarlegur og hafa hugrekki til að vera hann sjálfur. Ég tek að ofan fyrir Chris. Það væri óskandi að fleiri þyrðu að vera eins einlægir og hann.

url: http://thorkell.annall.is/2008-03-24/11-bodordid-thu-skalt-ekki-bera-tilfinningar-thinar-a-torg/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Hugrún @ 9/4/2008 13.24

Held reyndar að honum sé ekki alvara, að hann sé að leika. Hef að vísu ekki séð mikið af honum sjálfum, en sá umræður um hann á spjallvef einum hér á Fróni.

Ef svo er, er það þá ekki bara enn eitt dæmið um firruna sem þú talar um? Að það sé ekki hægt að vera einlægur nema að fíflast svolítið um leið. Hvar er þá einlægnin?

Þorkell @ 9/4/2008 14.05

Hann heldur því fram að honum hafi verið alvara og ég hef enga ástæðu til að draga það í efa, enda sýna eldri skrif hans að hann er mikill Britney aðdáandi. Ég er hins vegar sammála þér því að ef þetta er leikur þá er þetta jafnvel enn betra dæmi um firringu.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli