þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« 11. boðorðið: Þú skalt ekki bera tilfinningar þínar á torg! · Heim · Uppáhalds aprílgabb mitt »

Mínar þrjár uppáhalds senur í kvikmyndum

Þorkell @ 09.57 7/4/08

Ég verð líklega aldrei spurður af “07/08 bíó leikhús” hverjar séu mínar þrjár uppáhalds senur í kvikmyndum. Ég ákvað því að taka viðtal við sjálfan mig:

Já, þrjár uppáhalds senur. Þær eru svo margar… Jú ætli ég myndi ekki velja eftirfarandi atriði:

1) Draumur leiðsögumannsins í Stalker (1979) þar sem kvikmyndavélin líður yfir yfirborð vatns og við sjáum helgimyndir, peninga, byssur og gullfiska líða hjá. Það fallegasta sem Tarkovsky skapaði, og þá er nú mikið sagt. Ég hef oft sagt að ég óski þess að þessi sena verði sýnd á jarðarför minni.

2) Senan í Lost Highway (1997) þegar Fred hittir “Mystery Man” í fyrsta skipti í partíi. Dularfulli maðurinn segist vera heima hjá honum og hringir heim til hans til að sanna það. Lynch eins og hann gerist bestur.

3) Pyntingarsenan í La Passion de Jeanne d’Arc (1928) eftir Dreyer. Jóhanna af örk er leidd inn í pyntingarklefa og beðin um að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að sýnir hennar væru frá djöflinum komnar. Klippt er á milli Jóhönnu og pyntingatækjanna, þá sérstaklega á mann sem snýr hjóli með oddhvössum göddum. Senan endar með því að það líður yfir Jóhönnu.

Og hverjar væru svo ykkar uppáhalds senur?

url: http://thorkell.annall.is/2008-04-07/minar-thrjar-uppahalds-senur-i-kvikmyndum/

Athugasemdir

Fjöldi 6, nýjasta neðst

Sigga @ 8/4/2008 15.22

Áskorun segirðu :) tek henni auðvitað. Mér finnst hrikalega vont að velja þrjár senur af þeim mikla fjölda uppáhaldssena sem ég á. Þær þrjár sem ég nefni núna eru því ekki endilega sömu senurnar og ég myndi nefna á morgun :) 1. Ótal margar senur í Bláum eftir Kieslowski sem ég vildi nefna. Ætla samt að velja senuna þegar Julie finnur bláa sleikipinnan hennar Önnu og bryður hann. Mesti sársauki í mynd sem ég man eftir. 2. Samanklipptu kossarnir í Cinema Paradiso. Snilldar ferð í gegnum kvikmyndasöguna. 3. Strokleðursena úr yndislegri, franskri heimildamynd sem ég er nýbúin að sjá. Hún heitir “Etre et avoir” og þú VERÐUR að sjá hana ef þú hefur ekki séð hana nú þegar. Myndin er frá 2002. Ég vil ekki lýsa senunni því þá myndi ég skemma fyrir þér ef þú hefur ekki enn séð hana. (Meðvitað ákvað ég að velja ekki senur úr myndum eftir gömlu meistarana)

Þorkell @ 8/4/2008 17.03

Takk fyrir svarið Sigga. Ég hef ekki séð þessa frönsku heimilda(r)mynd en skal verða mér út um eintak. Lofa. Hvers vegna ákvaðstu meðvitað að velja ekki senur úr myndum eftir gömlu meistarana?

Árni Svanur @ 8/4/2008 18.37

Hér koma þrjú uppáhaldsatriði:

1. Draumur leiðsögumannsins í Stalker (kemur á óvart).

2. Dauði Mateo og fæðing litlu stúlkunnar í In America. Mögnuð klipping og kvikmyndataka.

3. Veislumáltíðin í 4 luni, 3 saptamâni si 2 zile. Þetta atriði hélt manni alveg föngnum. Það sama gildir reyndar um fleiri atriði í þessari mynd!

Sigga @ 9/4/2008 14.05

Ég get alveg tekið undir allar þessar senur hjá ykkur báðum. Svo langaði mig líka að nefna senur úr myndum eins og t.d. Lilju 4-ever og Persona svo dæmi séu tekin. Ég ákvað þetta vegna þess að þá var ekki úr alveg eins miklu að velja :o ) Þú verður ekki svikinn af Etre et avoir.

Bergsveinn @ 30/4/2008 21.45

Hér er mín uppáhaldssena (þú kannast við hana).
Og tónlistin skemmir ekki fyrir, þar er reyndar sú einasta hljómsveit sem hefur hrært mitt hjarta síðustu misserin, Arcade Fire, mæli með nýjasta diski þeirra: Neon Bible

http://www.youtube.com/watch?v=ZO7ZWfvCjBE

Þorkell @ 1/5/2008 16.21

Potemkin kom mjög sterklega til greina þegar ég tók saman mín þrjú uppáhalds atriði Bergsveinn. Reyndar er búið að breyta þessu atriði í tónlistarmyndbandinu. Fyrir það fyrsta er tekin með forsagan (í styttri útgáfu) og svo er búið að breyta atburðarrásinni. En þetta kemur samt mjög vel út þarna og tónlistin er flott.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli