þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Uppáhalds aprílgabb mitt · Heim · Tákn fyrir hvað? »

Af hverju spurningin “Hvað viltu í afmælisgjöf?” er móðgangi

Þorkell @ 08.46 10/4/08

Enn einu sinni er sá tími runninn upp þegar fólk hringir og spyr hvað ég vilji í afmælisgjöf. Mér er illa við þessa spurningu. Ekki vegna þess að ég eigi erfitt með að taka á móti gjöfum, heldur vegna þess að spurningin ber það með sér að:

  • Viðkomandi þekki mann ekki nógu vel til að velja gjöf fyrir mann.
  • Nenni ekki að hafa fyrir því að leita að einhverju sem passar.

(Eða þannig túlka ég hana alla vega). Og jafnvel þótt fólk þekki viðkomandi ekki náið þá er alltaf hægt að spyrja einhvern náinn álits.

Og hvað á maður svo að velja? Eitthvað sem maður veit að viðkomandi langar í? Eitthvað sem maður vill að viðkomandi kynni sér? Eitthvað sem maður hefur sjálfur brennandi áhuga á? Persónulega reyni ég alltaf að sameina þetta þrennt, þ.e. að gjöfin sé innan áhugasviðs afmælisbarns en minni það jafnframt á þann sem gaf hana.

Eru fleiri hér sem túlka þessa spurningu svipað?

url: http://thorkell.annall.is/2008-04-10/af-hverju-spurningin-hvad-viltu-i-afmaelisgjof-er-modgangi/

Athugasemdir

Fjöldi 6, nýjasta neðst

Eva @ 10/4/2008 15.56

Reyndar gæti líka verið að sá sem spyr viti t.d. ekki hvaða dvd diska þig vantar í safnið eða þá að honum sé kunnugt um þá staðreynd að um 40% allra gjafa eru aldrei notaðar og langi frekar að færa þér eitthvað sem þú vilt en að útvega þér meira drasl (drasl er hlutur sem kemur engum að gagni).

Af hverju er það annars móðgandi ef einhver þekkir þig ekki nógu vel til að velja gjöf handa þér? Ef ég ætti að standa í því að vera móðguð út í alla þá vini mína og ættingja sem þekkja ekki smekk minn og þarfir þá gerði ég nú lítið annað en að velta mér upp úr því.

Ég reyni að velja gjafir með það fyrir augum að hún gagnist þiggjandanum. Ef ég er ekki fullkomlega viss um að einhver hlutur hitti í mark, vel ég eitthvað sem klárast, t.d. sælgæti, vín, snyrtivörur eða gjafabréf á veitingahús eða tónleika. Það skiptir mig sjaldan neinu máli að gjöfin minni sérstaklega á mig, enda hef ég nógar aðrar aðferðir til að sjá til þess að fólk gleymi mér ekki. Ég reynir að komast hjá því að gefa gjafir sem verða byrði, t.d. nota ég ekki gjafir til að fá fólk til að kynna sér mín áhugamál nema vera viss um að þau höfði til viðkomandi. Mér finnst sjálfri ömurlegt að fá gjöf sem hinn aðilann langaði í, sérstaklega þegar það er einhver heimilisprýði sem mér finnst forljót eða ef ég get átt von á að vera yfirheyrð um einhverja bók sem gefandinn var hrifinn af en ég hef engan áhuga á að lesa.

Það eina sem mér finnst slæmt við að fólk spyrji hvað ég vilji er að það er í fullri einlægni ekki svo margt sem mig langar í. Ég er með krónískt ofnæmi fyrir drasli og vil velja fatnað, ilmvötn og skrautmuni sjálf. Ég vildi þessvegna að fólk tæki mark á því þegar ég segi að mig langi í framlag í styrktarsjóð krabbameinssjúkra barna eða eitthvað álíka, sem myndi í alvöru gleðja mig, frekar en að gefa mér eitthvað sem ég nota ekki. Foreldrar mínir sem hafa ekki séð mig með skartgripi nema á 18 mánaða fresti að jafnaði eru t.d. ennþá að gefa mér skartgripi.

Ég er heldur ekki viss um að það virki að spyrja einhvern nákominn. Fyrir fertugsafmælið mitt spurði móðir mín t.d. systur mína hvað væri best að gefa mér. Hún svaraði, eftir fyrirmælum frá mér; bara ekki skartgripi eða ilmvatn. Móðir mín gaf mér hring sem ég hef einu sinni notað í kurteisisskyni. Systir mín gaf mér hinsvegar ilmvatn.

Ólöf I. Davíðsdóttir @ 10/4/2008 18.58

Verstar finnst mér gjafirnar sem gefnar voru af góðum hug með orðunum, “Mér finnst þetta eitthvað svo mikið þú.”

Ása @ 11/4/2008 07.57

Til hamingju með afmælið! Það verður spennandi að heyra hvað snjöllu stúlkurnar þínar gera til að gleðja pabba sinn í tilefni dagsins! ;-)

Kristian @ 11/4/2008 19.14

Til hamingju með afmælið, frændi. Pakki á leiðinni!;)

Gunnlaugur @ 11/4/2008 21.21

Tek undir afmæliskveðjur. Lofa langþráðum ritgerðarkafla í tilefni dagsins og vonandi “tímamótarit” einnig innan fárra daga. Hefði ég verið spurður um afmælisgjöf þér til handa hefði ég lagt til ný gleraugu, sbr. bráðskemmtilegt skeyti frá þér á dec-póstlistanum á dögunum. Hló mikið!

Sigga @ 12/4/2008 11.37

Síðbúnar afmæliskveðjur! Vona að þú hafir átt góðan dag!


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli