þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Augnæfingar · Heim · “Djúpar” hugrenningar um Kvk & kk klósett »

Er húmor persónubundnari en spenna eða drama?

Þorkell @ 15.30 4/1/09

Ég gef oftast kvikmyndir sem jóla- eða afmælisgjafir en það er einn flokkur kvikmynda sem ég gef nánast aldrei og það eru gamanmyndir. Ástæðan er ekki sú að ég er svona þunglyndur heldur sú að flestir eru sammála um hvað gerir drama- eða spennumynd góða, en það sama virðist ekki eiga við um gamanmyndir.

En hvað veldur þessu? Hvers vegna eru flestir sammála því að Die Hard er góð spennumynd eða To Kill a Mockingbird gott drama en ekki að There’s Something About Mary eða Mamma Mia! séu góðar gamanmyndir (svo ég taki dæmi af tveim myndum sem kítluðu ekki hláturtaugar mínar)? Ég lánaði mági mínum einhverja þá fyndnustu mynd sem ég hef séð; Adams æbler, honum stökk ekki einu sinni brosi á vör. Hann bauð mér hins vegar í bíó á fyndnustu mynd sem hann hafði séð; Lange flate ballær, og reyndist það vera leiðinlegasta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð. Þótt ég taki bara dæmi af mági mínum hér hef ég tekið eftir þessu hjá fleirum en honum.

Auðvitað er ég að alhæfa hér. það eru vissulega til dramatískar myndir sem allir eru ekki á einu máli um að séu góðar og það sama á við um spennumyndir, en mér virðist sem það sé sjaldgæfara en þegar gamanmyndir eiga í hlut. Ef ályktun mín er rétt, hvað veldur þessu? Hvers vegna er húmor persónubundnari en spenna eða drama?

url: http://thorkell.annall.is/2009-01-04/er-humor-personubundnari-en-spenna-eda-drama/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 4/1/2009 21.47

Alltaf skal þér takast að spyrja áhugaverðra spurninga Keli :)

Ég hef ekki hugmynd um það hvort eða þá hvernig húmor er persónubundnarni. Velti samt einu fyrir mér: Mætti ekki hugsa sér að vinna svona nokkuð út frá lista eins og topp 250 á imdb? Skoða í hvaða kvikmyndagreinar þær myndir má flokka og vinna svo út frá því …

Þorkell @ 4/1/2009 23.52

Í fyrstu 25 sætunum þar er aðeins ein gamanmynd og hún er í 25. sæti, þ.e. Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop Worrying and Love the Bomb. Næsta mynd er ekki fyrr en í 43. sæti, þ.e. Amelie. Ég held að þetta segi manni eitthvað.

Eva @ 5/1/2009 19.50

Ég hef ekki séð Dr Starngelove en kímnin í Amelie er svo hárfín og sophisticated (ég man ekkert orð á íslensku sem nær merkingunni) að mig grunar að þeir sem hafa valið hana, hafi almennt meiri smekk fyrir drama en húmor. Þú nefnir ekki hrollvekjur, en ég gæti vel trúað að það sama eigi við um þær, þ.e. að smekkur manna sé misjafn.

Hugsanlega er þetta tengt stéttaskiptingu. Ég held að ómenntað fólk hafi oft ruddalegri húmor og sæki meira í líkamlegan hrylling, þar sem þeir sem eru vel inni í táknmáli og skilja vísanir í sögu, pólitík og listir, gera frekar kröfur til þess að myndin höfði til hugsunar


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli