þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« “Djúpar” hugrenningar um Kvk & kk klósett · Heim · Óskars-leikurinn »

Vandinn við ævisögulega kvikmyndir sem listform

Þorkell @ 00.56 18/1/09

Ævisögulegar kvikmyndir klikka oft sem listform. Ástæðan er sú að það er svo auðvelt að detta í formúlu sem hentar kvikmyndinni illa, þ.e. að greina frá ævi einstaklings frá vöggu til grafar þar sem lífshlaup einstaklings er útskýrt út frá einum (eða tveim) vendipunktum. Fyrir það fyrsta er kvikmyndin allt of stutt til að geta tekist á við æviskeið einstaklings (jafnvel þótt myndin sé þrír tímar) og í öðru lagi er líf fólks aldrei það einfalt að það sé hægt að útskýra það út frá einum vinkli. þIð þriðja lagi fylgir líf okkar ekki hefðbundinni byggingu skáldsögu eða kvikmyndar og fellur því illa að hefðbundnum kvikmyndagreinum.

Mér datt því í hug að gera lista yfir myndir sem mér finnst velheppnaðar sem ævisögulegar myndir og skoða síðan hvers vegna þær virka. Hér eru fjögur dæmi:

Fyrst ber að nefna mynd sem ég sé c.a. einu sinni á ári, þ.e. Lawrence of Arabia (1962). Ástæðurnar fyrir því að þessi mynd virkar eru margar. Í fyrsta lagi er hún nógu löng til að takast á við það mikla verkefni sem fyrir liggur (um fjórir tímar). Í öðru lagi er búið að velja mjög afmarkað tímabil úr ævi T. E. Lawrence, en líf hans var það skrautlegt og viðburðaríkt að það hefði verið hægt að gera margar myndir um hann. Það er því aðdáunarvert að kvikmyndagerðarmennirnir stóðust þá freistingu að afmarka sig við Arabíutímabilið. Í þriðja lagi virkar þessi mynd vegna þess að þeir þora að sýna svörtu hliðar Lawrence. Jú það er ekki dregið úr hæfileikum hans og gáfum en það er heldur ekki reynt að fela mistök hans eða galla. Það er ekkert meira pirrandi en eintóm lofgjörð um lífshlaup fólks. Því er líklega best að myndir séu gerðar eftir andlát þess.

Önnur mynd sem mér fannst bera af er I’m Not There. (2007) og það merkilega er að viðfangsefni þeirrar myndar, Bob Dylan, er á lífi. Todd Haynes (sem bæði leikstýrði myndinni og skrifaði handritið) reynir ekki að útskýra ævi Dylans út frá einu einföldu sjónarhorni heldur leyfir margbreytileikanum að njóta sín. Afstaða hans er að við erum ekki bara eitthvað eitt. Við erum stöðugt í hlutverkaleik. Stundum erum við elskhugi, stundum vinur, stundum starfsmaður, stundum foreldri, stundum opinber persóna… Við erum alltaf að takast á við umhverfi okkar og okkur sjálf og einhvers staðar undir þessu öllu saman er svo það sem kalla má sjálf. Hvort það sé einhvern tímann sýnilegt, eða hvort við finnum það einhvern tíman er síðan allt annað mál. Todd Haynes fékk því 6 leikara til að leika 7 hliðar á sama einstaklingnum, þar af eina konu og einn svartan strák. Ein persónan leikur meira að segja skáldskap Dylans (þ.e. Richard Gere).

Þriðja dæmið er La Passion de Jeanne d’Arc (1928). Ástæðan fyrir því að hún gengur upp er fyrst og fremst sú að þar tekst kvikmyndagerðarmanninum (Carl Theodor Dreyer) að afmarka viðfangsefni sitt. Hann velur að kvikmynda bara réttarhöldin og gerir það meira að segja frekar frjálslega, því maður fær það á tilfinninguna að þau hafi bara tekið einn dag. Þá sakar ekki að kvikmyndatakan, klipping, leikstjórn og leikur eru óaðfinnanleg.

Að lokum vil ég nefna Thirty Two Short Films About Glenn Gould (1993). Ég hef reyndar ekki séð þessa mynd í áraraðir en hún hafði mjög sterk áhrif á mig. Í stað þess að reyna að kvikmynda alla ævi Glenn Gould eða að skapa einhverja heildstæða mynd af lífshlaupi hans gerir François Girard 32 stuttmyndir sem byggðar eru á mismunandi atvikum úr ævi hans, og þetta eru ekki endilega stórmerkilegir viðburðir. Uppáhalds myndin mín fjallaði um það þegar Glenn Gould er á hótelherbergi að tala í síma og herbergisþerna kemur inn. Hann fær hana til að setjast niður og setur nýjustu plötu sína á fóninn sem hann var að fá í hendurnar. Stúlkan er frekar óttaslegin í fyrstu en er fljótlega komin í annan heim er hún hlíðir á gullfallegt píanóverkið. Myndin endar með því að hún stendur upp að verkinu loknu og þakkar honum innilega fyrir.

Og að lokum, hvaða ævisögulegar myndir finnst ykkur vel heppnaðar og hvers vegna?

url: http://thorkell.annall.is/2009-01-18/vandinn-vid-aevisogulega-kvikmyndir-sem-listform/

Athugasemdir

Fjöldi 6, nýjasta neðst

Gunnlaugur @ 18/1/2009 08.47

Þakka góðan pistil, Keli. Ég leyfi mér að nefna Patton. Ástæðan er nú ekki sérlega málefnaleg. Mér þykir hún m.a. áhugaverð vegna þess að Sl 63 kemur fyrir í henni -;) og svo er ég almennt áhugasamur um sögulegar stríðsmyndir, eins og þú veist. Listi Schindlers er auðvitað ein stórmynd sem fljótt kemur í hugann.

Hugrún @ 23/1/2009 17.44

Ég held nefnilega að heimildamyndir sem eru gerðar eftir andlát manneskjunnar séu ekki endilega ávísun á að þær séu hlutlausar og betri á þann hátt. Þar er ég með í huga eina íslenska mynd, þar sem mér fannst hún vera lofræða út í eitt – þó rétt væri tæpt á göllum viðkomandi. Hugsanlega er þó sú útskýring þar á að tekin voru viðtöl við aðstandendur og vini sem voru hugsanlega enn í sárum.

Hver sem útskýringin er fannst mér vera talað undir rós um ákveðið mál og kom það ver út en að segja sannleikann hreint út… á hvorn veginn sem hann var.

Ég vona að ég sé ekki of óljós…

Þorkell @ 24/1/2009 10.58

Takk fyrir svarið Hugrún. Jú, skil vel hvað þú ert að fara og er sammála :)

Gunnlaugur @ 24/1/2009 11.29

Eftir á að hyggja er Gandhi líklega einhver besta mynd af þessu tagi sem ég hef séð. Horfði líka á góða heimildamynd um Martin Luther King í vikunni. Kær kveðja til Drammen.

Þorkell @ 24/1/2009 11.35

Já, Gandhi er fín mynd Gunnlaugur. Ég man eftir því, þegar ég sá hana í bíó á sínum tíma, hvað hún hafði sterk áhrif á mig. Líklega hefur engin mynd mótað mig jafn mikið politískt og trúarlega og hún.

Gunnlaugur @ 24/1/2009 16.31

Gaman að heyra þetta, Keli, þ.e. um áhrif Gandhis á þið. Kemur mér raunar ekki á óvart. Var að kaupa mér nýtt eintak af myndinni á útsölu í BT í Smáralind í vikunni, hafði týnt gamla eintakinu og er með í bígerð að horfa á myndina núna um helgina. Myndina sá ég upphaflega í bíó úti í Lundi ásamt íslenskum kunningja úr námsmannanýlendunni þar og vorum við sammála um að myndin hefði virkað mjög sterkt á okkur báða.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli