þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« Hvernig var svo kvikmyndaárið 2008? · Heim · Fyrstur til að kjósa í alþingiskosningum »

Mannþekking

Þorkell @ 04.45 12/3/09

Á Næturskýlinu (Natthjemmet) þar sem ég vinn fáum við reglulega nýja gesti en það er mikilvægt að kynnast fólki sem fyrst svo maður viti hvar maður hefur það og hvar styrkur og veikleiki þess liggur. Og þá vaknar sp. um hvernig best er að kynnast fólki. Þetta á reyndar ekki bara við um Næturskýlið, heldur einnig okkar daglega líf.

Þegar maður kynnist nýju fólki spyr maður oftast sömu spurninganna; er það í sambúð, á það börn, hvaða menntun hefur það og hvaða áhugamál? Út frá þessum spurningum reynir maður síðan að fá mynd af persónunni. Í næturskýlinu þar sem ég vinn reynir maður einnig að grennslast fyrir um fortíð fólks og núverandi ástand til að fá heildstæðari mynd.

Ég hef hins vegar að mestu misst trú á þessar spurningar. Maður getur í raun fengið sömu svör við öllum þessum spurningum frá tveim gjörólíkum persónum.  Spurningarnar eru svo almennar að þær segja manni voða fátt. Annað dæmi er fjöldinn allur af spurningalistum sem maður fær frá vinum og kunningjum um smekk og önnur persónuleg mál sem maður á að senda áfram á alla vini sína til að kynnast betur. Þessar spurningar eru einnig svo almennar að þær segi manni lítið sem ekkert.

Og ég efast um að þrengri spurningar segi manni nokkuð meir. Fólk þekkir mig ekkert betur þótt það viti að ég sef með örþunna kodda (get ómögulega sofið með þykka kodda), drekk úr stóru glasi (helst hálfs lítra) og borða morgunkorn úr risastórri skál.

Ég held í raun að svör við hvers konar spurningum segi okkar frekar fátt, sem sést vel á því að fólk sem verður ástfangið í gegnum netsambönd verður oft fyrir vonbrigðum þegar það hittir loks viðkomandi, jafnvel þótt þau hafi skipst á myndum. Eina leiðin til að raunverulega kynnast fólki er að umgangast það. Maður safnar upplýsingum, meðvitað og ómeðvitað í gegnum hið hversdagslega, t.d. með því að borða saman, spila, fara í göngutúr eða sinna sameiginlegu áhugamáli – þ.e. í gegnum hið látlausa í lífinu. Best er auðvitað ef maður gerir eitthvað saman sem reynir á fólk eins og að ferðast eða leysa flókið vandamál.

Daglegt hátterni og gjörðir fólks segja okkur í raun mun meira um náunga okkar en einhverjir listar yfir áhugamál og viðhorf eða upplýsingar um persónulega hagi. Í raun geta slíkar upplýsingar blindað okkur. Ég fór einu sinni í háskólateiti (þetta var áður en ég fór sjálfur í HÍ) og kynntist þar stúlku sem sýndi mér þó nokkurn áhuga (já slíkt hefur gerst, ótrúlegt en satt). Hún spurði mig eftir dágóða stund í hvaða deild ég væri og sagðist ég ekki vera í skóla heldur vinna við skúringar. Þar með dó allur áhugi dömunnar. Ég var um leið kominn í einhvern kassa, merktur “verkamenn” og slíkt fólk var óáhugavert. Atvinnulausir eiga enn erfiðara uppdráttar, sem og öryrkjar eða fólk með glæpaferil að baki. Í slíkum tilvikum geta upplýsingar gert meiri skaða en gagn.

Ég er því að mestu hættur að spyrja spurninga þegar nýtt fólk kemur á Næturskýlið, í stað þess reyni ég að vera opinn fyrir þeim straumum sem fólk gefur frá sér og taka eftir framkomu og hátterni. Þessir þættir ljúga ekki, á meðan veittar upplýsingar geta verið rangar eða byrgt manni sýn.

url: http://thorkell.annall.is/2009-03-12/mannthekking/

Athugasemdir

Fjöldi 10, nýjasta neðst

Gunnlaugur @ 12/3/2009 09.14

Góður pistill Keli. Mér fannst þú furðufugl í byrjun -;) en það breyttist við kynni og tel ég þig í hópi minna bestu vina þó gjarnan vildi ég geta rækt þá vináttu betur, en mikið var gaman að hitta þig í Noregi í desember og þakka ég á ný fyrir alla velvild mér sýna þar, bíltúr og skoðunarferð í þínum fallega heimabæ að ógleymdri heimsókn á helfararsafnið í Osló.

Gunnlaugur @ 12/3/2009 21.10

Það var ekkert að þakka -;)

Þorkell @ 12/3/2009 21.58

Þakka fögur ummæli Gunnlaugur, þótt seint sé. Var á næturvakt í nótt og svo var kvikmyndakvöld svo ég hef ekki haft tíma til að þakka þér fyrr en nú.

Árni Svanur @ 13/3/2009 18.35

Er þetta ekki spurning um einhverja heildarmynd af manneskjunni sem getur spannað svörin við spurningum af þessu tagi, upplifun okkar á viðkomandi manneskju (hvernig er að vera í námunda hans/hennar) og svo endurteknir fundir og samverur. Stundum áttum við okkur á fólki strax við fyrstu kynni og ekkert kemur á óvart í framhaldi af því, stundum er fólk að koma okkur á óvart aftur og aftur …

Hitt er svo annað mál að þú ert alveg hættur að koma mér á óvart með þínum góðu þönkum … og þó. Það kemur mér ekki á óvart að þegar þú stingur niður penna þá er áhugavert að lesa. En umfjöllunarefnið kemur oft á óvart, skemmtilegar mannlífslýsingar og spurningar sem hvetja til umhugsunar um spennandi efni.

Sveinbjörn K Þorkelsson @ 13/3/2009 22.15

Ójá, hér er kannski falskt að koma með faglegan frasa, jæja tek bara áhættuna á að verða dæmdur í einhvern fastan undirflokk, en að taka eftir “framkomu og hátterni” er kallað að “observera” fólk og er einmitt notað í svona aðstæðum eins og þú Keli lýsir á Næturheimilinu. Ég hugsa að við gerum þetta mikið í daglega lífinu, en þá flækjast reyndar tilfinningar og ýmis bönd svoldið meira fyrir.

Þorkell @ 13/3/2009 22.53

Jú, auðvitað er þetta ekkert nýtt Sveinbjörn en ég held að þetta sé eitthvað sem fólk ætti að gera meira af meðvitað, í stað þess að spyrja að mestu innantómra spurninga.

Og Árni Svanur, vissulega geta spurningar hjálpað en eins og ég benti á þá geta þær einnig skaðað. Ætli það sé ekki bara erfitt að kynnast fólki í raun og veru :)

Sveinbjörn K Þorkelsson @ 14/3/2009 05.48

Ætli maður verði ekki einnig að spyrja því það eru eðlileg mannleg samskipti, ekki getur maður bara þumbast í kringum manneskjuna og skoðað háttalagið, allavega ég held nú að samtal eigi alltaf við. Innantómar spurningar þjóna örugglega sínum tilgangi í þreifingunum. Er það ekki?

Þorkell @ 14/3/2009 06.42

Jú, þær gera það en þá er alveg eins gott að tala um veðrið :)

Eyja @ 24/3/2009 19.51

Já, eins þegar aðrir fara að segja manni hvernig þessi og hinn er, t.d. þegar maður er að byrja að kenna í nýjum skóla þá skekkir það alltaf myndina af persónunni. Ég er allavega búin að læra það að byðja bara um að fá að kinnast fólkinu sjálf frekar en fá nánar upplýsingar um persónuna.
Held að fólk kinnist best í gegnum erfiðleika og sjá hvernig hinn bregst við í mismunandi aðstæðum.

Þorkell @ 24/3/2009 22.53

Gæti ekki verið meira sammála Eyja!


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli