þorkell.annáll.is

AnnállÁhorfGeymslanHugrenningarKvikmyndirPrívatSkrifTrúmál

« “If you want me satisfy me” · Heim ·

“Fertugur karlmaður…”

Þorkell @ 15.49 4/4/09

Nú er bara vika þangað til ég verð fertugur karlmaður og það er undarleg tilfinning. Ég minnist þess þegar maður heyrði talað um karlmenn á fertugsaldri sem létust af slysförum og maður hugsaði með sér: “Jæja, hann hefur þá alla vega lifað nógu lengi.”

Mér fannst ekkert mál að verða þrítugur. Það var bara gaman. En einhverja hluta vegna finnst mér þessi tímamót ægilega stór. Hugurinn leitar til skólafélaga sem ég hef ekki séð síðan ég var táningur, fólk sem ég var gjörsamlega búinn að gleyma. Allt í einu finn ég svo mikla samstöðu með þessu fólki og þörf fyrir að vita hvað á daga þeirra hefur drifið.

Ég hugsa einnig til þess þegar ég var yngri og horfi hneykslaður á allt þetta “gamla” fólk sem hafði “gefist upp”. Naut bara hversdagslegra hluta og hafði lítinn áhuga á byltingum og ævintýrum. Nú átta ég mig á því að ég hef komist að sömu niðurstöðu og þetta “gamla” fólk. Hamingjan felst í hinu hversdagslega. Í hlátri yfir kaffibolla eða göngutúr út í skógi.

Fyrir stuttu las ég bréf sem ég hafði sent mömmu fyrir langa löngu og brá mér verulega, því ég þekkti ekki þennan dreng sem skrifaði bréfið. Eða kannski vildi ég bara ekkert þekkja hann. Mér fannst hann hrokafullur, sjálfumglaður og leiðinlegur.

Og nú er ég að verða fertugur karlmaður, maður sem unglingar hrista hausinn yfir og hefðu litla samúð með þótt ég færist í bílslysi. Mér finnst eins og ég standi hinu megin við “múrinn” og að einhver hafi læst dyrunum.

Já það er undarlegt að verða fertugur karlmaður… Ætli ég sé sá eini sem upplifi þetta svona?

url: http://thorkell.annall.is/2009-04-04/fertugur-karlmadur/

Athugasemdir

Fjöldi 13, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 4/4/2009 17.00

Ég er svo ungur að þetta er ekki enn minn reynsluheimur. Ég er líka svo ungur að ég man vel eftir þrjátíu-og-níu-ára-afmælinu hennar mömmu. Eitt af því sem hún fékk í afmælisgjöf var forláta barmmerki sem á stóð „39 forever“ ;)

Þorkell @ 4/4/2009 17.31

Takk fyrir að deila þessu með okkur Árni Svanur.

Baldur @ 4/4/2009 18.54

Ég lifði það af að verða fertugur :) Nú hlakka ég til að verða almennilega gamall og fá vísdómsjaxla… Það er alltaf eitthvað til að hlakka til, fyrstu gráu hárin, þegar maður tekur eftir því að kollvikin hækka, þegar maður fer að labba eins og önd vegna bumbunnar… Þetta eru allt þroska og vísdómsmerki, sýnir að við erum að ná háum aldri og getum miðlað af okkur þeirri visku sem við höfum safnað… Yeah baby :D

Þorkell @ 4/4/2009 21.54

Ég þakka hughreystinguna Baldur. Já, ég er sannfærður um að þú verður glæsilegt gamalmenni. Reyndar held ég að allur aldur fari þér vel :)

Gunnhildur Reynisdóttir @ 5/4/2009 01.38

Ég varð fertug í desember síðastliðinn, og veistu hvað, mér finnst ég ennþá vera krakki. Mér líður allavega allsekki eins og einhverri “miðaldra kerlingu”. Enda segi ég alltaf að ég ætli að vera “18 till I die”! :D
Eina breytingin sem hefur átt sér stað er sú að ég er farin að lita á mér hárið og þarf að kaupa buxur í aðeins stærri númerum. Verra getur það svosem verið, hehehe…
Ég óska þér fyrirfram til hamingju með afmælið Þorkell minn. Live long and prosper! :)

Gunnlaugur @ 5/4/2009 10.42

Þetta er góður áfangi Keli. Treysti því bara að þú verðir ekki þeirri krísu að bráð sem oft er kennd við þessi tímamót og margur góður drengurinn hefur farið flatt á. Sjálfur varð ég mest hissa á að mér fannst þetta ekki nein tímamót og raunar ekki nein þeirra áramótatíma annarra sem ég hef lifað. Gönglag andarinnar sem gert var að umtalsefni hef hins vegar ég þegar upplifað af eigin raun og eru uppi áform um fjallgöngur og annað slíkt til að bregðast við vandanum. “Öldruð” eiginkona mín hefur upp á síðkastið hughreyst mig er ég hef kvartað undan ýmsum ellieinkennum að ég eigi að þakka fyrir það að hafa náð þessum aldri en ekki kveinka mér undan því. Mikið til í því og nú sækir maður mestu gleðina í samverustundir með barnabörnunum sem eru ekki fjarri börnum þínum í aldri. Þannig að þú ert barn að aldri í mínum augum, Keli minn kær.

Gunnlaugur @ 5/4/2009 10.45

“ekki nein þeirra áratugamóta annarra”, vildi ég sagt hafa.

Þorkell @ 5/4/2009 12.41

Þakka hughreystandi orð Gunnin tvö (Gunnhildur og Gunnlaugur). :)

Sveinbjörn Þorkelsson @ 5/4/2009 16.26

Jæja, Keli, þú getur huggað þig við að ekki ert þú einsamall þarna handan við múrinn, það er fullt af skemmtilegu fólki þarna – lífs og liðið. Eru ekki berskudraumar stundum barnalegir, það er svo lítið sem hægt er að gera á einni mannsævi, en eitthvað samt. Bestu breytingarnar gerast hægt, ekki í byltingum. Held ég – því miður.

Sveinbjörn Þorkelsson @ 5/5/2009 15.17

jæja, þú segir nokkuð. Og var þetta ekki bara ágætt að eiga afmæli?

Þorkell @ 5/5/2009 19.41

Ætli maður sé ekki að komast yfir sjokkið :)

Starri @ 5/1/2010 02.41

Til hamingju með afmælið keli, rakst á síðuna þína á vafri um netið, gæti ég fengið hjá þér E-mail adressuna þína

Þorkell @ 5/1/2010 11.42

Ég sendi þér email Starri.


© þorkell.annáll.is · Færslur · Ummæli